Fara í efni

Bæjarstjórn

587. fundur 27. nóvember 2024 kl. 17:00 - 20:10 í fundarsal Breiðumörk 20
Nefndarmenn
  • Sandra Sigurðardóttir varaforseti bæjarstjórnar
  • Njörður Sigurðsson aðalmaður
  • Dagný Sif Sigurbjörnsdóttir aðalmaður
  • Thelma Rún Runólfsdóttir aðalmaður
  • Arnar Ingi Ingólfsson varamaður
  • Alda Pálsdóttir aðalmaður
  • Sigmar Karlsson varamaður
Starfsmenn
  • Pétur G. Markan bæjarstjóri
  • Íris Bjargmundsdóttir bæjarritari
Fundargerð ritaði: Íris Bjargmundsdóttir bæjarritari
Dagskrá
Varaforseti bæjarstjórnar, Sandra Sigurðardóttir, setti fund og stjórnaði. Leitaði hún eftir athugasemdum við fundarboð en engar komu fram.

Í upphafi fundar lagði varaforseti fram dagskrárbreytingartillögu um að við fundarboð bætist liður 7 "Yfirdráttarheimild í Arion banka". Aðrir liðir í fundarboði breytast eftir því.

Tillagan samþykkt samhljóða.

1.Fundargerð bæjarráðs frá 21. nóvember 2024

2411005F

Liðir afgreiddir sérstaklega: 3, 7 og 9.

Eftirtaldir tóku til máls: Sandra Sigurðardóttir, Alda Pálsdóttir, Sigmar Karlsson og Njörður Sigurðsson.
Liður 3 "Bréf frá Grunnskólanum í Hveragerði frá 18. nóvember 2024" afgreiddur sérstaklega.
Sigmar Karlsson vék af fundi undir þessum lið.
Bæjarstjórn samþykkir að styrkja góðgerðardag Grunnskólans í Hveragerði um kr. 100.000,-.

Liður 7 "Viðauki við fjárhagsáætlun 2024 vegna leigusamnings" afgreiddur sérstaklega.
Meirihluti bæjarstjórnar samþykkir viðauka við fjárhagsáætlun 2024 að upphæð 713 milljónir kr. vegna leigusamnings um viðbyggingu við Leikskólann Óskaland. Minnihlutinn á móti.

Liður 9 "Hrauntunga gatnagerð" er afgreiddur sérstaklega.
Bæjarstjórn samþykkir að framkvæmdir hefjist við áfanga tvö í yfirstandandi gatnagerð bæjarins í Hrauntungu í samræmi við heimild í útboðsgögnum verksins.

Fundargerðin er að öðru leyti staðfest.

2.Fundargerð bæjarráðs frá 27. nóvember 2024

2411011F

Liðir afgreiddir sérstaklega: 1.

Eftirtaldir tóku til máls: Sandra Sigurðardóttir, Sigmar Karlsson, Dagný Sif Sigurbjörnsdóttir, Alda Pálsdóttir, Njörður Sigurðsson og Pétur G. Markan.
Liður 1 "Fjárhagsáætlun Hveragerðisbæjar 2025-2028" er afgreiddur í liði nr. 10 á dagskrá fundar bæjarstjórnar.

Fulltrúar D-listans lögðu fram eftirfarandi bókun.
Hörmungarsaga viðbyggingar við leikskólann Óskaland heldur áfram, fyrst með hörmulegum samning sem meirihluti Framsóknar og O-listans gerðu við Fasteignafélagið Eik og verktakafyrirtækið Hrafnshól síðasta vor og nú með viðbygginguna sjálfa þar sem fundist hafa ummerki um myglu og húsnæðið lekur. Fulltrúar D-listans hafa ítrekað sett fram athugasemdir og viðvaranir bæði í orði og í bókunum um samninginn og verktakafyrirtækið sem samið var við og einnig við þá tímalínu sem var gefin upp og meirihlutinn hefur staðfastlega haldið fram að myndi haldast, þvert gegn aðvörunum sem komu fram í verkfundargerðum og frá fulltrúum D-lista. Þau orð meirihlutans um að byggingin yrði tilbúin 15. desember gáfu þannig barnafjölskyldum í Hveragerði sem áttu von á leikskólaplássi í desember falskar vonir. Þessar fjölskyldur, sem margar hverjar höfðu gert ráð fyrir því að barnið þeirra kæmist inn á leikskóla 15. desember setja nú uppi með þá staðreynd að barnið mun ekki komast á leikskóla fyrr en einhvern tíman eftir miðjan janúar 2025. Margir foreldrar hafa ráðið sig til vinnu eða skráð sig í skóla, enda var ekkert annað gefið í skyn frá meirihlutanum en að viðbyggingin yrði tilbúin 15. desember. En líkt og eftirlitsmaður Hveragerðisbæjar með verkinu bendir á, þá er það full mikil bjartsýni að halda því fram að leikskólinn verði tilbúinn fyrr en 17. janúar 2025. Af þessu hefur fulltrúi D-listans verulegar áhyggjur.

