Fara í efni

Umhverfisnefnd

22. fundur 31. október 2017 kl. 17:00 - 19:10 Breiðamörk 20
Nefndarmenn
 • Unnur Þormóðsdóttir
 • Pétur Reynisson
 • Sigurbjörg Sara Sveinsdóttir
 • Guðjón Óskar Kristjánsson
 • Berglind Hofland Sigurðardóttir
Starfsmenn
 • Höskuldur Þorbjarnarson
Fundargerð ritaði: Höskuldur Þorbjarnarson Umhverfisfulltrúi

Unnur Þormóðsdóttir formaður setti fund og stjórnaði. Leitaði hún eftir athugasemdum við fundarboð en engar komu fram. 

 

DAGSKRÁ.

1.  Fræðsla til almennings er varðar sorpflokkun, plastpokalaust suðurland , garðrækt og umhverfi.
Umhverfisfulltrúa er falið að skipuleggja íbúafund um mánaðamótin janúar – febrúar 2018 um sorpflokkun og plastlaust samfélag. Lagt er til að kanna hvort Stefán Gíslason umhverfisstjórnunarfræðingur geti komið og haldið erindi. Umhverfisfulltrúa er einnig falið að skipuleggja fræðslufund í byrjun maí fyrir íbúa um fjölæringa, matjurtir og heimilisgarðrækt. Lagt er til að kanna hvort til dæmis Sigríður Embla Heiðmarsdóttir umhverfisskipulagsfræðingur og Auður Ottesen garðyrkjufræðingur geti komið og haldið erindi.

 2. Plastpokalaust Hveragerði – hver er staðan.
Búið er að ræða við aðila í grunnskólanum og dvalarheimilinu Ási um að taka þátt í að sauma poka. Væntingar umhverfisnefndar eru að annaðhvort félagasamtök eða hópur áhugasamra íbúa um umhverfismál vilji taka að sér umsjón verkefnisins og halda því gangandi. Nefndin sér einnig  fyrir sér að íbúar geti tekið sig saman um að hittast og sauma fjölnota poka eins og gert er á Höfn í Hornafirði.  Bent er á fésbókarsíðuna pokastöðin Hornafjörður – plastpokalaus Hornafjörður.

 3. Bílhræ og rusl á almannafæri.
Umhverfisnefnd hvetur íbúa til að ganga vel um bæði almannarými og einkalóðir enda viljum við hafa bæinn okkar sem snyrtilegastan. Hveragerði er okkar allra og saman getum við alltaf gert betur í umhverfismálum og fegrun bæjarins. Nokkuð hefur borið á númeralausum bílhræjum á lóðum bæjarins, eigendur þeirra eru hvattir til að fjarlægja þau tafarlaust að öðrum kosti verða þau fjarlægð á kostnað eigenda.

 4. Fjárhagsstaða umhverfisdeildar.
Fjárhagsstaðan er góð og nefndin hefur enn nokkurt fjármagn til framkvæmda fyrir árslok.

5. Fjárhagsáætlun fyrir 2018.

 • Umhverfi nýs leikskóla
  Verið er að skoða að leggja gangstétt í framhaldi af núverandi gangstétt í Þelamörk að leikskóla.
 • Merkingar gatna og gangbrauta
  Nefndin telur mikilvægt þegar farið er í framkvæmdir við hellulagnir í uppbyggðum hraðahindrunum/gangbrautum sé val á efni vandað og það sé endingagott. Nefndin telur að athuga þurfi nýja staðsetningu á götuþrengingu í Finnmörk. Nefndin vill benda á mikilvægi þess að setja spegil við Drullusundið, Bláskóga megin, til að auka öryggi gangandi vegfarenda. Einnig þarf að skoða leiðir til að hægja á umferð hjólandi og gangandi vegfarenda á gangstígum sem liggja að Breiðumörk sérstaklega við Álnavörubúðina og Skyrgerðina. Setja þarf gangbraut við N1 yfir Breiðumörk.  
 • Umhverfi við Dalsbrún
  Umhverfisfulltrúa er falið að kanna möguleika á úrbótum á svæðinu með sem minnstum tilkostnaði.
 • Plöntun og umhirða beða í bænum
  Nefndin telur mikilvægt að bæta mold og áburði í beðin auk þess að sanda þar sem við á með að lágmarki 5 sentímetra þykku lagi. Með því verður umhirða beða auðveldari og markvissari í framtíðinni. Mikilvægt er að beð séu kantskorin reglulega.
 • Göngustígar og götur í bænum – Frágangur, viðgerðir og malbik
  Nefndin telur að vel gæti farið á að malbika útsýnisbílastæði í Gossabrekku og koma þar fyrir sorpíláti og föstum bekk.

 Fundargerð var samþykkt samhljóða og fundi slitið.

Getum við bætt efni síðunnar?