Fara í efni

Bæjarstjórn

533. fundur 15. apríl 2021 kl. 17:00 - 19:58 í fundarsal Breiðumörk 20
Nefndarmenn
  • Eyþór H. Ólafsson forseti bæjarstjórnar
  • Friðrik Sigurbjörnsson
  • Bryndís Eir Þorsteinsdóttir
  • Aldís Hafsteinsdóttir
  • Njörður Sigurðsson
  • Sigrún Árnadóttir
  • Snorri Þorvaldsson varamaður
  • Helga Kristjánsdóttir skrifstofustjóri
Fundargerð ritaði: Helga Kristjánsdóttir skrifstofustjóri
Dagskrá
Forseti bæjarstjórnar, Eyþór H. Ólafsson setti fund og stjórnaði. Leitaði hann eftir athugasemdum við fundarboð en engar komu fram.
Í upphafi fundar bauð forseti Snorra Þorvaldsson velkominn á sinn fyrsta fund í bæjarstjórn.

1.Fundargerð bæjarráðs frá 18. mars 2021.

2103003F

Liðir afgreiddir sérstaklega 14, 15 og 16.

Eftirtaldir tóku til máls: Eyþór H. Ólafsson og Njörður Sigurðsson.
Liður 14 "Minnisblað frá forstöðumanni stuðningsþjónustu og málefna aldraðra - Heilsuefling eldri íbúa" afgreiddur sérstaklega. Bæjarstjórn samþykkir bókun bæjarráð.

Liður 15 "Verðkönnun - Ýtuvinna á jarðvegstipp í Hvammi" afgreiddur sérstaklega. Bæjarstjórn samþykkir að taka tilboði lægstbjóðanda Hverfell ehf.

Liður 16 "Aðgangsstýring að jarðvegslosunarstað í Hvammi" afgreiddur sérstaklega. Bæjarstjórn samþykkir að aðgangsstýring verði sett upp í Hvammi í samræmi við tillögur umhverfisfulltrúa.
Fundargerðin að öðru leyti samþykkt samhljóða.

2.Fundargerð bæjarráðs frá 8. apríl 2021.

2103006F

Liðir afgreiddir sérstaklega 11, 12 og 13.

Eftirtaldir tóku til máls: Eyþór H. Ólafsson, Njörður Sigurðsson, Bryndís Eir Þorsteinsdóttir og Aldís Hafsteinsdóttir.
Liður 11 "Bréf frá Landhönnun ódagsett" afgreiddur sérstaklega. Friðrik Sigurbjörnsson vék af fundi meðan á afgreiðslu liðarins stóð. Bæjarstjórn samþykkir að fela Skipulags- og mannvirkjanefnd að fjalla um umrætt erindi að teknu tilliti til afgreiðslu bæjarráðs.
Liður 12 "Hlíðarhagi - aðveitulögn fráveitu - kostnaðaráætlun frá skipulagsfulltrúa" afgreiddur sérstaklega.
Bæjarstjórn samþykkir að farið verði í útboð á verkinu.
Liður 13 "Verðkönnun vegna endurnýjunar gangstétta við Breiðumörk og Heiðmörk" afgreiddur sérstaklega. Bæjarstjórn samþykkir að taka tilboð frá Bokki Garðar ehf. Gert er ráð fyrir kostnaði við verkið í fjárhagsáætlun.

Fundargerðin að öðru leyti samþykkt samhljóða.

3.Fundargerð Skipulags- og mannvirkjanefndar frá 6. apríl 2021.

2104004F

Liðir afgreiddir sérstaklega 2 og 4.

Eftirtaldir tóku til máls: Eyþór H. Ólafsson, Njörður Sigurðsson, Aldís Hafsteinsdóttir, Snorri Þorvaldsson, Bryndís Eir Þorsteinsdóttir og Friðrik Sigurbjörnsson.
Liður 2 "Hverfisskipulag, hverfisverndarsvæði HV4" afgreiddur sértaklega. Bæjarstjórn samþykkir að gengið verði til samninga við Landform ehf um gerð hverfisskipulags í elsta hluta Hveragerðisbæjar.

Liður 4 "Tillaga að breytingu á aðalskipulagi Ölfuss 2010-2022, breytt landnotkun í Götu í Selvogi og Stóra-Saurbæ 3" afgreiddur sérstaklega. Bæjarstjórn gerir ekki frekari athugasemdir við breytingu á aðalskipulagi Ölfus 2010 - 2022.

Fundargerðin að öðru leyti samþykkt samhljóða.


4.Fundargerð Skólaþjónustu- og velferðarnefndar Árnesþings frá 10. mars 2021.

2104027

Enginn tók til máls.
Fundagerðin samþykkt samhljóða.

5.Lánasamningur - Lánasjóður sveitarfélaga.

2104028

Lagður fram lánasamningur við Lánasjóð sveitarfélaga upp á 150. m. kr. lán.