Alda Pálsdóttir
Sigmar Karlsson

Fundargerðin er að öðru leyti staðfest.

3.Fundargerð velferðar- og fræðslunefndar frá 18. nóvember 2024

2411006F

Liðir afgreiddir sérstaklega: 1.

Eftirtaldir tóku til máls: Sandra Sigurðardóttir og Dagný Sif Sigurbjörnsdóttir.

Liður 1 "Þjónustusamningur við dagforeldra í Hveragerði" afgreiddur sérstaklega.
Bæjarstjórn samþykkir samninginn.

Fundargerðin er að öðru leyti staðfest.

4.Fundargerð aðalskipulagsnefndar frá 18. júní 2024

2411029

Eftirtaldir tóku til máls: Sandra Sigurðardóttir, Alda Pálsdóttir og Njörður Sigurðsson.
Klukkan 17:56 var gert fundarhlé.
Klukkan 18:15 hélt fundur áfram.

Fundargerðin er staðfest.

5.Fundargerð aðalskipulagsnefndar frá 20. ágúst 2024

2411030

Enginn tók til máls.
Fundargerðin er staðfest.

6.Fundargerð aðalskipulagsnefndar frá 22. október 2024

2411076

Eftirtaldir tóku til máls: Sandra Sigurðardóttir.
Bæjarstjórn lagði fram eftirfarandi bókun.
Bæjarstjórn þakkar nefndinni fyrir þeirra störf og leggur áherslu á að í aðalskipulagsvinnunni verði það lagt skýrlega til grundvallar að Hveragerðisbær haldi sérstöðu sinni með tilliti til lágreistrar byggðar og þéttleika. Bæjarstjórn leggur jafnframt áherslu á að í aðalskipulaginu verði lagt til grundvallar að bæði Bæjarþorpsheiði, fyrir neðan núverandi þjóðveg, og Sólborgarsvæðið, austan Varmár, verði skilgreind sem framtíðar íbúabyggð bæjarfélagsins. Þannig skapast betra svigrúm til uppbyggingar á þessum svæðum án undanfarandi breytingar á aðalskipulagi, enda liggur fyrir að bæði þessi svæði eru framtíðar uppbyggingarsvæði í þróun byggðar Hveragerðisbæjar.

Sandra Sigurðardóttir
Dagný Sif Sigurbjörnsdóttir
Njörður Sigurðsson
Thelma Rún Runólfsdóttir
Arnar Ingi Ingólfsson
Alda Pálsdóttir
Sigmar Karlsson

Fundargerðin er staðfest.

7.Yfirdráttarheimild í Arion banka

2411137

Lagt fram minnisblað frá skrifstofustjóra um yfirdráttarheimild í Arion banka.

Eftirtaldir tóku til máls: Sandra Sigurðardóttir, Sigmar Karlsson og Pétur G. Markan.

Bæjarstjórn samþykkir að hækka yfirdráttarheimild fyrir allt að 90 milljónir hjá Arion banka.

8.Álagning fasteignagjalda og útsvars hjá Hveragerðisbæ 2025

2411086

Lögð fram tillaga um að útsvarsprósenta fyrir árið 2025 verði óbreytt, 14,97%.

Einnig er lögð fram tillaga um óbreytta álagningaprósentu á fasteignaskatti, lóðarleigu, vatnsgjaldi og holræsagjaldi en lagt er til að rotþróargjald verði hækkað úr kr. 45.660,- í kr. 47.000,-.

