Fara í efni

Umhverfisnefnd

32. fundur 22. október 2019 kl. 17:00 - 18:55 Breiðamörk 20
Nefndarmenn
  • Bryndís Eir Þorsteinsdóttir formaður
  • Pétur Reynisson
  • Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir
  • Thelma Rós Kristinsdóttir
  • Sigrún Árnadóttir
Starfsmenn
  • Höskuldur Þorbjarnarson
Fundargerð ritaði: Höskuldur Þorbjarnarson Umhverfisfulltrúi

Bryndís Eir Þorsteinsdóttir formaður setti fund og stjórnaði. Leitaði hún eftir athugasemdum við fundarboð en engar komu fram. 

 DAGSKRÁ.

  1. Fjárhagsáætlun 2020
    Unnið er að fjárhagsáætlun fyrir árið 2020. Vinnan gengur vel en reiknað er með að flestir liðir verði svipaðir og í fyrra. Umhverfisfulltrúi gerir tillögur um lítilsháttar breytingar hér og þar og mun bæjarráð taka afstöðu til þeirra. Umhverfisnefnd hvetur til þess að umræður fari fram um framtíð viðburðarins „Blóm í Bæ“ með tilliti til gerðar fjárhagsáætlunar 2020. Einnig bendir nefndin á að gera verður ráð fyrir fjármagni til að innleiða Heimsmarkmið Sameinuðu Þjóðanna (sjá lið 5).
  2. Nýtt kerfi til að skrá fundargerðir (OneSystems)
    Verið er að taka í notkun samræmt kerfi til að halda utanum fundargerðir nefnda bæjarins. Hingað til hefur hver nefnd haft sitt kerfi á þessum hlutum en vonast er til að öll meðhöndlun gagna verði mun straumlínulagaðri með þessu nýja kerfi. Umhverfisnefnd fagnar upptöku nýja kerfisins og einsetur sér að taka það í notkun sem allra fyrst.
  3. Vinir Fossflatar – Sjálfboðaliðastarf í lystigarðinum
    Nokkur fjöldi sjálfboðaliða með þrautreynda garðyrkjumenn í fararbroddi hefur tekið að sér ýmis verkefni í lystigarðinum að undanförnu til að fegra hann og endurnýja. Fyrsti vinnudagur hefur verið haldinn. Fór hann vel fram og mættu margir. Umhverfisnefnd fagnar þessu framtaki íbúa og styður það heilshugar. Nefndin vill einnig koma á framfæri þakklæti til sjálfboðaliðanna og vonast til þess að þessu góða starfi verði fram haldið.
  4. Listaverk/göngustígur milli Heiðmerkur og Þórsmerkur
    Nýverið var samþykkt af bæjarráði að ráðast í frágang svæðisins í kringum friðað hlyntré við Heiðmörk 43a. Ákveðið var að helluleggja svæðið og setja þar upp hlaðna bekki auk þess sem í hellulögnina væri mótað listaverk. Ingvar Björn Þorsteinsson listamaður sem kynnti hugmyndina í upphafi var fenginn til verksins og er því nú nærri lokið. Afar vel hefur tekist til og er útlit fyrir að svæðið verði til mikils sóma fyrir bæinn.
  5. Heimsmarkmið Sameinuðu Þjóðanna
    Bæjarráð samþykkti þann 16. maí síðastliðinn að Hveragerðisbær skyldi innleiða valin heimsmarkmið Sameinuðu Þjóðanna. Umræður um hvaða markmið umhverfisnefnd skuli einbeita sér að og hvernig vinna við þau skuli fara fram fór fram á fundinum. Ákveðið var að halda sérstakan fund í nóvember hjá nefndinni þar sem unnið verður að markmiðunum. Frumdrög að skýrslu nefndarinnar um innleiðingu markmiðanna verða tilbúin eftir þann fund. Einnig var ákveðið að umhverfisstefna bæjarins skuli endurskoðuð og aðlöguð að heimsmarkmiðunum.

 

Fundargerð var samþykkt samhljóða og fundi slitið.

Getum við bætt efni síðunnar?