Fara í efni

Bæjarstjórn

487. fundur 11. maí 2017 kl. 17:00 - 19:47 í fundarsal Sunnumörk 2
Nefndarmenn
  • Unnur Þormóðsdóttir varaforseti bæjarstjórnar
  • Aldís Hafsteinsdóttir
  • Friðrik Sigurbjörnsson
  • Berglind Sigurðardóttir varamaður
  • Njörður Sigurðsson
  • Viktoría Sif Kristinsdóttir
  • Garðar R. Árnason
Starfsmenn
  • Helga Kristjánsdóttir skrifstofustjóri
Fundargerð ritaði: Helga Kristjánsdóttir skrifstofustjóri
Dagskrá
Varaforseti bæjarstjórnar, Unnur Þormóðsdóttir setti fund og stjórnaði.
Leitaði hún eftir athugasemdum við fundarboð en engar komu fram.

1.Ársreikningur Hvergerðisbæjar 2016 síðari umræða.

1705012

Á fundinn mætti Jóhann G. Harðarson, endurskoðandi, kynnti hann ársreikninginn og lagði fram endurskoðunarskýrslu sína.

Eftirtaldir tóku til máls: Aldís Hafsteinsdóttir og Garðar Rúnar Árnason.
Meirihluti Sjálfstæðismanna lagði fram eftirfarandi bókun:

Meirihluti D-listans er stoltur af niðurstöðu ársins en ársreikningur 2016 sýnir að fjárhagur bæjarins er í traustum skorðum. Slíkt hefur reyndar einnig verið raunin undanfarin ár en samfelldur hagnaður hefur verið af rekstri samstæðu A B hluta frá árinu 2012. Ytri aðstæður hafa verið sveitarfélögum hagfelldar að undanförnu en einnig hefur aðhald og árvekni í rekstrinum reynst nauðsyn til að svo jákvæð niðurstaða náist. Mikilvægi þess að halda stöðugleika í efnahagslegu umhverfi sveitarfélaganna er aldrei of oft ítrekað en lág verðbólga er forsenda þess að rekstur sé í jafnvægi.
Jákvæð rekstrarniðurstaða er nauðsynleg til að gera fjárfestingar og verkefni sem í farvatninu eru betur möguleg. Nú er hafin stærsta framkvæmd kjörtímabilsins, en byggingu 6 deilda leikskóla við Þelamörk lýkur á haustmánuðum nú í ár. Með byggingu leikskólans er hugsað til framtíðar en mikil ásókn er í lóðir í Hveragerði og fyrirséð að í bæjarfélaginu mun fjölga umfram landsmeðaltal á næstu árum. Því er mikilvægt að hafa skýra sýn til lengri tíma með tilliti til þeirrar uppbyggingar innviða sem nauðsynleg mun reynast til að taka við þeim íbúum sem hér vilja búa. Slík sýn er fyrir hendi og með áframhaldandi styrkri stjórn fjármála bæjarfélagsins mun uppbygging til framtíðar ganga vel.

Ársreikningur 2016 sýnir sterka afkomu Hveragerðisbæjar bæði sveitarsjóðs og samstæðu(A og B hluta). Það endurspeglast í því að hjá samstæðu er veltufé frá rekstri jákvætt um 270,2 mkr eða sem nemur tæplega 11% af heildartekjum bæjarins. Rekstrarniðurstaða fyrir afskriftir og fjármagnsliði (EBITDA) er jákvæð um 294 mkr eða sem nemur um 12% af heildartekjum samstæðu.
Sem hlutfall af heildartekjum bæjarins nema skuldir í árslok 2016 105 % sem er 45 prósentustigum undir því skuldaþaki sem ný sveitarstjórnarlög hafa fyrirskipað. Rekstrarniðurstaða sveitarsjóðs er jákvæð um 55,9 mkr.

Langtímaskuldir samstæðu (A og B hluta) að viðbættri leiguskuldinni vegna Sunnumerkur 2 nema 1.811 mkr. og hafa hækkað um 109 mkr á árinu. Lífeyrisskuldbinding er 514 mkr. Samtals gerir þetta 2.326 mkr eða 937 þúsund pr. íbúa. Það er ljóst að sveitarfélagið er vel í stakk búið til að standa við skuldbindingar sínar og fjárhagslega fært um frekari fjárfestingar.
Þennan árangur ber að þakka markvissu aðhaldi og traustu utanumhaldi fjármuna bæjarbúa undanfarin ár.