Eftirtaldir tóku til máls: Sandra Sigurðardóttir, Sigmar Karlsson og Dagný Sif Sigurbjörnsdóttir.
Bæjarstjórn samþykkir að útsvarsprósenta verði óbreytt 14.97%, fasteignaskattur, lóðarleiga, vatnsgjald og holræsagjald verði óbreytt og að rotþróargjald hækki úr kr. 45.660,- í kr. 47.000,-.

9.Gjaldskrár Hveragerðisbæjar 2025

2411085

Lögð fram gjaldskrá fyrir meðhöndlun úrgangs í Hveragerði, gjaldskrá fyrir leikskólana í Hveragerði, gjaldskrá fyrir frístund í Hveragerði, gjaldskrá fyrir stuðningsþjónustu, gjaldskrá fyrir bókasafnið í Hveragerði og gjaldskrá fyrir sundlaugina í Hveragerði.

Einnig lögð fram breyting á gjaldskrá um Vatnsveitu Hveragerðis og breyting á gjaldskrá fyrir hunda- og kattahald í Hveragerðisbæ. Gert er ráð fyrir 3% hækkun á gjaldskrám þjónustugjalda.

Enginn tók til máls.
Bæjarstjórn samþykkir gjaldskrárnar.

10.Fjárhagsáætlun Hveragerðisbæjar 2025-2028, fyrri umræða

2411082

Lögð fram til fyrri umræðu fjárhagsáætlun Hveragerðisbæjar fyrir árin 2025-2028.

Eftirtaldir tóku til máls: Sandra Sigurðardóttir, Dagný Sif Sigurbjörnsdóttir, Njörður Sigurðsson, Sigmar Karlsson og Pétur G. Markan.
Klukkan 18:31 var gert fundarhlé.
Klukkan 18:52 hélt fundur áfram.

Meirihlutinn lagði fram eftirfarandi bókun.

Formáli
Fjárhagsáætlun fyrir árið 2025 og þriggja ára áætlun fyrir árin 2026-2028 er hér lögð fram.

Hveragerðisbær hefur staðið að afar mikilvægri og aðkallandi kerfis- og grunninnviðauppbyggingu frá upphafi kjörtímabilsins. Framlögð áætlun felur í sér áframhaldandi stórsókn í uppbyggingu Hveragerðisbæjar en gert er ráð fyrir að heildarfjárfesting á árinu 2025 verði tæpar 1.028 milljónir króna.

Framlögð áætlun er rökrétt framhald af þessari vegferð og er rétt að vekja athygli á eftirfarandi atriðum í framlagðri fjárhagsáætlun ársins 2025 sem fela í sér næstu skref í þeirri vegferð að tryggja íbúum framúrskarandi þjónustu og lífsgæði í bæjarfélaginu:

-Stórsókn í málefnum og uppbyggingu Grunnskólans í Hveragerði
Fyrst er hægt að nefna stórsókn í málefnum grunnskólans. Framkvæmdir við þriðja áfanga grunnskólans hafa gengið fram úr vonum á árinu 2024 og fyrirséð er að þeim muni ljúka á fyrri hluta komandi árs.

Framkvæmdirnar við þriðja áfanga fela í sér umfangsmiklar úrbætur á aðstöðu stoðþjónustu fyrir grunnskólabörn í Hveragerði með nýjum sérfræðirýmum fyrir m.a. þroskaþjálfa, talmeinafræðinga, hjúkrunarfræðinga og sérkennslu. Þessi rými hafa þegar verið tekin í notkun og er aðstaða stoðþjónustu fyrir grunnskólabörn í Hveragerði nú betri en nokkru sinni fyrr.

Þá hefur glæsilegt eldhús verið tekið í gagnið í grunnskólanum og verða nýr skólasalur og kennslurými tekin í gagnið fyrri hluta ársins 2025.

Ráðgert er að hönnun fjórða áfanga grunnskólans muni ljúka árið 2026.

Jafnframt hefur verið settur mikill kraftur í viðhaldsverkefni við skólann eins og gluggaskipti og nýtt loftræstikerfi, og áfram eru fyrirhugaðar umfangsmiklar viðhaldsfjárfestingar í skólanum árið 2025.

