Fara í efni

Umhverfisnefnd

39. fundur 24. febrúar 2021 kl. 17:00 - 19:00 í fundarsal Breiðumörk 20
Nefndarmenn
  • Bryndís Eir Þorsteinsdóttir formaður
  • Pétur Reynisson
  • Thelma Rós Kristinsdóttir
  • Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir
  • Gunnar Biering Agnarsson
  • Höskuldur Þorbjarnarson
  • Kristín Snorradóttir
Fundargerð ritaði: Höskuldur Þorbjarnarsson Umhverfisfulltrúi
Dagskrá
Bryndís Eir Þorsteinsdóttir, formaður, setti fund og stjórnaði. Leitaði hún eftir athugasemdum við fundarboð en engar komu fram.

1.Zero waste verkefnið í Hveragerði - Úrgangsmál og flokkun í stofnunum bæjarins

2102045

Hveragerðisbær var valin sem tilraunasveitafélag í Zero waste verkefninu. Þar er lögð áhersla á að minnka úrgang, auka endurnýtingu og endurvinnslu. Hveragerðisbær stendur fyrir umtalsverðri starfsemi líkt og önnur sveitarfélög og óhjákvæmilega fellur ýmis úrgangur til við það. Flokkun úrgangs er góð í mörgum stofnunum bæjarins svo sem í grunnskólanum en það er ekki algilt svo samræma þarf úrgangsmál í stofnunum bæjarins.
Umhverfisnefnd felur Umhverfisfulltrúa að gera könnun á flokkun og möguleika stofnana bæjarins á að flokka úrgang. Ef með þarf er Umhverfisfulltrúa falið að gera þær úrbætur sem þarf.

2.Erindi frá bæjarstjórn þar sem beðið er um umsögn vegna draga að samþykkt um vatnsvernd frá Heilbrigðiseftirliti Suðurlands

2102050

Vatn er ein af okkar mikilvægustu auðlindum, án þess getur líf ekki þrifist. Hér á Íslandi erum við afar heppin með magn, gæði og í flestum tilfellum aðgengi að fyrsta flokks vatni. Starfssvæði
Heilbrigðiseftirlits Suðurlands b.s. er engin undantekning þar á. Þetta er hins vegar afar viðkvæm auðlind sem þarf að vernda. HES hefur sett fram drög að samþykkt um verndarsvæði vatnsbóla á sínu starfssvæði og beðið hlutaðeigandi sveitarstjórnir um umsagnir. Bæjarstjórn Hveragerðisbæjar fól á fundi sínum þann 11. febrúar 2021 Umhverfisnefnd að gefa umsögn sína um málið.
Umhverfisnefnd lýsir ánægju sinni með framkomin drög að samþykkt um verndarsvæði vatnsbóla. Það er nauðsynlegt að skýrar reglur gildi um þessi svæði en mengunarslys á þeim gætu haft afar neikvæðar afleiðngar í för með sér. Reglurnar taka á flestu því sem ógnað getur vatnsbólum þó aldrei sé hægt að "byrgja alla brunna" þegar kemur að þessum málum. Reglurnar eru á sama tíma ekki úr hófi íþyngjandi þegar kemur að málum eins og uppgræðslu og nauðsynlegum samgöngum. Umhverfisnefnd leggur til að þessi drög verði samþykkt.

3.Plokkdagur

2102046

Þann 24. apríl næstkomandi verður stóri plokkdagurinn haldinn. Hveragerðisbær hefur áður tekið þátt með góðum árangri. Tímasetning dagsins er afar hentug þar sem oft kemur ýmislegt rusl í ljós á vorin.
Umhverfisnefnd felur Umhverfisfulltrúa að undirbúa Stóra plokkdaginn í Hveragerði, auglýsa hann fyrir almenning og gera þær ráðstafanir sem þarf til að hann verði Hvergerðingum til gagns og ánægju.

4.Aðgengi og umhverfi við Hamarinn

2102047

Hamarinn og umhverfi hans njóta sífellt meiri vinsælda sem útivistasvæði meðal Hvergerðinga. Nýlega var gönguleið í gegnum skógræktina sunnan Hamarsins bætt mjög með nýju yfirborði, endurnýjun trappa við Dynskóga og lýsingu auk annars. Ýmislegt mætti þó bæta svo sem aðgengi að gangstígakerfi bæjarins við Kambahraun, aðgengi að göngustígakerfi inn í skógræktinni, pollamyndun og fleira.
Garðyrkjufulltrúa og Umhverfisfulltrúa er falið að bæta gönguleiðirnar og umhverfi fyrir sunnan Hamarinn eftir því sem aðstæður leyfa. Þar sem það svæði sem um er rætt er að mestu leiti innan þess svæðis sem Skógræktarfélag Hveragerðis hefur ræktað þarf að hafa samráð og samstarf við það um allar framkvæmdir.

5.Umhverfisvænna vélaval Garðyrkjudeildar

2102048

Bruni jarðefnaeldsneytis er ein helsta uppspretta mengunar og gróðurhúsaloftegunda á jörðinni. Smávélar ýmisskonar eru sérstaklega mengandi en bruninn í þeim er gjarnan ófullkominn þar sem nýjustu tækni verður ekki við komið. Rafhlöðutækni hefur fleygt fram á síðustu árum og nú er svo komið að ýmis garðyrkjutæki eru fáanleg rafknúin. Þessi tæki eru orðin af þeim gæðum og endast það vel að mögulegt er að nota þau til krefjandi garðyrkjustarfa. Þar sem rafmagnsvélunum fylgir hvorki loft né hljóðmengun verður starfumhverfi þeirra sem með þær vinna mun heilsusamlegra og einnig verður hægt að nýta þær innanhúss svo sem í gróðurhúsum. Garðyrkjudeild Hveragerðisbæjar stefnir á að skipta þeim vélum sem brenna jarðefnaeldsneyti út fyrir rafknúnar vélar eftir því sem aðstæður gefa tilefni til.

Umhverfisnefnd fagnar því framtaki garðyrkjudeildar enda leiði það til minni mengunar frá starfsemi bæjarins.

6.Verkefnin framundan í lystgarðinum Fossflöt

2102049

Mikið hefur verið gert í lystigarðinum undanfarið og megum við þakka því Vinum lystigarðsins og Garðyrkjudeild Hveragerðis. Hvergi er lát á og þegar vorar munu þessir aðilar halda áfram því góða starfi sem hafið er, gaman var að sjá hvað Garðyrkjudeildin gerði garðinn jólalegan og margir gerðu sér ferð i garðinn kringum hátíðarnar. Hönnun og teikning á nýju sviði er á lokametrunum og verður það mikið fagnaðarefni að sjá það rísa. Hópur eldri borgara í bænum eru að fara að vinna að samfélagsverkefni að smíða risastórann stól sem er hugsaður þannig að fólk geti sest í hann og tekið mynd af sér í honum, stóll þessi er hugsaður til að prýða lystigarðinn og verður hann settur upp í sumar.
Lystigarðurinn er "græna hjarta" bæjarins og því ákaflega ánægjulegt að sjá framfarirnar sem þar eru að verða. Vinir Fossflatar eiga heiður skilinn fyir þeirra drifkraft og framtakssemi í samstarfi við Garðyrkjudeildina. Umhverfisnefnd vonast til að framhald verði þar á og mun leggja sitt lóð á vogarskálarnar til að svo megi verða.
Fundargerð upplesin og samþykkt.

Fundi slitið - kl. 19:00.

Getum við bætt efni síðunnar?