Eigið fé sveitarfélagsins í árslok nam 1.093 mkr. skv. efnahagsreikningi.

Fjárfestingar á árinu 2016 námu 331,7 mkr. á móti fjárfestingu ársins 2015 er nam 134,9 mkr. Helstu fjárfestingar voru fólgnar í upphafsstigum nýs leikskóla við Þelamörk, fráveituframkvæmdum, nýrri borholu vatnsveitu, framkvæmdum við sundlaug, gatnagerð, kaup á Álfafelli og Þelamörk 29, endurbótum á Mjólkurbúi og öðrum smærri framkvæmdir.
Tekin ný langtímalán voru 243 mkr en afborganir langtímalána námu 156 mkr.

Stærstu einstöku útgjaldaliðir Hveragerðisbæjar eru fræðslu- og uppeldismál sem taka til sín 45,46% af skatttekjum, félagsþjónustan 11% og æskulýðs- og íþróttamál 9,6%.

Það hefur verið sérstaklega ánægjulegt að fylgjast með góðu og ábyrgðarfullu starfi forstöðumanna bæjarins og starfsmanna sem allir hafa tekið virkan þátt og borið ábyrgð á að fjárhagsáætlun einstakra stofnana standist. Meirihluti D-listans færir þeim öllum bestu þakkir fyrir framlag þeirra til ábyrgs reksturs bæjarins.

Unnur Þormóðsdóttir
Aldís Hafsteinsdóttir
Friðrik Sigurbjörnsson
Berglind Sigurðardóttir

Bæjarfulltrúar B- og S-lista lögðu fram eftirfarandi bókun.

Bæjarfulltrúar Frjálsra með Framsókn og Samfylkingar og óháðra fagna jákvæðri rekstrarniðurstöðu samstæðu bæjarins fyrir árið 2016. Gott samstarf og samheldni innan bæjarstjórnar skiptir þar máli. Utanaðkomandi þættir vega þó enn þyngra, ekki síst að verðbólga hefur haldist lág, sem og að tekjur samstæðunnar voru 128 mkr. hærri heldur en fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir, en almennt jukust tekjur íslenskra sveitarfélaga umtalsvert á árinu.

Þrátt fyrir margar jákvæðar niðurstöður í ársreikningnum er ýmislegt sem hafa verður vakandi auga fyrir á næsta og næstu árum. Má í því sambandi m.a. benda á að veltufjárhlutfall sveitarsjóðs heldur áfram að lækka og er nú 0,55% í stað 0,56% 2015, en þessi þróun hefur átt sér stað allt frá árinu 2011. Takist ekki að snúa þessari þróun við kemur að lokum að því að Hveragerðisbær eigi í erfiðleikum með daglegar greiðslur. Þrátt fyrir um 154 mkr. afborganir langtímaskulda sveitarsjóðs, jukust langtímalán sveitarsjóðs um 103 mkr. Viðbúið er að langtímaskuldir sveitarsjóðs aukist umtalsvert á árinu 2017 vegna byggingar nýs leikskóla, sem þrengi verulega að fjárhagslegu olnbogarými bæjarins á næstu árum.

Eins og undanfarin ár vekur það athygli hversu stór hluti af tekjum bæjarins er framlag Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga, eða 543 mkr. af 2.331 mkr. heildartekjum sveitarsjóðs. Það nemur um 23% af heildartekjum sveitarsjóðs, sem er svipað hlutfall og árið 2015. Ástæða þessa háa framlags frá Jöfnunarsjóði eru lágar tekjur bæjarins. Með hærri tekjum er hægt að borga skuldir hraðar niður og auka þjónustu við bæjarbúa. Vænlegasta leiðin til að hækka tekjur bæjarfélagsins er að efla atvinnulíf, sem bæjarfulltrúar S- og B-lista hafa ítrekað bent á. Með hagsýni og ráðdeild að leiðarljósi við fjármálastjórn bæjarfélagsins eru bæjarfulltrúar B- og S-lista sannfærðir um að Hveragerðisbær komist auðveldlega hjá afleiðingum framangreindra óvissuþátta og að framtíð Hveragerðisbæjar sé björt.

