Fara í efni

Bæjarstjórn

554. fundur 24. nóvember 2022 kl. 18:00 - 19:49 í fundarsal Breiðumörk 20
Nefndarmenn
  • Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir
  • Sandra Sigurðardóttir
  • Njörður Sigurðsson
  • Dagný Sif Sigurbjörnsdóttir
  • Halldór Benjamín Hreinsson
  • Alda Pálsdóttir
  • Sigmar Karlsson varamaður
Starfsmenn
  • Geir Sveinsson bæjarstjóri
  • Helga Kristjánsdóttir skrifstofustjóri
Fundargerð ritaði: Helga Kristjánsdóttir skrifstofustjóri
Dagskrá
Forseti bæjarstjórnar, Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir setti fund og stjórnaði. Leitaði hún eftir athugasemdum við fundarboð en engar komu fram.

1.Fundargerð bæjarráðs frá 22. nóvember 2022

2211004F

Liðir afgreiddir sérstaklega 2.

Enginn tók til máls.
Liður 2 "Málefni félagsþjónustu" afgreiddur sérstaklega. Bæjarstjórn samþykkir afgreiðslu bæjarráðs.

Fundargerðin að öðru leiti samþykkt samhljóða.

2.Breyting á reglum um foreldragreiðslur

2211074

Lagðar fram reglur um foreldragreiðslur með breytingum.

Eftirtaldir tóku til máls: Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir, Dagný Sif Sigurbjörnsdóttir og Alda Pálsdóttir.
Bæjarstjórn samþykkir breytingarnar á reglunum og gilda þær frá 1. okt 2022 þegar foreldragreiðslur hófust.

3.Reglur um framlög til stjórnmálasamtaka sem bjóða fram til sveitarstjórnarkosninga í Hveragerði

2211075

Lagðar fram reglur um framlög til stjórnmálasamtaka sem bjóða fram til sveitarstjórnarkosninga í Hvergerði.

Eftirtaldir tóku til máls: Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir, Njörður Sigurðsson og Sigmar Karlsson.
Fulltrúar D-listans lögðu fram eftirfarandi bókun.
Sveitarfélagið hefur verið að niðurgreiða fasteignagjöld fyrir öll önnur frjáls félagasamtök, hvort sem það eru stjórnmálafélög, íþróttafélög, leikfélög eða Rauði Krossinn. Því er skrýtið að nú eigi að fara að mismuna félögum eftir því hvaða skoðanir þau hafi í stjórnmálum. Við á D - listanum höfum í gegn um tíðina lagt okkur fram við að styðja við alls kyns félagasamtök (óðháð pólitískum skoðunum) og veltum því fyrir okkur út frá þessari stefnu hvort að nýr meirihluti ætli sér ekki að gera það í framtíðinni.

Alda Pálsdóttir
Sigmar Karlsson


Reglurnar samþykktar af 5 atkvæðum meirihlutans. Fulltrúar minnihlutans á móti.

4.Útsvarsprósenta í Hveragerði 2023

2211073

Lagt fram minnisblað frá 22. nóvember 2022 vegna ákvörðunar útsvarsprósentu Hveragerðisbæjar fyrir árið 2023.

Enginn tók til máls.
Bæjarstjórn samþykkir að útsvarsprósenta Hveragerðisbæjar fyrir árið 2023 verði óbreytt eða 14,52%.

5.Gjaldskrá sorphirðu og sorpurðunar 2023, fyrri umræða

2211068

Lögð fram til fyrri umræðu gjaldskrá fyrir sorphirðu og sorpurðun í Hveragerðisbæ.

Enginn tók til máls.
Samþykkt að vísa gjaldskránni til síðari umræðu.

6.Gjaldskrá hundahalds 2023, fyrri umræða

2211070

Lögð fram til fyrri umræðu gjaldskrá fyrir hundahald í Hveragerðisbæ.

Enginn tók til máls.
Samþykkt að vísa gjaldskránni til síðari umræðu.

7.Gjaldskrá kattahalds 2023, fyrri umræða

2211071

Lögð fram til fyrri umræðu gjaldskrá fyrir kattahald í Hveragerðisbæ.

Enginn tók til máls.
Samþykkt að vísa gjaldskránni til síðari umræðu.

8.Gjaldskrá vatnsgjalds 2023, fyrri umræða

2211072

Lögð fram til fyrri umræðu gjaldskrá fyrir vatnsveitu í Hveragerðisbæ.