Þessu til viðbótar er gert ráð fyrir í fjárhagsáætlun ársins 2025 að ráða inn verkefnastjóra sem á að halda utan um fjölbreytta stuðningsþjónustu við nemendur í skólanum.

-Stórsókn í leikskólamálum
Ný viðbygging við Óskaland er á lokametrum framkvæmda. Þegar sú viðbygging er komin í gagnið opna þrjár nýjar leikskóladeildir í Hveragerði ásamt stórbættri starfsmannaaðstöðu og er með henni svarað eftirspurn leikskólaplássa fyrir börn 12 mánaða og eldri. Fyrirséð er að öll börn 12 mánaða og eldri á biðlistum muni þannig fá boð um leikskólapláss á yfirstandandi vetri.

Þá verður lokið við hönnun nýs leikskóla í Kambalandi árið 2025 og er áætlað að fyrstu deildir hans opni árið 2027.

-Stórsókn í uppbyggingu íþróttamannvirkja
Fok Hamarshallarinnar olli miklu þjónustufalli hjá þeim sem nýttu húsnæðið til íþróttaiðkunar. Það hefur skapað erfiða stöðu hjá Hamri og öðrum sem nýttu mannvirkið. Þar sem m.a. eru ekki öryggisforsendur fyrir nýrri uppblásinni höll var blásið til stórsóknar í uppbyggingu íþróttamannvirkja með öðrum hætti. Í áætlun ársins 2025 er gert ráð fyrir verklokum á nýju fyrsta flokks gervigrasi, knattspyrnumannvirki í bestu gæðum. Þá er gert ráð fyrir að framkvæmdir við nýtt íþróttahús, viðbyggingu við eldra íþróttahúsið við Skólamörk, hefjist á árinu 2025.

Þessar framkvæmdir marka mestu uppbyggingu íþróttamannvirkja í sögu Hveragerðisbæjar.

-Stórsókn í kaupum á félagslegu húsnæði
Á árinu 2025 er gert ráð fyrir kaupum á félagslegu húsnæði, rétt eins og á árinu 2024. Með áherslu á uppbyggingu á félagslegu húsnæði minnka biðlistar eftir slíku húsnæði og tryggir betur öllum hópum aðgengi að þessum grunnmannréttindum.

-Stórsókn í gatnagerð og stofnbrautum
Gatnagerð í Hrauntungu í Kambalandi er yfirstandandi og áætlað er að úthluta fyrstu lóðum árið 2025. Hrauntungan verður í uppbyggingu árin 2025 og 2026.

Samhliða gatnagerð í Hrauntungu verður farið að huga að framkvæmdum vegna Vesturmarkar, en Vesturmörkin er stofnbraut sem mun breyta umtalsvert aðgengi og umferðarflæði inn og út úr Kambalandinu. Þannig mun framkvæmdin minnka álag á þær götur sem anna umferð í hverfið í dag og stuðla að bættu umferðaröryggi. Fyrirhugað er að framkvæmdir við Vesturmörk hefjist árið 2025.

-Stórsókn í veitumálum
Gert er ráð fyrir meiriháttar uppbyggingu í veitumálum hjá Hveragerðisbæ í fyrirliggjandi áætlun og á árinu 2025, einkum í fráveitumálum en einnig eru áætlaðar framkvæmdir við vatnsveitu sveitarfélagsins. Málefni fráveitunnar eru veigamikill þáttur í þeirri stórsókn í innviðauppbyggingu sem ráðast verður í samhliða íbúafjölgun og hafa þau málefni verið tekin föstum tökum á kjörtímabilinu samhliða umsóknum í styrktarsjóði Evrópusambandsins sem útlit er fyrir að muni bera árangur með fjárveitingu inn í verkefnið og umfangsmiklum framkvæmdum við stækkun fráveitunnar á komandi árum.