Garðar R. Árnason B-lista
Njörður Sigurðsson S-lista
Vikoría Sif Kristinsdóttir S-lista

Ársreikningurinn samþykktur og undirritaður.

2.Fundargerð bæjarráð frá 27.apríl 2017.

1704002F

Liðir afgreiddir sérstaklega; 18, 20, 21, 22 og 23.

Eftirtaldir tóku til máls: Unnur Þormóðsdóttir, Njörður Sigurðsson, Garðar Rúnar Árnason, Aldís Hafsteinsdóttir og Friðrik Sigurbjörnsson.
Liður 18 " Bréf frá Sýslumanninum á Suðurlandi frá 25. apríl 2017" afgreiddur sérstaklega. Bæjarstjórn samþykkir afgreiðslu bæjarráðs.
Liður 20 " Lóðarumsókn Mánamörk 7" afgreiddur sérstaklega. Bæjarstjórn samþykkir afgreiðslu bæjarráðs.
Liður 21 " Lóðarumsókn Heiðmörk 48" afgreiddur sérstaklega. Bæjarstjórn samþykkir afgreiðslu bæjarráðs.
Liður 22 " Lóðaumsóknir Sunnumörk 1, Sunnumörk 3, Austurmörk 24 og Austurmörk 25" afgreiddur sérstaklega. Bæjarstjórn samþykkir afgreiðslu bæjarráðs.
Liður 23 " Lóðaumsóknir Hjallabrún" afgreiddur sérstaklega. Bæjarstjórn samþykkir afgreiðslu bæjarráðs.

Fundargerðin að öðru leyti samþykkt samhljóða.

3.Fundargerð bæjarráðs frá 4.maí 2017.

1705002F

Liðir afgreiddir sérstaklega; 6.

Enginn tók til máls.
Liður 6 " Endurbætur á tjaldsvæði" afgreiddur sérstaklega. Bæjarstjórn samþykkir afgreiðslu bæjarráðs.

Fundargerðin að öðru leyti samþykkt samhljóða.

4.Fundargerð Skipulags- og mannvirkjanefndar frá 2.maí 2017.

1705011

Liðir afgreiddir sérstaklega; 1, 2, 3, 4, 5, 6, 7 og 8.

Á fundinn mætti Guðmundur F. Baldursson skipulagsfulltrúi og kynnti endurskoðun aðalskipulags Hveragerðis.

Eftirtaldir tóku til máls: Unnur Þormóðsdóttir, Friðrik Sigurbjörnsson, Aldís Hafsteinsdóttir, Njörður Sigurðsson og Garðar Rúnar Árnason.
Liður 1 "Heildarendurskoðun aðalskipulags Hveragerðis 2005-2017 - Verkstaða" afgreiddur sérstaklega.
Bæjarstjórn samþykkir að aðalskipulagstillagan ásamt umhverfismati verði send Skipulagsstofnun til athugunar í samræmi við 3. mgr. 30. gr. skipulagslaga og hún eftir atvikum auglýst í samræmi við 31. gr. skipulagslaga að fengnum athugasemdum stofnunarinnar.

Liður 2 "Deiliskipulag við Austurmörk, Sunnumörk og Mánamörk, tillaga í vinnslu" afgreiddur sérstaklega.
Bæjarstjórn samþykkir að Landform ehf. verði falið að vinna áfram með tillöguna og leggja fram fullmótaða tillögu á næsta fundi Skipulags- og mannvirkjanefndar.

Liður 3 "Edenreitur, deiliskipulagstillaga" afgreiddur sérstaklega.
Bæjarstjórn samþykkir að Ask arkitektum verði falið að vinna áfram með tillöguna og leggja fram fullmótaða tillögu á næsta fundi Skipulags- og mannvirkjanefndar.

Liður 4 "Breiðamörk 1C, tillaga að deiliskipulagi" afgreiddur sérstaklega.
Bæjarstjórn samþykkir tillöguna.

Liður 5 "Dalsbrún 1-3, stækkun lóðar" afgreiddur sérstaklega.
Bæjarstjórn samþykkir erindið.

