Fara í efni

Hvatt til fjölgunar opinberra starfa í landsbyggðarsveitarfélögum

Hveragerði séð frá Reykjafjalli.
Hveragerði séð frá Reykjafjalli.
Á fundi bæjarráðs Hveragerðisbæjar þann 3. júlí 2020 var tekið til afgreiðslu bréf frá byggðarráði Skagafjarðar þar sem stjórnvöld eru hvött til áframhaldandi góðra verka er kemur að fjölgun opinberra starfa hjá landsbyggðarsveitarfélögum, jafnframt er skorað á önnur sveitarfélög að taka undir áskorun byggðarráðs um eflingu og fjölgun opinberra starfa á landsbyggðinni.

Afgreiðsla bæjarráðs var eftirfarandi:
Bæjarráð tekur undir sjónarmið um að brýnt er að fjölga opinberum störfum utan höfuðborgarsvæðisins. Stíga þarf stór skref í þá átt enda er fjölgun opinberra starfa mikilvægur þáttur í að efla atvinnu og auka fjölbreytni atvinnulífs á Íslandi öllu. Athygli hefur vakið að stofnanir sem að undanförnu hafa auglýst eftir nýju húsnæði fyrir höfuðstöðvar eins og Vegagerðin og Skatturinn hafa eingöngu óskað eftir húsnæði miðsvæðis á höfuðborgarsvæðinu. Slík stýring er með öllu óeðlileg sérstaklega þegar við nú stöndum mitt í fjórðu "iðn" byltingunni og störf án staðsetningar ættu að vera regla frekar en undantekning auk þess sem þjónustuþegar eiga yfirleitt greiða leið að þjónustu eftir stafrænum leiðum og því er staðsetning húsnæðis þessara stofnana úti á landi löngu orðinn raunhæfur kostur. Bæjarráð minnir um leið á að Hveragerðisbær er ákjósanleg staðsetning fyrir bæði stofnanir og fyrirtæki sem öll ættu í auknum mæli að víkka sjóndeildarhringinn þegar kemur að ákvörðun um staðsetningu.

Bókun bæjarráðs hefur verið komið á framfæri við formenn allra stjórnmálaflokka sem sæti eiga á Alþingi. 

Síðast breytt: 8. júlí 2020
Getum við bætt efni síðunnar?