Fara í efni

Umhverfisnefnd

42. fundur 22. september 2021 kl. 17:00 - 19:00 í fundarsal Breiðumörk 20
Nefndarmenn
  • Bryndís Eir Þorsteinsdóttir formaður
  • Pétur Reynisson
  • Thelma Rós Kristinsdóttir
  • Sigrún Árnadóttir
  • Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir
Starfsmenn
  • Höskuldur Þorbjarnarson umhverfisstjóri
  • Kristín Snorradóttir garðyrkjustjóri
Fundargerð ritaði: Höskuldur Þorbjarnarsson Umhverfisfulltrúi
Dagskrá

1.Zero waste verkefnið í Hveragerði og árangur af því.

2109112

Zero waste tilraunaverkefnið er búið að vera í gangi í eitt ár hjá hópi sjálfboðaliða í Hveragerðisbæ undir handleiðslu Elísabetar Björneyar Lárusdóttur. Hún kom og kynnti fyrir Umhverfisnefndinni hvað þau eru búin að vera að gera síðastliðið ár og hverju sjálfboðaliðarnir hafa áorkað. Elísabet leggur til að umhverfisnefndin taki við þessu verkefni þannig að Hveragerðisbær geti haldið áfram að vera leiðandi í þessum stóra og mikilvæga málaflokki.
Umhverfisnefnd leggur til að vinna verði hafin við að nefndin taki við verkefninu og að umhverfisfulltrúi verði verkefnisstjóri. Í því gæti falist að breyta verði skilgreindu hlutverki umhverfisnefndar og starfslýsingu umhverfisfulltrúa.

2.Umhverfisstefna Hveragerðis.

2109113

Umhverfisnefndin hélt áfram umræðum um endurnýjun umhverfisstefnu bæjarins enda er núverandi stefna komin nokkuð til ára sinna. Mikilvægt er að flétta úrgangsmálum samanber lið 1 inn í stefnuna sem og heimsmarkmiðum sameinuðu þjóðanna og loftslagsmarkmiðum inn í nýja umhverfisstefnu.
Umhverfisnefnd leggur til að næsti fundur nefndarinnar verði vinnufundur tileinkaður umhverfisstefnu bæjarins

3.Helstu verkefni umhverfisdeildar undanfarið ár.

2109114

Umhverfisdeild hefur haft afar mikið að gera undanfarið enda bærinn sístækkandi og mikið um bæði ný- og viðhaldsframkvæmdir. Búið er á þessu ári að malbika talsvert af eldri götum bæjarins og einnig er unnið að því með skipulögðum hætti að malbika göngustíga í eldri hverfum bæjarins. Mikið hefur verið að gera við að tengja ný hús við vatnsveitu og líður varla sú vika að ekki séu tengd jafnvel nokkur hús. Fjölmörg önnur tilfallandi verkefni hafa verið unnin ásamat þeim reglubundnu.
Umhverfisnefnd þakkar umhverfisdeild og starfsmönnum hennar vel unnin störf.

4.Helstu verkefni garðyrkjudeildar undanfarið ár.

2109115

Garðyrkjufulltrúi fer yfir helstu verkefni sem garðyrkjudeildin og vinnuskólinn tóku að sér í sumar, en í vor og sumar var farið í að bæta ástand nokkurra grænna svæða í bænum til muna. Beðin í bænum voru hreinsuð, sumarblóm sett í ker og beð, og eitthvað af beðum endurnýjuð þar sem gömul eða illa farin tré og runnar voru fjarlægð og nýr gróður settur í staðin.
Umhverfisnefnd þakkar garðyrkjudeild og starfsmönnum hennar vel unnin störf. Nefndin mælist til við bæjarráð að skipulag vinnuskólans verði endurskoðað.

5.Framtíðarverkefni garðyrkjudeildar.

2109116

Garðyrkjufulltrúi fer yfir helstu verkefni sem eru framundan á næstu árum. En með stækkandi bæjarfélagi fylgir gerð nýrra beða og grænna svæða, ásamt umhirðu þeirra. Stefnt er á átak í stéttahreinsun í bænum á næstu misserum. Einnig verður haldið áfram með verkefni þessa árs í að bæta ástand grænu svæðanna í eldri hverfunum ásamt almennri umhirðu á beðum, gróðursetningu sumarblóma og klippingu trjáa og runna.
Umhverfisnefnd fagnar framtíðarsýn Garðyrkjufulltrúa og hvetur hana til dáða í störfum sinum.

6.Meiri hringrás - dagskrá í Grunnskólanum um sorpmál og endurvinnslu þann 30. september 2021.

2109117

Fjölbreytt erindi og uppákomur á vegum zero waste hópsins ásamt fleirum verða á dagskrá. Margvíslegur fróðleikur og fræðsla verður í boði sem vonandi mun nýtast bæjarbúum til að bæta meðhöndlun úrgangs.
Umhverfisnefnd fagnar þessu framtaki hópsins enda verða úrgangsmál sífellt mikilvægara málefni.

7.Magn úrgangs á starfssvæði Sorpstöðvar Suðurlands 2020 og þróun síðustu fimm ára

2109118

Á fundi bæjarráðs þann 24 júní. 2021 var lögð fram skýrsla um úrgangstölur frá starfssvæði Sorpsamlags Suðurlands fyrir árið 2020 og þróun síðust 5 ára þar á undan. Bæjarráð fól umhverfisnefnd að fjalla um skýrsluna.

Margt áhugavert kemur fram í skýrslunni en hún sýnir að heldur er að aukast úrgangur frá íbúum á starfssvæði SOS. Það er ekki góð þróun en það jákvæða fyrir Hveragerði er að í engu sveitarfélaganna fer hærra hlutfall úrgangs til endurvinnslu. Betur má ef duga skal og mikilvægt er að minnka úrgang sem fer til urðunar. Besta aðferðin til þess er að minnka magn úrgangs í heild sinni og ráðstafa betur því sem óhjákvæmilega fellur til með því að auka endurnotkun, endurnýtingu og endurvinnslu. Að urða úrgang á alltaf að vera síðasta úrræðið og ættu allir að stefna á úrgangslausan lífsstíl samanber lið 1. Umhvefisnefnd hvetur því íbúa Hveragerðis til að minnka úrgang og bæta enn flokkun á því sem óhjákvæmilega þarf að henda.

8.Samþykkt um gjaldskrá vegna refa og minkaveiða.

2109119

Ekki hefur verið til gjaldskrá vegna veiða á ref og mink í Hveragerði. Refir fara hér um en ekki er vitað um greni. Hér er ekki sauðfjárbúskapur og því lítil þörf á að veiða hann. Minkur er ágeng innflutt tegund í íslenskri náttúru þar sem hann getur valdið ómældum skaða. Það er því mikilvægt að veiða hann hvar sem til hans næst. Nokkuð er um mink við Varmá og veiðast nokkrir á ári. Hér er því lögð fram drög að gjaldskrá vegna veiða á ref og mink.
Umhverfisnefnd vísar drögunum til bæjarráðs.

Fundi slitið - kl. 19:00.

Getum við bætt efni síðunnar?