Fara í efni

Bæjarstjórn

494. fundur 08. febrúar 2018 kl. 17:00 - 19:09 í fundarsal Breiðumörk 20
Nefndarmenn
  • Eyþór H. Ólafsson forseti bæjarstjórnar
  • Unnur Þormóðsdóttir
  • Aldís Hafsteinsdóttir
  • Friðrik Sigurbjörnsson
  • Njörður Sigurðsson
  • Viktoría Sif Kristinsdóttir
  • Daði Steinn Arnarsson varamaður
  • Helga Kristjánsdóttir skrifstofustjóri
Fundargerð ritaði: Helga Kristjánsdóttir skrifstofustjóri
Dagskrá
Forseti bæjarstjórnar, Eyþór H. Ólafsson setti fund og stjórnaði.
Leitaði hann eftir athugasemdum við fundarboð en engar komu fram.

1.Fundargerð bæjarráðs frá 18.janúar 2018.

1801002F

Liðir afgreiddir sérstaklega 4 og 5.

Enginn tók til máls.
Liður 4 "Forkaupsréttur Breiðumörk 22" afgreiddur sérstaklega. Friðrik Sigurbjörnsson vék af fundi meðan á afgreiðslu liðarins stóð.
Bæjarstjórn samþykkir að falla frá forkaupsrétti.

Liður 5 "Minnisblað-Tekjutengdur afsláttur gjalda til öryrkja og ellilífeyrisþega" afgreiddur sérstaklega.
Bæjarstjórn samþykkir tekjuviðmiðin en með því hefur tekjuviðmiðið verið hækkað um 20% sem kemur til móts við tekjulága elli- og örorkulífeyrisþega.


Fundargerðin að öðru leyti samþykkt samhljóða.

2.Fundargerð bæjarráðs frá 1.febrúar 2018.

1801003F

Liðir afgreiddir sérstaklega 5 og 6.

Enginn tók til máls.
Liður 5 "Minnisblað frá Umhverfisfulltrúa vegna innköllunar bifreiðar áhaldahúss og ósk um nýjan bíl" afgreiddur sérstaklega.
Bæjarstjórn samþykkir að kaupa bifreiðina.

Liður 6 "Opnun tilboða - Fráveita Hveramörk og Bláskógar" afgreiddur sérstaklega.
Bæjarstjórn samþykkir tilboð lægstbjóðanda Aðalleiðar ehf.

Fundargerðin að öðru leyti samþykkt samhljóða.

3.Fundargerð Skipulags- og mannvirkjanefndar frá 6.febrúar 2018.

1802010

Liðir afgreiddir sérstaklega 3, 4 og 5.

Eftirtaldir tóku til máls: Eyþór H. Ólafsson, Daði Steinn Arnarson, Aldís Hafsteinsdóttir og Njörur Sigurðsson.

Kl. 17:18 var gert fundarhlé.
Kl. 17:29 hélt fundur áfram.
Liður 3 "Heiðarbrún 13, snyrtistofa, umsókn um breytta notkun húsnæðis" afgreiddur sérstaklega.
Bæjarstjórn samþykkir að vísa málinu í grenndarkynningu sbr. 44. gr, skipulagslaga nr. 123/2010.

Liður 4 "Sveitarfélagið Ölfus - Virkjun á Hellisheiði, tillaga að breytingu á deiliskipulagi" afgreiddur sérstaklega.
Bæjarstjórn gerir ekki athugasemdir við breytingartillöguna.

Liður 5 "Aðveitulögn Vatnsveitu á Sólborgarsvæði (Reykir land 176136)" afgreiddur sérstaklega.
Bæjarstjórn samþykkir leyfi fyrir framkvæmdinni með þeim fyrirvara að Sveitarfélagið Ölfus kosti færslu á lögninni meðfram veginum frá þjóðvegi að Ölfusborgum, þegar framkvæmdir hefjast á Sólborgarsvæðinu skv. deiliskipulagi svæðisins.

Fundargerðin að öðru leyti samþykkt samhljóða.

4.Fundargerð Menningar-, íþrótta- og frístundanefndar frá 5.febrúar 2017.

1802007

Eftirtaldir tóku til máls: Eyþór H. Ólafsson, Friðrik Sigurbjörnsson, Aldís Hafsteinsdóttir, Unnur Þormóðsdóttir og Daði Steinn Arnarsson.
Liður 2 "íþrótta- og frístundastefna Hveragerðisbæjar" og liður 3 "menningarstefna Hveragerðisbæjar" afgreiddir sérstaklega síðar á fundinum.