-Stórsókn í stjórnkerfisbreytingum
Áfram verður haldið af krafti með þær stjórnkerfisbreytingar sem unnið hefur verið að á árinu. Markmiðið er að gera stjórnsýslu Hveragerðisbæjar skilvirkari og betri, gagnsærri og notendavænni, í takt við þá vaxtarþróun sem sveitarfélagið hefur gengið í gengum. Nýjar áskoranir kalla á nýja hugsun og ný vinnubrögð til að tryggja hámarksgæði í allri þjónustu sveitarfélagsins.

Átak í stafrænum lausnum eins og notendaviðmóti og gagnvirkum samskiptum fela í sér leiðir til aukningar gæða þjónustunnar sem leiðir til bættra lífsgæða íbúa sem þurfa að sækja þjónustuna. Þá verður haldið áfram af kappi með breytingar innan stjórnsýslu bæjarins til tryggja það að stjórnsýsla bæjarins eflist í takt við ört stækkandi bæjarfélag.

Velferðarsvið Hveragerðisbæjar hefur verið eflt markvisst allt kjörtímabilið. Með nýju stöðugildi félagsráðgjafa, sem gert er ráð fyrir í fjárhagsáætlun ársins 2025, má segja að sviðið hafi verið þrefaldað á kjörtímabilinu. Þetta hefur verið gert með það að markmiði að ná utan um þá þjónustu sem sveitarfélagið sinnti áður ekki að fullu. Sveitarfélögum ber sannarlega að veita einstaklingum og fjölskyldum stuðning, styrk og velferðarstoð og það er grundvallaratriði í rekstri sveitarfélagsins að sú þjónusta sé tryggð með fullnægjandi hætti. Með því er stuðlað með veigamiklum hætti að bættum lífsgæðum íbúa Hveragerðisbæjar.

-Stórsókn í málefnum fjölskyldna
Stefnt er að áframhaldandi lækkun leikskólagjalda og hækkun frístundastyrksins í skrefum á kjörtímabilinu.

Í dag hafa þrjár klukkustundir verið gerðar gjaldfrjálsar á leikskólum bæjarins og gert er ráð fyrir því að haustið 2025 verði fjórða klukkustundin gjaldfrjáls. Vistunargjöld á leikskóla voru 29.270 kr. fyrir 8 tíma vistun í upphafi kjörtímabilsins en verða í ársbyrjun 2025 21.000 kr. Haustið 2025 munu þau lækka í 16.800 kr. og hafa þá lækkað um tæp 43% frá því að nýr meirihluti tók við.

Frístundastyrkur verður hækkaður úr 38.000 kr. í 44.000 kr. Frístundastyrkur hefur þannig hækkað um 70% á kjörtímabilinu.

Mánaðarlegum foreldragreiðslum til foreldra barna eldri en 12 mánaða sem hafa ekki fengið vistunarboð á leikskóla eða hjá dagforeldri var komið á þann 1. október 2022 og námu þá 110.000 kr. á mánuði. Í dag nema þær 120.000 kr. og er gert ráð fyrir að þær muni nema 124.000 kr. á mánuði árið 2025 og næmu þannig á ársgrundvelli 1.364.000 kr. á barn ef fullnýttar.

Fyrirliggjandi fjárhagsáætlun var unnin af fulltrúum meirihluta bæjarstjórnar. Fulltrúar minnihlutans í D-lista þáðu ekki boð meirihluta um þátttöku og samvinnu í fjárhagsáætlunarvinnunni, rétt eins og undanfarin ár. Það er því að gefnu tilefni áréttað að besta tækifærið til þess að vinna að hag bæjarbúa er að taka þátt í fjárhagsáætlunarvinnunni og hafa þannig áhrif á rekstur sveitarfélagsins og áherslur til framtíðar. Meirihlutinn vill því hvetja fulltrúa minnihlutans til endurskoðunar afstöðu sinnar til þátttöku í þessari vinnu á næsta ári og þau leggi þannig sitt á vogarskálarnar með öðrum fulltrúum bæjarstjórnar til þess að í bæjarfélaginu megi skapa grundvöll að enn betri þjónustu og lífsgæðum bæjarbúa.