Enginn tók til máls.
Samþykkt að vísa gjaldskránni til síðari umræðu.

9.Fjárhagsáætlun Hveragerðisbæjar fyrir árin 2023-2026, fyrri umræða

2211057

Lögð fram til fyrir umræðu fjárhagsáætlun Hveragerðisbæjar fyrir árin 2023-2026.
Sandra Sigurðardóttir, formaður bæjarráðs kynnti áætlunina.

Eftirtaldir tóku til máls: Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir, Sandra Sigurðardóttir, Sigmar Karlsson, Njörður Sigurðsson, Dagný Sigurbjörnsdóttir, Alda Pálsdóttir og Halldór B. Hreinsson.

Kl 18:50 var gert fundarhlé.
Kl 18:56 hélt fundur áfram.
Fulltrúar Sjálfsstæðisflokksins lögðu fram eftirfarandi bókun.

Það er ansi margt sem okkur á D-listanum finnst einkennilegt í fjárhagsáætlun meirihlutans. Það liggur nokkuð ljóst fyrir að grunnstefið er að vegna aukins kostnaðar við uppbyggingu Hamarshallarinnar, sem við teljum vera hóflega áætlaðan, er önnur uppbygging á algjöru undanhaldi í Hveragerði. Það er að koma bersýnilega í ljós í þessari fjárhagsáætlun að kostnaður við Hamarshöllina er að hafa ansi víðtæk áhrif á aðra uppbyggingu innviða og þjónustu í bænum. Einnig þykir okkur leitt að nýr meirihluti skuli ganga bak orða sinna við bæjarbúa varðandi kostnað og framkvæmdatíma á nýrri Hamarshöll.

Alda Pálsdóttir
Sigmar Karlsson


Fulltrúar Okkar Hveragerðis og Framsóknar leggja fram eftirfarandi bókun.

Fjárhagsáætlunin fyrir árið 2023 og þriggja ára áætlun 2024-2026 sem hér er lögð fram er sú fyrsta sem nýr meirihluti Okkar Hveragerðis og Framsóknar leggur fram. Fjárhagsáætlunin var eingöngu unnin af meirihluta en minnihluti Sjálfstæðisflokksins hafnaði góðu boði um að taka þátt í fjárhagsáætlunarvinnunni. Síðastliðinn áratug hefur minnihluti tekið þátt í fjárhagsáætlunargerð með meirihluta, en því miður hafði Sjálfstæðisflokkurinn ekki áhuga á slíku samstarfi, í fyrsta skipti sem flokkurinn er í minnihluta síðustu 16 ár. Hafa ber í huga að bæjarfulltrúar eiga að vinna að hag allra bæjarbúa og hag Hveragerðisbæjar, hvort sem þeir starfa í minnihluta eða meirihluta. Besta tækifærið til þess er að taka þátt í fjárhagsáætlunarvinnunni og hafa þannig áhrif á rekstur sveitarfélagsins og áherslur til framtíðar. Það er einlæg ósk okkar að þessi vinna sé unnin í góðu samstarfi allra flokka og að Sjálfstæðisflokkurinn sjái hag sinn og bæjarbúa allra í því að leggja hönd á plóg við vinnu fjárhagsáætlunar. Því saman gerum við góðan bæ enn betri.

Meirihlutinn vill koma góðum þökkum til bæjarstjóra og skrifstofustjóra Hveragerðisbæjar fyrir óeigingjarna, mikla og góða vinnu við fjárhagsáætlun. Fjárhagsáætlanir einstakra deilda eru unnar í góðri samvinnu við forstöðumenn stofnana og er þeim þakkað fyrir mjög góða vinnu. Einnig er starfsmönnum Hveragerðisbæjar færðar þakkir fyrir gott samstarf við gerð fjárhagsáætlunarinnar.

Almennt um rekstur og horfur 2023
Stefnt er að því að gera reksturinn sjálfæran, en aukinn þungi í málefnum fatlaðs fólks og verðbólguinnskot þyngir róðurinn umtalsvert. Ljóst er að rekstur Hveragerðisbæjar hefur ekki verið sjálfbær undanfarin ár sem má sjá af því að lán hafa verið tekin fyrir rekstri bæjarins og vegna þessa hefur skuldahlutfall hækkað umfram fjárfestingar. Þá hefur því miður ekki verið nægilega hugað að uppbyggingu innviða samhliða úthlutun lóða og fjölgun íbúa. Sú staða sem blasir við er gífurleg þörf fyrir fjárfestingar í innviðum á sama tíma og rekstur bæjarins hefur ekki verið sjálfbær.

