Fara í efni

Stoðir garðyrkjunáms að Reykjum verði styrktar

Mynd tekin á Garðyrkjuskólanum að Reykjum
Mynd tekin á Garðyrkjuskólanum að Reykjum

Í ljósi umræðu um stöðu garðyrkjunáms og stöðu kennslu að Reykjum bókaði Bæjarráð Hveragerðisbæjar eftirfarandi á fundi sínum þann 8. apríl s.l. :

Bæjarráð lýsir yfir ánægju með fund menntamálaráðherra og allra bæjarfulltrúa Hveragerðisbæjar sem haldinn var í vikunni þar sem staða garðyrkjuskólans að Reykjum var rædd. Bæjarfulltrúar höfðu áður hitt starfsmenn að Reykjum þar sem farið var yfir málefni skólans auk þess sem bæjarstjóri hefur átt fundi með ráðherra og öðrum aðilum sem látið hafa sig málið varða að undanförnu.

Bæjarráð vonar að væntanleg tengsl garðyrkjunámsins við Fjölbrautaskóla Suðurlands (Fsu) verði farsæl. Mikilvægt er að stoðir garðyrkjunáms að Reykjum verði styrktar þannig að nám og kennsla geti dafnað til framtíðar og uppfyllt þannig þarfir atvinnulífsins fyrir hæft og vel menntað starfsfólk. Jafnframt að öll aðstaða og landsvæði að Reykjum muni áfram nýtast garðyrkjumenntun og ekkert verði gert sem takmarkar aðgang garðyrkjunámsins að þessu svæði.

Jörðin Reykir býr yfir miklum möguleikum til framtíðar. Notkun jarðarinnar er samtvinnuð uppbyggingu garðyrkju á Íslandi og því er mikilvægt að staðurinn fái, í samvinnu við græna geirann, tækifæri til að auka og efla starfsemi á staðnum. Garðyrkja og skólinn að Reykjum er samofin sögu og atvinnulífi Hveragerðisbæjar en einnig og ekki síður Suðurlands alls. Bæjarráð telur mikilvægt að þar haldi uppbygging áfram til framtíðar og treystir þeim orðum ráðherra að fljótlega muni nást farsæl niðurstaða í þetta mál.


Síðast breytt: 12. apríl 2021
Getum við bætt efni síðunnar?