Meirihlutinn vill koma á framfæri einlægum þökkum til bæjarstjóra og skrifstofustjóra Hveragerðisbæjar fyrir óeigingjarna og umfangsmikla vinnu við gerð fyrirliggjandi fjárhagsáætlunar. Fjárhagsáætlanir einstakra deilda eru unnar í góðri samvinnu við forstöðumenn stofnana og er þeim jafnframt þakkað fyrir sitt góða framlag. Öðru starfsfólki Hveragerðisbæjar eru einnig færðar þakkir fyrir gott samstarf við fjárhagsáætlunargerðina.

Almennt um rekstur og horfur 2025
Stefnt er að því að gera rekstur Hveragerðisbæjar sjálfbæran. Verðbólguinnskot og ytri aðstæður í fjármálaumhverfinu hafa þó nokkur áhrif á reksturinn í því tilliti. Í framlagðri áætlun er tekið mið af ytri aðstæðum og taka gjaldskrárhækkanir mið af þeim upp að vissu marki. Ráðdeild er í rekstri og samhliða því er fjárfest í innviðum í takt við íbúafjölgun.

Mikil eftirspurn er eftir búsetu í Hveragerði og fjölgaði íbúum um 7,1% árið 2023, áætlað er að fjölgunin verði um 4% árið 2024 og stefnir í að íbúafjölgun á komandi árum verði í kringum 4% nái markmið og stefna bæjarstjórnar fram að ganga. Þessi eftirspurn gefur okkur tækifæri til að snúa við fyrri þróun í rekstri bæjarins með auknum tekjum sem nýta má í innviðauppbyggingu og til lækkunar skulda sveitarfélagsins. Á sama tíma er mikilvægt að stuðla áfram að uppbyggingu fjölbreyttra atvinnutækifæra í Hveragerði og í því augnamiði hefur verið sett á stofn nefnd og ráðinn fulltrúi sem fara með málefni menningar-, atvinnu- og markaðsmála.

Forsendur fjárhagsáætlunar 2025
Tekjur Hveragerðisbæjar eru útsvar, fasteignagjöld, þjónustugjöld og framlag úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga.

Útsvarsprósenta Hveragerðisbæjar er óbreytt í fjárhagsáætlun 2025 eða 14,97%. Í áætluninni er gert ráð fyrir óbreyttri álagningarprósentu fasteignaskatts.

Álagningarprósentur á vatnsgjaldi, holræsagjaldi og lóðarleigu á húsnæði í öllum flokkum breytast ekki milli ára. Aukavatnsgjald hækkar úr 16 kr. á rúmmetra í 17 kr. Gjalddagar fasteignagjalda verða áfram 11.

Áhersla var lögð á að létta sem mest á útgjöldum bæjarbúa við endurskoðun á gjaldskrám sveitarfélagsins og stuðla jafnframt að stöðugleika í þróun verðbólgu sem hefur umfangsmikil áhrif á íbúa og heimili í Hveragerði líkt og annarsstaðar á landinu. Verðlagsþróun síðastliðna 12 mánuði var um 6% en bæjarstjórn leggur upp með í framlagðri áætlun að hækka gjaldskrár þjónustugjalda einungis um 3%.

Breytingar voru gerðar á gjaldskrá sorphirðu á árinu 2024 vegna gildistöku breytinga á lögum um meðhöndlun úrgangs. Gjaldskrá sorphirðu breytist ekki árið 2025 nema að því er tekur til gjalds fyrir tvískipta tunnu sem hækkar úr 32.000 kr. í 35.000 kr. Nú greiðir hvert heimili eftir tunnufyrirkomulagi hjá hverjum húseiganda.

Í málefnasamningi meirihlutans er lögð rík áhersla á velferð fjölskyldunnar. Stefnt er áframhaldandi lækkun leikskólagjalda og hækkun frístundastyrks í skrefum á kjörtímabilinu og eru tekin skref í þá átt árið 2025 samkvæmt fyrirliggjandi fjárhagsáætlun. Gert er ráð fyrir því að haustið 2025 verði fjórða klukkustundin á leikskólum gerð gjaldfrjáls og hafa þá vistunargjöld á leikskólum lækkað um 43% á kjörtímabilinu. Frístundastyrkur verður hækkaður úr 38.000 kr. í 44.000 kr. á ársgrundvelli og hefur þannig hækkað um 70% á kjörtímabilinu. Gert er ráð fyrir að foreldragreiðslur til barna eldri en 12 mánaða sem hafa ekki fengið vistunarboð frá leikskóla eða dagforeldri nemi 124.000 kr. á mánuði fyrir hvert barn árið 2025.