Þrátt fyrir innviðaskuldir og hátt skuldahlutfall bæjarins eru mikil tækifæri í Hveragerði. Mikil eftirspurn er eftir búsetu í Hveragerði og fjölgaði íbúum um 7,4% árið 2021 og stefnir í að íbúafjölgun á þessu ári verði litlu minni. Þessi eftirspurn gefur okkur tækifæri til að snúa þróun síðustu ára í rekstri bæjarins við með því að fá inn tekjur í innviðauppbyggingu og til að lækka skuldir sveitarfélagsins. Á sama tíma er mikilvægt verkefni að byggja upp og fjölga atvinnutækifærum í Hveragerði og í því augnamiði hefur verið sett á stofn atvinnumálanefnd.

Forsendur fjárhagsáætlunar 2023
Tekjur Hveragerðisbæjar eru útsvar, fasteignagjöld, þjónustugjöld og framlag úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga. Útsvarsprósenta Hveragerðisbæjar er óbreytt í fjárhagsáætlun 2023 eða 14,52%. Fasteignamat fyrir árið 2023 hækkaði mest í Hveragerði yfir landið, eða um 32,3%. Strax eftir að nýr meirihluti tók við var ákveðið að lækka álagningarprósentu fasteignaskatts og var það samþykkt á fyrsta bæjarstjórnarfundi kjörtímabilsins þann 7. júní sl. og vísað í nánari útfærslu til gerðar fjárhagsáætlunar. Í áætluninni er gert ráð fyrir lækkun álagningarprósentu fasteignaskatts á íbúðarhúsnæði úr 0,415% í 0,340%. Með því er dregið verulega úr þeirri hækkun sem að óbreyttu hefði orðið á íbúa vegna hækkunar á fasteignamati. Hækkun á fasteignaskatti íbúðarhúsnæðis er um 15% á milli ára og skýrist það að langmestu leyti af hækkun verðlags. Álagningarprósenta fasteignaskatts af atvinnuhúsnæði í B og C flokki er óbreytt. Álagningarprósentur á vatnsgjaldi, holræsagjaldi og lóðarleigu á húsnæði í öllum flokkum breytast ekki milli ára. Aukavatnsgjald hækkar úr 14 kr. á rúmmetra í 15 kr. Gjalddögum fasteignagjalda er fjölgað úr 10 í 11.

Áhersla var lögð á að koma sem mest til móts við bæjarbúa vegna hækkana á gjaldskrám sveitarfélagsins. Hækkun gjaldskráa Hveragerðisbæjar miðast því við verðlagsþróun síðasta árs. Verðlagsþróun síðastliðna 12 mánuði var um 9,33% og því hækka flest þjónustugjöld í samræmi við það.

Þá er rétt að taka fram að lágmarkshækkun er á sorphirðugjaldi á milli ára í fjárhagsáætlun. Sérstök athygli er vakin á því að á næsta ári verða breytingar á sorphirðu við gildistöku breytinga á lögum um meðhöndlun úrgangs. Með þeirri breytingu munu íbúar greiða fyrir það sem þeir henda og það getur þýtt hækkun gjalda vegna sorphirðu og úrgangsmeðhöndlunar. Á þessari stundu liggur ekki ljóst fyrir hvaða breytingar á gjaldskrá þetta mun hafa í för með sér, en þegar þær upplýsingar liggja fyrir verður gerð breyting á gjaldskrá Hveragerðisbæjar og hækkun eftir atvikum dreift á þá gjalddaga sorphirðugjalda sem eftir verða á árinu.

Fjölskyldan
Í málefnasamningi meirihlutans er lögð rík áhersla á velferð fjölskyldunnar og því ber að geta þess að á árinu 2023 verður haldið áfram að lækka gjöld fyrir leikskólavist. Haustið 2022 ákvað meirihluti Okkar Hveragerðis og Framsóknar að bjóða upp á eina gjaldfrjálsa klukkustund á leikskólum bæjarins og haustið 2023 er gert ráð fyrir að gjaldfrjálsar klukkustundir á leikskólum verði orðnar tvær og með því lækka gjöld foreldra leikskólabarna. Frístundastyrkur verður hækkaður úr 26.000 kr. í 32.000 kr. Stefnt er að því að lækkun leikskólagjalda og hækkun frístundastyrksins verði í skrefum á kjörtímabilinu.

