Fara í efni

Hvergerðingar ánægðustu íbúar landsins

95% íbúa eru ánægðir eða frekar ánægðir þegar spurt er um þjónustu bæjarfélagsins í sveitarfélagakönnun Gallup sem birt var nýverið. Er þessi niðurstaða góð vísbending um að áherslur bæjarstjórnar séu í takt við væntingar og óskir bæjarbúa.

Bæjarstjórn hefur lýst yfir ánægju með góða niðurstöðu þjónustukönnunarinnar sem styrkir bæjarstjórn og starfsmenn í áframhaldandi störfum og eykur vilja til að gera enn betur.


Niðurstaða úr könnun Gallup á ánægju íbúa með þjónustu síns bæjarfélags liggur nú fyrir. Á undanförnum árum hefur ánægja íbúa í Hveragerðisbæ ávallt verið hvað mest á landinu. Nú ber svo við að Hvergerðingar eru ánægðastir allra íbúa á landinu og í fjölmörgum málaflokkum er slíkt hið sama staðreynd. Þegar litið er til meðaltals þá er ánægja ibúa í Hveragerði alls staðar yfir meðaltali nema þegar spurt er um ánægju um þjónustu við fatlað fólk en þar er ánægja íbúa á pari við meðaltalið.

95% íbúa frekar eða mjög ánægðir

Þegar spurt er um hversu ánægð(ur) eða óánægð(ur) þú ert með sveitarfélagið sem stað til að búa á segjast 95% íbúa vera ánægðir eða frekar ánægðir. Slík niðurstaða er hvatning til áframhaldandi góðra verka og mikil viðurkenning til starfsmanna fyrir þeirra góðu störf. Þarna skipa Hvergerðingar sér í efsta sæti allra. Fyrsta sætið er einnig Hvergerðinga þegar spurt er um þjónustu leikskóla en 88% eru ánægðir eða frekar ánægðir með þær stofnanir.

Eldra fólk

Einn málaflokkur sker sig áberandi úr hvað varðar ánægju með þjónstu. Þegar spurt er um ánægju með þjónustu við eldra fólk í bæjarfélaginu þá er Hveragerði enn og aftur í fyrsta sæti og nú þó nokkuð fyrir ofan þá er næstir koma. Er þetta ánægjuleg staðreynd en gott samfélag hlýtur alltaf að vilja hlúa hvað best að þeim sem eru yngstir og þeim sem eru elstir. Hvað það varðar virðumst við vera á réttri braut þó ávallt sé hægt að gera betur og að því munum við stefna.

Bæjarstjórn ánægð með niðurstöðuna

Á bæjarstjórnarfundinum var eftirfarandi bókun samþykkt samhljóða:

Bæjarstjórn lýsir yfir ánægju með góða niðurstöðu þjónustukönnunarinnar sem styrkir bæjarstjórn og starfsmenn í áframhaldandi störfum og eykur vilja til að gera enn betur.

Það er áberandi að ánægja íbúa er vel yfir meðaltali annarra sveitarfélaga í nær því öllum málaflokkum. Sérstaklega ríkir mikil ánægja með menningarmál, skipulagsmál, gæði umhverfis, þjónustu leikskóla og þjónustu við eldri borgara en þar skipar Hveragerðisbær sér í efsta sætið.

Frá síðustu könnun er áberandi að sjá hversu mjög ánægja íbúa hefur aukist almennt. Þar má nefna að ánægja með þjónustu leikskóla hefur aukist, sem og ánægja með aðstöðu til íþróttaiðkunar og á sviði menningarmála. Grunnskólinn er síðan hástökkvari ársins sem er afar ánægjulegt. Enn og aftur er ánægja eldri borgara að aukast frá því síðast en í þeim málaflokki hefur Hveragerði ávallt verið á toppnum.

Bæjarstjórn vill þakka Matthíasi Þorvaldssyni, fulltrúa Gallup fyrir góða yfirferð yfir niðurstöður könnunarinnar en kynningin fór fram áður en bæjarstjórnarfundur hófst.

Aldís Hafsteinsdóttir
Bæjarstjóri

Meðfylgjandi myndir tók Birgir Helgson af hópi íbúa sem nú stunda heilsueflingu í Hamarshöll 3x í viku. Allir velkomnir !


Síðast breytt: 18. febrúar 2020
Getum við bætt efni síðunnar?