Varðandi lið 1 vill bæjarstjórn lýsa yfir ánægju með frumkvæði íþróttafélagsins Hamars í þessu máli og hvetur til áframhaldandi þróunar þessarar hugmyndar í samvinnu íþróttafélagsins, bæjarfélagsins og skólayfirvalda.

Fundargerðin að öðru leyti samþykkt samhljóða.

5.Þjónustusamningur við Hestamannafélagið Ljúf.

1802002

Lagður fram þjónustusamningur við Hestamannafélagið Ljúf sem gildir til ársins 2019.

Eftirtaldir tóku til máls: Eyþór H. Ólafsson, Njöður Sigurðsson og Aldís Hafsteinsdóttir.
Bæjarstjórn samþykkir þjónustusamninginn með þeim breytingum að inn komi ný grein í samræmi við ályktun menningar- íþrótta og frístundanefndar. Í samningnum er gerð grein fyrir gagnkvæmum skyldum aðila og meðal annars er þar gert ráð fyrir skilyrtum fjármunum sem ætlaðir eru til að fegra og bæta umhverfi hesthúsanna.

6.Samningur um beitarafnot af Sólborgarsvæðinu.

1802001

Lagður fram samningur við Hestamannafélagið Ljúf um beitarafnot af Sólborgarsvæðinu til ársins 2020.

Enginn tók til máls.
Bæjarstjórn samþykkir samninginn.

7.Þjónustusamningur við Karlakór Hveragerðis.

1802003

Lagður fram þjónustusamningur við Karlakór Hveragerðis til ársins 2020.
Enginn tók til máls.
Bæjarstjórn samþykkir samninginn með þeim breytingum að inn komi ný grein í samræmi við ályktun menningar- íþrótta og frístundanefndar og fagnar um leið öflugri starfsemi hins nýja kórs og óskar þeim velfarnaðar í framtíðinni.

8.Þjónustusamningur við Handverk og hugvit undir hamri.

1802009

Lagður fram þjónustusamningur við Handverk og hugvit undir Hamri sem gildir til 2020.

Enginn tók til máls.
Bæjarstjórn samþykkir samninginn með þeim breytingum að inn komi ný grein í samræmi við ályktun menningar- íþrótta og frístundanefndar.

9.Minnisblað frá bæjarstjóra: Lán hjá Lánasjóði sveitarfélaga vegna uppgjörs við Brú lífeyrissjóð.

1802013

Lagt fram minnisblað frá bæjarstjóra frá 6. febrúar þar sem rætt er um lántöku hjá lánasjóði sveitarfélaga vegna uppgjörs við Brú lífeyrissjóð.

Eftirtaldir tóku til máls: Unnur Þormóðsdóttir, Aldís Hafsteinsdóttir, Eyþór H. Ólafsson, Njörður Sigurðsson, Friðrik Sigurbjörnsson, Daði Steinn Arnarson og Viktoría Sif Kristinsdóttir.
Bæjarstjórn samþykkir með 6 atkvæðum að veita bæjarstjóra heimild til að ganga til samninga við Lánasjóð sveitarfélaga til að taka lán til allt að 40 ára að upphæð allt að kr. 346.989.862.- til að greiða uppgjör Hveragerðisbæjar við Brú lífeyrissjóð. Lánasamningurinn verði lagður fyrir næsta fund bæjarstjórnar. Unnur Þormóðsdóttir greiddi atkvæði á móti.

10.Minnisblað frá bæjarstjóra: Uppgjör á lífeyrisskuldbindingum SASS v.A deildar Brúar.

1802014

Lagt fram minnisblað frá bæjarstjóra frá 6. febrúar vegna uppgjörs á lífeyrisskuldbindingum SASS og tengdra stofnana v/ A-deildar Brúar. Hlutur Hveragerðisbæjar er kr. 7.659.209.-

Eftirtaldir tóku til máls: Eyþór H. Ólafsson.
Bæjarstjórn samþykkir að greiða hlutdeild sveitarfélagsins vegna lífeyrisskuldbindingar A deildar Brúar lífeyrissjóðs fyrir Heilbrigðiseftirlit Suðurlands, Samtök sunnlenskra sveitarfélaga, Atvinnuþróunarfélag Suðurlands, Menningarráð og Skólaskrifstofu.

11.Minnisblað frá Lex lögmönnum - Kambaland.

1802005

Lagt fram minnisblað frá Lex lögmönnum vegna kvaðar Ræktunarmiðstöðvarinnar sf á Öxnalækjarlandi.