Liður 6 "Dynskógar / Varmahlíð, umsókn um stækkun lóða" afgreiddur sérstaklega.
Bæjarstjórn samþykkir samhljóða eftirfarandi bókun:
Samkvæmt bréfi lóðarhafa mætti ætla að bæjarfélagið hafi hug á að úthluta umræddu svæði á næstunni. Slíkt er ekki raunin. Í því ljósi og því að lóðir á umræddu svæði eru margar hverjar þegar mjög stórar telur bæjarstjórn ekki rétt að úthluta lóðinni sem þarna er um að ræða til nágrannanna. Komi til þess að einhverjar breytingar verði á afstöðu bæjarstjórnar verða nágrannar að sjálfsögðu upplýstir um það.

Liður 7 "Mánamörk 1, mænishæð" afgreiddur sérstaklega.
Bæjarstjórn samþykkir að breytingin verði grenndarkynnt.

Liður 8 "Laufskógar 21, ósk um nýja innkeyrslu inn á lóð" afgreiddur sérstaklega.
Bæjarstjórn samþykkir erindið enda greiði lóðarhafi kostnað við niðurtekt á kantsteini og frágangi utan lóðarinnar.

Fundargerðin að öðru leyti samþykkt samhljóða.

5.Fundagerð menningar- íþrótta- og frístundanefndar frá 3.maí 2017.

1705020

Liðir afgreiddir sérstaklega; 4a og 4b.

Eftirtaldir tóku til máls: Unnur Þormóðsdóttir, Njörður Sigurðsson, Friðrik Sigurbjörnsson, Garðar Rúnar Árnason og Aldís Hafsteinsdóttir.
Liður 4a "Reglur um menningarverðlaun Hveragerðisbæjar" afgreiddur sérstaklega.
Bæjarstjórn samþykkir reglurnar.

Liður 4b " Reglur um kjör íþróttamanns ársins" afgreiddur sérstaklega.

Fulltrúar S-listans lögðu fram eftirfarandi breytingartillögu.

Undirrituð leggja til að reglum um kjör íþróttamanns Hveragerðis verði breytt á þann veg að valinn verði íþróttakarl og íþróttakona hvers árs.

Njörður Sigurðsson
Viktoría Sif Kristinsdóttir

Breytingartillagan felld með 4 atkvæðum meirihlutans, minnihlutinn með.

Bæjarstjórn samþykkir reglurnar með fimm atkvæðum, fulltrúar S-listans sátu hjá.

Bæjarstjórn hvetur Menningar-, íþrótta- og frístundanefnd til að kanna möguleika á samstarfi við menningarstofnanir sýslunnar um sýningar á hátíðum og viðburðum í Hveragerði.

Fundargerðin að öðru leyti samþykkt samhljóða.

6.Ráðning umhverfisfulltrúa.

1705016

Lagt fram minnisblað frá bæjarstjóra dagsett 9. maí 2017 þar sem rætt er um ráðningu umhverfisfulltrúa Hveragerðisbæjar. Alls sóttu 17 umsækjendur um starfið. Bæjarstjórn hefur kynnt sér umsóknir og gögn umsækjenda ítarlega.

Eftirtaldir tóku til máls: Unnur Þormóðsdóttir, Friðrik Sigurbjörnsson og Njörður Sigurðsson.
Á grundvelli fyrirliggjandi gagna samþykkir bæjarstjórn að ráða Höskuld Þorbjarnarson í starf umhverfisfulltrúa Hveragerðisbæjar.

7.Skipan í nefndir og ráð.

1705013

Tillaga kom um að Ingibjörg Zoega verði aðalmaður í Skipulags- og mannvirkjanefnd í stað Björns Kjartanssonar sem hefur flutt úr Hveragerði og að Elín Káradóttir verði varamaður í stað Ingibjargar.

Enginn tók til máls.
Tillagan samþykkt samhljóða.

8.Reglur um innritun og innheimtu gjalda í leikskólum.

1705015

Lögð fram til fyrri umræðu drög að reglum um innritun og innheimtu gjalda í leikskólum Hveragerðisbæjar.

Eftirtaldir tóku til máls: Aldís Hafsteinsdóttir, Garðar Rúnar Árnason, Njörður Sigurðsson og Unnur Þormóðsdóttir.
Bæjarstjórn samþykkir að vísa reglunum til síðari umræðu.

9.Leigusamningur Breiðumörk 20.

1705018

Lagður fram leigusamningur við Reiti - skrifstofur ehf um leigu á Breiðumörk 20 í Hveragerði fyrir bæjarskrifstofur.

