Fara í efni

1. Stöðuskýrsla frá bæjarstjóra vegna COVID-19

Á fundi bæjarráðs þann 19. mars 2020 fór bæjarstjóri yfir hvernig stjórnendur Hveragerðisbæjar hafa undirbúið stofnanir og breytt þjónustu í samræmi við bestu leiðbeiningar á hverjum tíma vegna COVID-19 með það að markmiði að tryggja bæjarbúum öryggi og eins góða þjónustu og hægt er miðað við aðstæður.

Skýrsla nr. 1

Dags: 20. mars 2020

Frá: Aldísi Hafsteinsdóttur, bæjarstjóra
Viðtakendur: bæjarráð/bæjarstjórn.

Stjórnendur hjá Hveragerðisbæ hafa unnið hörðum höndum að því að undirbúa stofnanir og breyta þjónustu í samræmi við bestu leiðbeiningar á hverjum tíma vegna COVID-19 og áfram verður unnið ötullega að því markmiði að tryggja bæjarbúum öryggi og eins góða þjónustu og hægt er miðað við aðstæður. Hægt hefur á samfélaginu og verkefni litast flest með einum eða öðrum hætti af viðbrögðum við COVID-19 þó áfram sé unnið að daglegum störfum eins og nokkur er kostur.

Eftirfarandi er staða einstakra stofnana í bæjarfélaginu.

Bæjarskrifstofa:
Bæjarskrifstofu hefur verið lokað fyrir óviðkomandi umferð og allar heimsóknir eru takmarkaðar svo hægt sé að tryggja órofna starfsemi eins og mögulegt er. Lágmarksmönnun starfsmanna er á skrifstofu þannig að skipt hefur verið í tvær vaktir og er unnið annan hvern dag, hinn daginn vinnur starfsmaður heima. Sími er opinn á hefðbundnum vinnutíma og símtöl send í GSM síma þeirra starfsmanna sem ekki eru við vinnu á bæjarskrifstofu þann dag. Gengið hefur verið frá tengingum í heimatölvur til allra sviðsstjóra og settar upp þrjár fartölvur sem starfsmenn bæjarskrifstofu eru með heima með aðgang að sínum svæðum. Allur umgangur milli hæða er takmarkaður verulega þannig að kaffistofa er á hvorri hæð. Allir snertifletir eru sótthreinsaðir þrisvar á dag. Búið er að setja upp póstkassa við skrifstofuna þannig að hægt er að koma pósti á skrifstofuna.

Fjármál:
Samkvæmt samningi milli Fjármála- og efnahagsráðuneytisins og Sambands íslenskra sveitarfélaga gerir ráðuneytið ráð fyrir því að sveitarfélög fái útsvar greitt með sama hætti og venjulega þrátt fyrir ný lög um tvískiptingu á gjalddaga staðgreiðslu. Í lok vikunnar munu væntanlega verða kynnt sameiginleg áform ríkis og sveitarfélaga vegna viðbragða við þeim áhrifum sem Covid-19 hefur á atvinnulíf og þar með afkomu landsmanna. Þær tillögur verða betur ræddar á fundi bæjarstjórnar. Útibúi Arionbanka í Hveragerði verður lokað frá og með 18. mars vegna Covid-19. Hveragerðisbær fær innleggskort þannig að hægt verður að leggja inn peninga vegna uppgjöra frá stofnunum.

Grunnskólinn í Hveragerði:
Í ljósi þeirrar staðreyndar að ríflega 200 börn í grunnskólanum eru komin í sóttkví og 23 starfsmenn einnig þá var ákveðið að fella niður hefðbundna kennslu í skólanum meðan sóttkvíin varir eða til 24. mars (mæting á þriðjudag). Kennarar sem ekki eru í sóttkví mættu í skólann á mánudag í samræmi við skipulag skólastjórnenda. Lögð er áhersla á að kennarar sinni nemendum sínum eftir sem áður og hvetji þá til náms og virkni. Núna er skipulag hafið vegna skólastarfs þegar nemendur munu mæta aftur í næstu viku. Fyrirkomulag kennslu verður með gjörbreyttu sniði en reynt verður að mæta þeim aðstæðum sem verða uppi á hverjum tíma og tryggja að sem flestir geti notið einhverra tíma í skólanum.

Bungubrekka:
Öll starfsemi frístundaskóla og félagsmiðstöðvar fellur niður á meðan á þessari umfangsmiklu sóttkví nemenda grunnskólans stendur.

Íþróttamannvirki:
Starfsmenn mæta til vinnu í íþróttamannvirkjum í samræmi við vaktaplan en starfsemi er skert í íþróttahúsum þar sem Íþróttafélagið Hamar hefur í bili fellt niður æfingar barna og ungmenna. Húsin eru opin og starfsmenn sinna öðrum störfum á meðan. Unnið er að viðhaldi í íþróttahúsi á meðan (uppsetningu eldhúsinnréttingar). Eldri iðkendur innan Hamars eru að skoða framhaldið og einhverjar æfingar hafa verið haldnir og þá er farið að fyrirmælum sóttvarnalæknis. Í sundlauginni er hefðbundinn opnunartími en gripið hefur til aðgerða og takmarkana í samræmi við tilmæli yfirvalda til dæmis að það séu 2 mtr á milli manna í heitum pottum og ekki fleiri en 2 í gufubaði í einu. Enn hefur þessum stöðum ekki verið lokað enda eru bæði pottar og gufan það stór að hægt er að halda ráðlagðri fjarlægð milli manna. Allar sundbrautir eru uppi (5) í einu þannig að hægt er að halda nauðsynlegri fjarlægð milli manna og koma í veg fyrir leiki og nálægð er þannig getur skapast. Tveir starfsmenn eru í sóttkví af sundlaugarstarfsmönnum en vaktir hafa verið dekkaðar af afleysingafólki.