Helstu rekstrartölur í fjárhagsáætlun 2025
Í framlagðri fjárhagsáætlun fyrir árið 2025 eru áætlaðar heildartekjur Hveragerðisbæjar (aðalsjóðs, A- og B- hluta) alls 5.956 m.kr. Þar af eru áætlað útsvar og áætluð fasteignagjöld samtals 3.119 m.kr. og framlög Jöfnunarsjóðs áætluð 1.572 m.kr. Aðrar tekjur bæjarsamstæðu um 1.265 m.kr.

Rekstrargjöld og reiknaðar afskriftir samstæðu nema um 5.296 m.kr. EBITDA Hveragerðisbæjar er 635 m.kr. Niðurstaða samstæðu án fjármagnsliða er jákvæð um 635 m.kr. Fjármagnsliðir eru áætlaðir 437 m.kr. og er rekstrarniðurstaða samstæðu því jákvæð um 197 m.kr. sem er betri niðurstaða en undanfarin ár þrátt fyrir umfangsmiklar fjárfestingar.

Markmið meirihluta bæjarstjórnar er að rekstur sveitarfélagsins verði sjálfbær og að uppfyllt verði þannig skilyrði um jákvæðan 3ja ára rekstrarjöfnuð árið 2026. Stefnt hefur verið að þessu markmiði markvisst á kjörtímabilinu og það er ánægjulegt að sjá að þessu markmiði verður náð strax á árinu 2025 miðað við framlagða fjárhagsáætlun. Rekstrarjöfnuður verði þannig jákvæður um 333 milljónir á komandi ári og fari hækkandi með hverju ári. Framlegðarhlutfall í rekstri bæjarins, sem segir til um hve miklu reksturinn skilar til fjárfestinga og greiðslu vaxta og afborgana, hefur jafnframt verið yfir lágmarksviðmiðum árin 2023 og 2024 og er samkvæmt framlagðri áætlun gert ráð fyrir að það hlutfall haldist yfir viðmiðum á komandi árum. Þess má geta að árið 2021 var framlegðarhlutfallið langt undir viðmiðum, eða einungis á milli 1-2% en er árið 2024 áætlað 15,3% og yfir 14% næstu árin. Jafnframt er gert ráð fyrir í fyrirliggjandi áætlun að veltufjárhlutfall og skuldaþekja verði yfir viðmiðum árin 2025-2028. Það eru því bjartar horfur í rekstrinum á komandi árum og mikill viðsnúningur hefur orðið í rekstrinum að ýmsu leyti á kjörtímabilinu.

Forsendur þriggja ára áætlunar
Samhliða fjárhagsáætlun 2025 er lögð fram þriggja ára fjárhagsáætlun fyrir árin 2026-2028. Forsendur hennar eru eftirfarandi:
-Vísitala neysluverðs verði 3,8% í upphafi tímabilsins og 2,5% í lok þess í samræmi við uppfærða þjóðhagsspá sem birt var í nóvember 2024.
-Íbúar verði tæplega 4.000 í lok árs 2028.
-Tekjur af útsvari hækki um 8,2% á ári á tímabilinu.
-Tekjur af fasteignaskatti hækki um 6,5% á ári á tímabilinu.
-Framlög jöfnunarsjóðs hækki um 4% á ári á tímabilinu.
-Hækkun launa verði 4,1% á ári á tímabilinu.
-Starfsfólki sveitarfélagsins fjölgi um 2,7% á ári á tímabilinu.
-Annar rekstrarkostnaður hækki um 2,7% til 5,5% á ári á tímabilinu.

Áætlun um rekstur 2026-2028
Markmið meirihluta bæjarstjórnar er að rekstur sveitarfélagsins verði sjálfbær. Sýna þarf ráðdeild í rekstri án þess að skerða þjónustu til íbúa. Lögð er sérstök áhersla á að auka tekjur sveitarfélagsins en mörg tækifæri eru til þess í Hveragerði sem er vinsæll búsetukostur.