Eftirtaldir tóku til máls: Unnur Þormóðsdóttir, Friðrik Sigurbjörnsson, Aldís Hafsteinsdóttir og Njörður Sigurðsson.
Eftirfarandi bókun samþykkt samhljóða:
Með gerð þessa leigusamnings munu framkvæmdir hefjast við Breiðumörk 20 og bæjarskrifstofurnar munu flytja úr núverandi húsnæði í Verslunarmiðstöðinni Sunnumörk í miðbæinn á haustmánuðum. Núverandi leigusamningur mun flytjast svo til óbreyttur yfir á nýjan stað. Með þessari aðgerð vill bæjarstjórn leitast við að efla miðbæjarkjarna Hveragerðis sem óneitanlega breyttist töluvert við tilkomu verslumarmiðstöðvarinnar við Sunnumörk. Verslunarmiðstöðin mun einnig njóta góðs af þessari breytingu þar sem meira rými skapast fyrir núverandi rekstraraðila og ný spennandi verslunarrými verða til í Sunnumörk. Það er von bæjarstjórnar að flutningur bæjarskrifstofunnar verði til að efla enn frekar bæjarbraginn og að þetta skref verði til gæfu til framtíðar litið.

Leigusamningurinn samþykktur samhljóða.

10.Sjálfbært Ísland - samstarf um vænleikakönnun.

1705019

Lögð fram viljayfirlýsing milli Hveragerðisbæjar, Heilsustofnunar NLFÍ og Landbúnaðarháskólans að Reykjum um að standa fyrir gerð könnunar á möguleikum á því að sett verði á stofn upplýsinga og fræðslumiðstöð um sjálfbæra þróun og lífræna ræktun í Hveragerði. Vinnuheiti verkefnisins verði Sjálfbært Ísland.

Eftirtaldir tóku til máls: Unnur Þormóðsdóttir, Garðar Rúnar Árnason og Aldís Hafsteinsdóttir.
Bæjarstjórn samþykkir viljayfirlýsinguna og felur bæjarstjóra að vera tengiliður við verkefnið.

11.Tillaga frá S-lista um breytingar á reglum Hveragerðisbæjar um framlög til stjórnmálasamtaka er bjóða fram til sveitarstjórnarkosninga.

1705021

Lögð fram eftirfarandi tillaga frá S-lista.

Bæjarfulltrúar Samfylkingarinnar og óháðra leggja til að reglum Hveragerðisbæjar um framlög til stjórnmálasamtaka er bjóða fram til sveitarstjórnarkosninga verði breytt sem hér segir:

Við reglurnar bætist 6. liður sem hljóði svo: „Stjórnmálasamtök sem hljóta styrk skv. 1.-4. tl. skulu árlega birta ársreikning sinn á opinberum vettvangi. Á því ári sem sveitarstjórnarkosningar fara fram skulu stjórnmálasamtök sem hljóta styrk skv. 1.-4. tl. gera grein fyrir kostnaði við framboð til sveitarstjórnarkosninga á opinberum vettvangi í síðasta lagi sex mánuðum eftir sveitarstjórnarkosningar."

Lagt er til að breytingin taki gildi frá og með 1. janúar 2018.

Njörður Sigurðsson
Viktoría Sif Kristinsdóttir

Greinargerð
Samkvæmt reglum Hveragerðisbæjar um framlög til stjórnmálasamtaka er bjóða fram til sveitarstjórnarkosninga, með vísan í 5. gr. laga nr. 162/2006, fá stjórnmálasamtök sem fengið hafa a.m.k. einn mann kjörinn í bæjarstjórn eða hlotið a.m.k. 5% atkvæða styrk frá sveitarfélaginu. Styrkir Hveragerðisbæjar til stjórnmálasamtaka geta numið stórum hluta af rekstrarfé samtakanna. Eðlilegt er að stjórnmálasamtök sem hljóta styrki af opinberu fé geri grein fyrir reikningum sínum. Til samanburðar má nefna að í þjónustusamningum sem Hveragerðisbær hefur gert við ýmis félagasamtök í bænum er ýmist óskað eftir því að ársskýrslur eða ársreikningar séu sendir til bæjaryfirvalda. Hér er lagt til að ársreikningar verði birtir á opinberum vettvangi enda má færa rök fyrir því að á stjórnmálasamtökum sem bjóða fram í opinberum kosningum og fá til þess styrk af opinberu fé hvíli meiri skylda á að opna sitt bókhald en öðrum félagasamtökum. Það er í anda gagnsæis og opinnar stjórnsýslu.