Eftirtaldir tóku til máls: Eyþór H. Ólafsson, Aldís Hafsteinsdóttir, Njörður Sigurðsson og Friðrik Sigurbjörnsson.
Forsvarsmenn Ræktunarmiðstöðvarinnar sf. hafa verið í viðræðum við Hveragerðisbæ að undanförnu þar sem það er skilningur þeirra að það félag hafi forgang að jarðvinnu við framkvæmdir á svokölluðu Kambalandssvæði.

Leitað var álits lögmanna bæjarins á því hvort að slík kvöð sé fyrir hendi á Öxnalækjarlandi (lóð), fastanúmer 234-3313 og Öxnalækjarlandi fastanúmer 234-3337.

Niðurstaða lögmanna er skýr og kemur fram í meðfylgjandi minnisblaði. En þar segir m.a. að þar sem engri kvöð hefur verið þinglýst á umræddar spildur verður ekki séð að kvöðin taki til þeirra lóða. Það er því álit lögmanns að kvöðin nái ekki til umræddra lóða.

Eftir að hafa skoðað gögn málsins og rökstuðning lögmanns samþykkir bæjarstjórn að fara í opið útboð á jarðvegsframkvæmdum á neðstu götu Kambalands með það fyrir augum að framkvæmdir þar geti hafist eins fljótt og auðið er. Í þeirri götu munu verða fjögur fjögurra íbúða raðhús, eitt parhús og fimm einbýlishús. Úthlutun lóðanna gæti farið fram á vormánuðum.

Í ljósi gríðarlegrar eftirspurnar eftir íbúðarhúsnæði í bæjarfélaginu samþykkir bæjarstjórn jafnframt að fela skipulags- og mannvirkjanefnd að hefja nú þegar endurskoðun á deiliskipulagi fyrsta áfanga Kambalands með þéttingu byggðar í huga. Nefndinni er einnig falið að vinna nauðsynlega undirbúningsvinnu til að úthluta megi lóðinni á horni Frumskóga og Varmahlíðar fyrir íbúðir. Jafnframt samþykkir bæjarstjórn að gróðurhús við Þórsmörk sem er í eigu bæjarfélagsins verði rifið eða flutt og nú þegar auglýstar lausar til úthlutunar þær lóðir sem þar eru á skipulagi.

12.Minnisblað frá byggingarfulltrúa - Jarðvegsmön við Dalsbrún.

1802004

Lagt fram minnisblað frá byggingarfulltrúar frá 31. janúar vegna jarðvegsmanar við Dalsbrún sem þarf að fjarlægja.

Heildar kostnaður er 2,2 milljónir.

Enginn tók til máls.
Bæjarstjórn samþykkir að fara í verkið. Kostnaði við það verði mætt í áætlun um kostnað vegna gatnagerðar.

13.Íþrótta-og frístundastefna Hveragerðisbæjar.

1802008

Lögð fram drög að íþrótta- og frístundastefnu Hveragerðisbæjar.

Eftirtaldir tóku til máls: Eyþór H. Ólafsson, Daði Steinn Arnarson, Friðrik Sigurbjörnsson, Aldís Hafsteinsdóttir og Njörður Sigurðsson.

Kl. 18:36 var gert fundarhlé.
Kl. 18:38 hélt fundur áfram.
Bæjarstjórn þakkar Menningar-, íþrótta- og frístundanefnd metnaðarfulla vinnu við gerð íþrótta- og frístundastefnu bæjarins. Meginmarkmið bæjarstjórnar í málaflokknum er að skapa tækifæri fyrir íbúa til bættrar lífsgæða með fjölbreyttum möguleikum til hreyfingar, útiveru, iðkunar íþrótta og annarrar afþreyingar og frístundaiðju. Einnig að tryggja börnum og ungmennum öruggt umhverfi þar sem unnið er markvisst gegn áhættuhegðun, svo sem einelti, ofbeldi, klámvæðingu og notkun vímuefna.
Íþrótta- og frístundastefnan samþykkt samhljóða með þeim breytingum sem ræddar voru á fundinum.

14.Menningarstefna Hveragerðisbæjar.

1802012

Lögð fram drög af menningarstefnu Hveragerðisbæjar.

Enginn tók til máls.
Bæjarstjórn þakkar Menningar-, íþrótta- og frístundanefnd metnaðarfulla vinnu við gerð menningarstefnu bæjarins. Tilgangur menningarstefnu Hveragerðisbæjar er að íbúar fái notið og geti tekið þátt í menningu og menningarstarfi. Leiðarljós stefnunnar er að efla áhuga, löngun og möguleika bæjarbúa til að njóta menningar og jafnframt að vera virkir þátttakendur í menningarstarfi.