Bókasafn:
Hefðbundinn opnunartími er á bóksafni en gripið hefur verið til aðgerða vegna sótthreinsunar á bókum, almennt hreinlæti og sprittun.

Upplýsingamiðstöðin:
Starfsmenn vinna nú á vöktum og lokað er í hádegi til að sótthreina og yfirfara milli vakta. Mjög hefur dregið úr aðsókn.

Leikskólar Óskaland
Leikskólar eru opnir í samræmi við tilmæli sóttvarnarlæknis en foreldrar hafa verið beðnir um að taka tillit til þessara sérstöku aðstæðna og þeir sem geta haft börn sín heima geri það til að létta á starfinu.

Skráð börn á leikskóla eru 78. Þann 17. mars hafa forráðamenn 45 barna boðað að þau muni ekki mæta þessa viku. 33 börn eru mætt í dag. Veikir starfsmenn og forfallaðir af öðrum ástæðum eru 11 og 1 í fríi. Staðan verður endurmetin í lok vikunnar.

Leikskólinn Undraland:
Leikskólar eru opnir í samræmi við tilmæli sóttvarnarlæknis en foreldrar hafa verið beðnir um að taka tillit til þessara sérstöku aðstæðna og þeir sem geta haft börn sín heima geri það til að létta á starfinu.

Skráð börn á leikskóla eru 104. Þann 17. mars hafa forráðamenn 41 barns boðað að þau muni ekki mæta þessa viku. 27 börn eru mætt í dag af 63 sem ekki eru skráð fjarverandi. Búið er að kanna mætingu næstu vikna og liggur hún fyrir en getur hæglega breyst hratt. Helmingur starfsmanna var sendur heim snemma til að gera klárt fyrir slaginn næsta dag og ætla að gera það þegar aðstæður leyfa. Eins eru börn send heim sem eru með hósta eða kvef. Þrír starfsmenn eru í sóttkví eða með börn í sóttkví. Fjórir veikir og einn í fríi. Staðan verður endurmetin í lok vikunnar. Matur er sendur á milli með leigubíl eins og verið hefur og ekki er breyting á því í bili.


Heimaþjónusta:
Notendur félagslegrar heimaþjónustu eru um 80 talsins. Búið er að flokka þjónustuþega eftir skilgreiningum almannavarnarstiga A og B ásamt því að forgangsraða eftir mikilvægi þjónustu. Nú eru um 11 þjónustuþegar sem eru í forgangi og mega ekki við því að missa þjónustu og 23 þjónustuþegar eru í forgangi 2 sem þarf að fylgjast með og sinna þegar forgangi 1 hefur verið mætt. Aðrir eru í forgangi 3 og mega við því að missa úr þjónustu í takmarkaðan tíma.

Fundað hefur verið með starfsfólki til að fara yfir fyrirmæli almannavarna og viðbragðsáætlanir. Starfsfólk vinnur nú eitt og sér og er eingöngu í samskiptum í gegnum lokaðan fésbókarhóp og síma. Allir hafa fengið hanska, sótthreinsi og skurðstofugrímur til þess að nota á meðan á þjónustu stendur. Þjónustunotendur fengu allir einblöðung með mikilvægum upplýsingum hvað varðar kórónaveiruna, fyrirmæli almannavarna og áætlanir heimaþjónustu. Einnig er hringt í alla þjónustunotendur áður en starfsfólk kemur til þess að taka stöðu varðandi heilsu og hvort notendur vilji þiggja þjónustu.

Heimilið Birkimörk:
Einn starfsmaður hefur fengið tilmæli um að vera í sóttkví til 23. mars. Öllum námskeiðum íbúa hjá Fræðsluneti Suðurlands hefur verið aflýst. Íbúar sækja enn vinnu og hæfingu á Viss með lítilsháttar breyttri tilhögun. Settar hafa verið reglur um heimsóknir (í raun allir í heimsóknarbanni nema foreldrar íbúa). Sjúkraþjálfun íbúa er enn með eðlilegum hætti. Öllum öðrum ferðum íbúa út úr húsi hefur verið hætt. Á heimilinu er eftir fremsta megni reynt að halda eðlilegri rútínu miðað við aðstæður og að fyrirmælum sóttvarnalæknis og almannavarna sé hlýtt.

Umhverfisdeild og veitur:
Verið er að vinna venjubundin verk en á morgun verður skipulag um vaktaskipti og fyrirkomulag kynnt. Störf starfsmanna eru yfirleitt aðskilin en reynt verður að takmarka samskipti eins og hægt er. Umhverfisfulltrúi og verkstjóri í áhaldahúsi eru staðgenglar hvors annars og hittast ekki til að tryggja staðgenglafyrirkomulagið. Bakvarðasveit fyrrverandi starfsmanna er tilbúin til starfa ef á þarf að halda. Gámasvæðið er opið en starfsmenn aðstoða ekki notendur og halda fjarlægð. Mögulega þarf að minnka þjónustu og breyta opnunartíma og verður það þá kynnt vel. Ekkert lát er á snjómokstri því miður.

Bygginga, skipulags- og tæknideild:
Starfsemi er hefðbundin og starfsmenn eru komnir með tengingar heim þannig að mögulegt verður að sinna allri starfsemi þrátt fyrir að starfsmenn séu ekki á staðnum.

Tillögur til bæjarráðs:
Lagt er til að þjónustugjöld v/ leikskóla, heilsdagsskóla og mötuneytis verði ekki innheimt þegar börn eru heima vegna sóttkvíar eða veikinda.

Aldís Hafsteinsdóttir
Bæjarstjóri

 


Síðast breytt: 27. mars 2020
Getum við bætt efni síðunnar?