Þá er eðlilegt að öll stjórnmálasamtök sem hljóta styrk af opinberu fé geri grein fyrir kostnaði við framboð á því ári sem sveitarstjórnarkosningar fara fram. Með því er almenningi veittar mikilvægar upplýsingar um hvernig stjórnmálasamtök eru fjármögnuð á kosningaári. Opið bókhald stjórnmálasamtaka dregur úr hygli stjórnmálamanna til tengdra aðila og dregur almennt úr líkum á spillingu. Aukið gagnsæi í fjármálum sveitarfélagsins og þeirra stjórnmálasamtaka sem fulltrúa eiga í bæjarstjórn eykur traust á stjórnsýslunni og þeim ákvörðunum sem teknar eru af bæjarfulltrúum um rekstur bæjarins.

Ef horft er til hvernig málum hefur verið háttað undanfarin ár hafa engin stjórnmálasamtök birt ársreikninga sína á opinberum vettvangi. Eftir sveitarstjórnarkosningar árið 2010 gerðu þau tvö stjórnmálasamtök sem buðu fram til bæjarstjórnar grein fyrir kostnaði við framboðin það ár. Sjálfstæðismenn gáfu upp að kostnaður við framboð þeirra hefði verið kr. 1.447.902. Kostnaður við framboð A-listans í Hveragerði var árið 2010 kr. 949.158. Eftir bæjarstjórnarkosningar árið 2014 hafa tvö stjórnmálasamtök af þremur gefið upp kostnað við framboð. Samfylkingin og óháðir birtu kostnað við framboðið í desember 2014 og nam hann kr. 381.714. Frjálsir með Framsókn gáfu upp kostnað við framboðið í febrúar 2017 og var hann kr. 382.679. Sjálfstæðisfélag Hveragerðis hefur ekki gert grein fyrir kostnaði við framboð þeirra árið 2014.

Með birtingu upplýsinga á opinberum vettvangi er átt við að upplýsingar séu t.d. birtar í héraðsfréttablöðum eða á vef stjórnmálasamtaka. Þá kæmi til greina að ársreikningar og kostnaður stjórnmálasamtaka við framboð væru birtar á vef Hveragerðisbæjar.

Lagt er til að breytingin taki gildi frá og með 1. janúar 2018. Með því hafa stjórnmálasamtök rúman tíma til undirbúnings. Með þessu yrðu öll stjórnmálasamtök sem undir ákvæðið falla að birta ársreikning fyrir árið 2017 á árinu 2018 og birta upplýsingar um kostnað við framboð til sveitarstórnarkosningar sem verða á næsta ári. Lagt er til að kostnað við framboð verði að birta í síðasta lagi sex mánuðum eftir að sveitarstjórnarkosningar fara fram til að tryggja að upplýsingarnar verði opinberar á sama ári og kosningarnar fara fram.

Eftirtaldir tóku til máls: Njörður Sigurðsson, Unnur Þormóðsdóttir, Garðar Rúnar Árnason og Friðrik Sigurbjörnsson.
Fulltrúar D-listans lögðu fram eftirfarandi bókun:

Það er sjálfsagt að verða við þessari tillögu og bæta henni þar með við reglur Hveragerðisbæjar um framlög til stjórnmálasamtaka er bjóða fram til sveitarstjórnarkosninga. Sjálfstæðisfélag Hveragerðis mun að sjálfsögðu fara eftir þeim reglum sem bæjarfélagið setur og birta upplýsingar á vefsíðu sinni fyrir tilskilinn tíma. Félagið er í þó nokkrum rekstri og notar ávallt vel árin á milli kosninga til að safna fyrir kostnaði er felst í sveitarstjórnarkosningum. Blaðaútgáfa og annað gefur drjúgar tekjur sem nýtast vel þegar kemur að kosningum. Ársreikningar eru gerðir árlega og birtir félagsmönnum á aðalfundi félagsins.

Tillagan samþykkt samhljóða.
Fundargerðin upp lesin og samþykkt samhljóða.

Fundi slitið - kl. 19:47.

Getum við bætt efni síðunnar?