Fjárfestingar 2023
Vegna þeirrar miklu innviðaskuldar sem safnast hefur upp hjá Hveragerðisbæ undanfarin ár þar sem uppbygging innviða hefur ekki haldið í íbúafjölgun eru miklar fjárfestingar framundan á næsta ári. Gert er ráð fyrir að heildarfjárfesting á árinu 2023 verði 1.273 milljónir króna. Stærstu framkvæmdir ársins verða eftirfarandi:

* Áætlað er að framkvæmdir við þriðja áfanga Grunnskólans í Hveragerði hefjist á árinu og er gert ráð fyrir fjárfestingar í það verkefni á árinu 2023 upp á 200 m.kr. en framlag Sveitarfélagsins Ölfuss er 18 m.kr. dregst frá þeirri tölu.
* Gert er ráð fyrir að 330 m.kr. fari í byggingu nýs leikskóla í Kambalandi ásamt því að bæta starfsaðstöðu fyrir starfsfólk á Leikskólanum Óskalandi.
* Á árinu 2023 er jafnframt gert ráð fyrir að ný Hamarhöll rísi á grunni þeirrar sem fauk í febrúar 2022 og eru lagðar 350 m.kr. í þá framkvæmd.
* Áætlaðar fjárfestingar vegna gatnagerðar á árinu eru 259 m.kr. og eru stærstu framkvæmdirnar næstu áfangar í Kambalandi, á Friðarstaðareit, við Hólmabrún / Þelamörk / Sunnumörk, við Grænumörk / Austurmörk og við Lindarbrún.
* Uppkaup lands fyrir 70 m.kr.
* Þá er gert ráð fyrir að stækka bílastæða við Árhólma fyrir 20 m.kr.
* Viðhald í grunnskólanum verður upp á 52 m.kr. á árinu en steina þarf elsta hluta hans að nýju og setja þar loftræstikerfi ásamt því að skipta um glugga.
* Lokið verður við að led-væða götulýsingu í bænum á næsta ári og er áætlað að það sé fjárfesting upp á 33 m.kr.
* Auk þess er gert ráð fyrir 30 m.kr. fjárfestingu í fráveitu bæjarins.

Helstu rekstrartölur í fjárhagsáætlun 2023
Við framlagningu fjárhagsáætlunar til fyrri umræðu er gert ráð fyrir að áætlaðar heildartekjur Hveragerðisbæjar (aðalsjóðs, A- og B- hluta) nemi alls kr. 4.253 m.kr. fyrir árið 2023. Þar af er útsvar og fasteignagjöld áætlaðar kr. 2.548 milljónir. Framlög Jöfnunarsjóðs eru áætluð 784 m.kr. og aðrar tekjur bæjarsamstæðu um 920 m.kr.

Rekstrargjöld og reiknaðar afskriftir samstæðu nema um 3.800 m.kr. EBITDA Hveragerðisbæjar er 477 m.kr. Niðurstaða samstæðu án fjármagnsliða er jákvæð um 281 m.kr. Fjármagnsliðir eru áætlaðir 395 m.kr. og er rekstrarniðurstaða samstæðu því neikvæð um 113 m.kr. sem er þó betri niðurstaða en undanfarin ár.

Forsendur þriggja ára áætlunar
Samhliða fjárhagsáætlun 2023 er lögð fram þriggja ára fjárhagsáætlun fyrir árin 2024-2026. Forsendur hennar eru eftirfarandi:
* Gert er ráð fyrir að vísitala neysluverð verði frá 3,3% í upphafi tímabilsins og 2,5% í lok þess og er það í samræmi við uppfærða þjóðhagsspá sem birt var í nóvember 2022.
* Íbúar verði tæplega 4.000 í lok árs 2026.
* Tekjur af útsvari hækki um 10% á ári á tímabilinu.
* Tekjur af fasteignaskatti hækki um 6,5% á ári á tímabilinu.
* Framlög jöfnunarsjóðs hækki um 4,1% á ári á tímabilinu.
* Hækkun launa verði 4,1% á ári á tímabilinu.
* Starfsfólki sveitarfélagsins fjölgi um 3,5% til 3,9% á á ári á tímabilinu.
* Annar rekstrarkostnaður hækki um 2,5% til 3,3% á ári á tímabilinu.