Fjárfestingar 2026-2028
Áætlaðar fjárfestingar árið 2026 eru 1.030 m.kr., árið 2027 617,5 m.kr. og árið 2028 366 m.kr. Stærstu fjárfestingarnar eru bygging 4. áfanga grunnskólans, 1. áfangi leikskóla í Kambalandi, íþróttamannvirki, hjúkrunarheimili, fráveita og vatnsveita. Allt eru þetta nauðsynlegar framkvæmdir í ljósi íbúafjölgunar en fjárfestingaáætlun er endurskoðuð við fjárhagsáætlunargerð hvers árs í ljósi ríkjandi efnahagsumhverfis á hverjum tíma.

Skuldir og skuldbindingar 2025-2028
Markmið meirihluta bæjarstjórnar er að þrátt fyrir miklar fjárfestingar vegna innviðauppbyggingar og lántöku vegna þeirra verði skuldir samstæðu undir lögbundnu 150% skuldaviðmiði.

Lántökur ársins 2025 eru hærri en fjárfestingar þar sem ákveðið hefur verið að taka upp að nýju skuldaviðurkenningar vegna lóðaúthlutana til að greiða fyrir uppbyggingu húsnæðis í sveitarfélaginu. Það þýðir í raun að Hveragerðisbær lánar lóðarhöfum fyrir gatnagerðar- og byggingarréttargjöldum til tveggja ára. Nauðsynlegt fjármagn til að mæta kostnaði við uppbyggingu gatna og veitna kemur því ekki inn á því ári sem úthlutunin fer fram og því þarf að mæta honum með aukinni lántöku.

Samkvæmt fyrirliggjandi áætlun munu skuldir samstæðu þróast með eftirfarandi hætti að teknu tilliti til þess að samkvæmt fjármálareglum sveitarfélaga er heimilt að draga frá skuldum skuldbindingar vegna lífeyris sem fellur til eftir 15 ár og síðar:

-2025 - 123,6% af tekjum
-2026 - 123,9% af tekjum
-2027 - 117,1% af tekjum
-2028 - 106,8% af tekjum
Á árunum 2025-2028 munu skuldir og skuldbindingar Hveragerðisbæjar hækka úr 7.374 m.kr. í 8.602 m.kr. vegna lántöku fyrir áðurgreindum innviðafjárfestingum.

Að lokum
Eins og þessi yfirferð gefur glögga mynd af þá er haldið fram af krafti í uppbyggingu og styrkingu Hveragerðisbæjar - íbúum til velferðar og lífsgæða. Samhliða allri þessari uppbyggingu er mikilvægt að huga af skynsemi og ábyrgð að fjármálum bæjarins og tryggja að jafnvægi verði í rekstri bæjarins. Það er lykilforsenda ef vel á að takast til. Séð er fram á að markmiðum bæjarstjórnar um sjálfbærni og heilbrigði í rekstri verði náð á komandi ári og þeim árangri verði viðhaldið áfram næstu árin og á honum byggt þannig að mikill viðsnúningur náist fram í rekstri bæjarfélagsins á kjörtímabilinu.

Það er kappsmál meirihlutans að þjónusta íbúa Hveragerðis sem best og styðja hér við að lífsgæði bæjarbúa verði eins og best verði á kosið á hverjum tíma. Lögð er áhersla nú sem áður á fjölskylduna, stuðning við barnafjölskyldur, öflugar menntastofnanir, fjölbreytt atvinnulíf, gæðaríkt íþrótta- og frístundastarf, að heilsuefling íbúa á öllum aldri sé í hávegum höfð og menningin haldi áfram að blómstra.

Framundan eru fjölmörg tækifæri og spennandi tímar og við göngum bjartsýn og metnaðarfull inn í komandi ár.

Bær í blóma - Hveragerði í blóma!

Sandra Sigurðardóttir
Dagný Sif Sigurbjörnsdóttir
Njörður Sigurðsson
Thelma Rún Runólfsdóttir
Arnar Ingi Ingólfsson

Bæjarstjórn samþykkir að vísa fjárhagsáætlun Hveragerðisbæjar 2025-2028 til síðari umræðu.
Fundargerð upp lesin og samþykkt.

Fundi slitið - kl. 20:10.

Getum við bætt efni síðunnar?