Bæjarbragur Hveragerðisbæjar einkennist af þróttmiklu menningarstarfi og fjölbreyttu mannlífi. Í stefnunni er lögð áhersla á menningarstarf sem mótar bæjarfélagið sem sterka heild og byggir upp sameiginlegan menningararf en áhersla er lögð á að hlúð verði að menningu, sögu og sérstöðu bæjarfélagsins.

Menningarstefnan samþykkt samhljóða.

15.Niðurstaða Hveragerði - Gallup - þjónustukönnun sveitarfélaga 2017.

1802011

Lögð fram niðurstaða úr þjónustukönnun sem Gallup gerði í nóvember og desember 2017 þar sem könnuð var ánægja meðal bæjarbúa með þjónustu sveitarfélagsins.

Eftirtaldir tóku til máls: Aldís Hafsteinsdóttir.
Lögð fram viðhorfskönnun Gallup árið 2017 en þar er ánægja með þjónustu stærstu sveitarfélaga landsins könnuð. Gerður er samanburður á milli þeirra ásamt því að skoða breytingar frá fyrri mælingum.

Bæjarstjórn þakkar Gallup fyrir vel unna könnun og greinargott yfirlit sem nýtast mun bæjarstjórn vel við framtíðarstefnumörkun sem miðar að því að bæta í sífellu þjónustu við bæjarbúa.

Bæjarstjórn fagnar einnig þeim góðu niðurstöðum sem sjást í könnuninni en ánægja bæjarbúa er meiri eða jöfn síðustu niðurstöðu í flestum flokkum.

Ekki síst er það staðfesting á því góða starfi sem ynnt er af hendi af starfsmönnum bæjarfélagsins að Hvergerðingar eru meðal ánægðustu íbúa landsins í flestum þjónustuþáttum og skipar sveitarfélagið sér þar í hóp efstu sveitarfélaga ítrekað.

Hveragerðisbær er langt yfir meðaltali sveitarfélaga í mörgum þáttum og trónir á toppnum hvað varðar málefni eldri borgara, skipulagsmál, gæði umhverfis og þjónustu við fatlað fólk svo dæmi sé tekið. En 90% aðspurðra eru mjög eða frekar ánægð með sveitarfélagið sem stað til að búa á. 7% hvorki né og einungis 3% er óánægt með sveitarfélagið sitt.

Bæjarstjórn lítur á könnunina sem mikilvægt hjálpartæki þegar kemur að forgangsröðun verkefna og hefur tekið tillit til þeirra upplýsinga og vísbendinga sem þarna koma fram. Á síðustu árum kom fram viss óánægja með þjónustu við leikskólabörn og brugðist var við því með byggingu nýs glæsilegs leikskóla og gjörbreytingum á aðstöðu frístundsskóla og félagsmiðstöðvar unglinganna. Þessi aðgerð virðist hafa skilað góðum árangri því nú mælist ánægja með þjónustu leikskóla eins og best gerist en Hveragerði er í öðru sæti sveitarfélaga hvað varðar þjónustu leikskólanna sem og almennt hvað varðar þjónustu við barnafjölskyldur.

Þegar spurt er um það hversu ánægðir eða óánægðir íbúar eru með þjónustu sveitarfélagsins á heildina litið þá er niðurstaðan sú að Hveragerði er í efsta sæti með þremur öðrum sveitarfélögum. Er þetta afar ánægjuleg staðfesting á því góða starfi sem innt hefur verið af hendi undanfarin ár.

Bæjarstjórn lítur á könnunina sem mikilvægt mælitæki sem hún hefur notað til að bæta þjónustu við íbúa og er ánægjulegt að sjá að slík vinna ber árangur eins og sú staðreynd sýnir að íbúar telja Hveragerðisbæ í hópi albestu svetiarfélaga landsins.

En þó að bæjarstjórn marki stefnuna þá eru það starfsmenn og stjórnendur sem eru í daglegum samskiptum við bæjarbúa og bæjarstjórn vill nota þetta tækifæri og færa þeim þakkir fyrir að sinna störfum sínum af alúð og samviskusemi sem aftur skilar sér til notenda í afbragðs góðri þjónustu.
Fundargerðin upp lesin og samþykkt samhljóða.

Fundi slitið - kl. 19:09.

Getum við bætt efni síðunnar?