Áætlun um rekstur 2024-2026
Markmið meirihlutans er að rekstur sveitarfélagsins verði sjálfbær og ekki verði tekin lán fyrir rekstri eins og raunin hefur verið undanfarin ár. Því þarf að sýna ráðdeild í rekstri án þess að skerða þjónustu til íbúa. Lögð er sérstök áhersla á að auka tekjur sveitarfélagsins en mörg tækifæri eru til þess í Hveragerði sem er vinsæll búsetukostur. Unnið er að úttekt á rekstri sveitarfélagsins og stefnumótun til næstu tíu ára sem verður leiðarljós þeirrar bæjarstjórnar sem nú situr og þeirra sem taka við á næstu misserum.

Fjárfestingar 2024-2026
Áætlaðar fjárfestingar árið 2024 eru 440 m.kr., árið 2025 770 m.kr. og árið 2026 310 m.kr. Stærstu fjárfestingarnar er bygging þriðja og fjórða áfanga grunnskólans, Hamarshöllin, hjúkrunarheimili, fráveita, vatnsveita og bílastæði við sundlaug. Allt eru þetta framkvæmdir sem nauðsynlegt er að fara í vegna íbúafjölgunar undanfarinna ára og þeirri fjölgun sem áætlað er að verði á næstu árum.

Rétt er að ítreka að fjárfestingaáætlun er endurskoðuð við fjárhagsáætlunargerð hvers árs í ljósi þess efnahagslega umhverfis sem ríkir á hverjum tíma.

Skuldir og skuldbindingar 2023-2026
Markmið meirihlutans er að þrátt fyrir miklar fjárfestingar vegna innviðaskuldar og lántökur vegna þeirra verði skuldir samstæðu undir 150% skuldaviðmiði. Skuldir samstæðu munu þróast með eftirfarandi hætti að teknu tilliti til þess að skv. fjármálareglum sveitarfélaga er heimilt að draga frá skuldum skuldbindingu vegna lífeyris sem fellur til eftir 15 ár og síðar.

2023 136,2% af tekjum
2024 133,9% af tekjum
2025 135,9% af tekjum
2026 127,1% af tekjum

Á árunum 2023-2026 munu skuldir Hveragerðisbæjar vaxa úr 7.372 m.kr. í 8.360 m.kr. vegna lántöku fyrir innviðafjárfestingar sem getið er að ofan.

Að lokum
Þrátt fyrir áskoranir fram undan lítur meirihluti Okkar Hveragerðis og Framsóknar björtum augum á framtíðina enda tækifærin fjölmörg. Bæjarráð samþykkti á fundi sínum 3. nóvember að ganga til samninga við KPMG vegna úttektar á rekstri sveitarfélagsins en 10 ár eru liðin síðan sambærileg úttekt fór fram. KPMG hefur veitt faglega ráðgjöf vegna vinnu við fjárhagsáætlunina sem nú er lögð fram. Sú vinna heldur áfram og verður 10 ára áætlun lögð fram á nýju ári, þessi vinna er í samræmi við málefnasamning meirihlutans þar sem talað fyrir skýrri framtíðarsýn í rekstri og uppbyggingu sveitarfélagsins. Hveragerðisbær er í örum vexti, fram undan eru metnaðarfull verkefni. Mikilvægt er að huga að framtíðinni, setja markmið svo innviðauppbygging haldist í hendur við fjölgun íbúa.

Það er kappsmál meirihlutans að þjónusta íbúa Hveragerðis sem best. Áhersla er lögð á fjölskylduna, styðja við barnafjölskyldur, hér séu öflugar menntastofnanir, fjölbreytt atvinnulíf, gæða íþrótta- og frístundastarf, heilsuefling sé í hávegum höfð og að ferðaþjónustan og menningin haldi áfram að blómstra.

Sandra Sigurðardóttir
Njörður Sigurðsson
Dagný Sif Sigurbjörnsdóttir
Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir
Halldór B. Hreinsson.

Samþykkt að vísa fjárhagsáætlun áranna 2023-2026 til síðari umræðu í bæjarstjórn.
Fundargerð upp lesin og samþykkt.

Fundi slitið - kl. 19:49.

Getum við bætt efni síðunnar?