Eftirtaldir tóku til máls: Eyþór H. Ólafsson og Aldís Hafsteinsdóttir.
Bæjarstjórn Hveragerðisbæjar samþykkir hér með á bæjarstjórnarfundi að taka lán hjá Lánasjóði sveitarfélaga að höfuðstólsfjárhæð allt að kr. 150.000.000, með lokagjalddaga þann 5. apríl 2034, í samræmi við skilmála að lánasamningi sem liggja fyrir á fundinum og sem bæjarstjórnin hefur kynnt sér.
Bæjarstjórn samþykkir að til tryggingar láninu (höfuðstól auk vaxta, dráttarvaxta og kostnaðar), standa tekjur sveitarfélagsins, sbr. heimild í 2. mgr. 68. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011, nánar tiltekið útsvarstekjum sínum og framlögum til sveitarfélagsins úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga.
Er lánið tekið til fjármögnunar á framkvæmdum sveitarfélagsins sem felur í sér að vera verkefni sem hefur almenna efnahagslega þýðingu, sbr. 3. gr. laga um stofnun opinbers hlutafélags um Lánasjóð sveitarfélaga nr. 150/2006.
Jafnframt er Aldísi Hafsteinsdóttur, kt. 211264-5009, veitt fullt og ótakmarkað umboð til þess f.h. Hveragerðisbæjar að undirrita lánssamning við Lánasjóð sveitarfélaga sbr. framangreint, sem og til þess að móttaka, undirrita og gefa út, og afhenda hvers kyns skjöl, fyrirmæli og tilkynningar, sem tengjast lántöku þessari, þ.m.t. beiðni um útborgun láns.

6.Skýrsla starfshóps - innkaupastefna - Grunnskólinn í Hveragerði.

2104036

Lögð fram skýrsla starfshóps sem skipaður var af bæjarstjórn og sem meta skyldi þörf á upplýsingatæknibúnaði í Grunnskólanum í Hveragerði með það fyrir augum að upplýsingatækni og nýjungar á því sviði verði innleiddar í skólastarfinu enn frekar en nú er. Einnig skyldi hópurinn leggja línur varðandi innkaup og stefnu varðandi upplýsingatæknibúnað skólans.
Í skýrslunni kemur fram eftirfarandi framtíðarsýn: "Skólinn verði vel búinn tækjum til kennslu og þannig verði komið til móts við alla nemendur með fjölbreyttum kennsluaðferðum og verkefnaskilum. Að nemendur hafi aukið val svo áhugi þeirra og styrkleiki nýtist sem best í náminu og þar er tæknin frábært verkfæri til að mæta þörfum nemenda. Í skólanum starfi kennarar sem hafa áhuga á að nýta tækni í kennslu og fái þann stuðning sem þarf til að gera svo.Upplýsingatækni er einn helsti drifkraftur í nýsköpun og endurmótun í skólastarfi. Fjölbreytt og framsækin notkun á upplýsingatækni getur auk þess stuðlað að aukinni umhverfisvernd og grænni hugsun."

Eftirtaldir tóku til máls: Eyþór H. Ólafsson, Friðrik Sigurbjörnsson, Aldís Hafsteinsdóttir, Sigrún Árnadóttir og Bryndís Eir Þorsteinsdóttir.
Bæjarstjórn þakkar starfshópnum fyrir vel unnin störf og greinargóða og ítarlega skýrslu. Bæjarstjórn tekur undir að það sem skiptir mestu máli sé að styrkja tæknihæfni nemenda og kennara og að þeir geti nýtt sér getuna til áframhaldandi vaxtar. Til þess að svo megi verða þarf að efla tækjakost til muna, efla og fræða kennara í starfi. Samkvæmt skýrslunni skal stefnt að því að spjaldtölvur verði nýttar í öllum árgöngum skólans og að auki verði Chromebook tölvur nýttar á öllum skólastigum.

Bæjarstjórn samþykkir þau innkaup sem lögð eru til vegna ársins 2021 en vísar öðrum ákvörðunum til gerðar fjárhagsáætlunar hvers árs. Kostnaður vegna ársins 2021 fellur undir fjárfestingu vegna viðbyggingar við skólann en tækin sem nú verða keypt munu nýtast þar.
Bæjarstjórn óskar eftir því að hópurinn hittist aftur að tveimur árum liðnum og meti árangurinn sem þá verður kominn.

7.Húsnæðisáætlun Hveragerðisbæjar 2021 - 2029.

2104038

Lögð fram endurskoðuð Húsnæðisáætlun Hveragerðisbæjar frá 2021-2029.

Eftirtaldir tóku til máls: Eyþór H. Ólafsson og Njörður Sigurðsson.
Meirihluti bæjarstjórnar fagnar því að endurskoðuð húsnæðisáætlun skuli liggja fyrir. Í henni kemur fram með skýrum hætti hversu mikil uppbygging er í Hveragerði og ekki síður hversu mikil uppbygging er framundan. Með húsnæðisáætluninni fá bæjaryfirvöld enn betri yfirsýn yfir húsnæðismál bæjarfélagsins og geta þar með betur stýrt lóðaframboði og uppbyggingu að teknu tilliti til þeirra upplýsinga sem þarna liggja fyrir. Það er áhugavert að sjá að byggingarleyfi voru gefin út fyrir 50 íbúðum á árinu 2020 en framundan er frekari úthlutun í Kambalandi og væntanlega á Friðarstöðum. Í húsnæðisáætlun er gert ráð fyrir nokkrum sviðsmyndum um fjölgun íbúa til ársins 2029 og þar gerir miðspá ráð fyrir að fjölgun geti orðið 2,5% á ári. Það myndi þýða að íbúar væru orðnir um 3.700 í lok þessa áratugar. Er hér um frekar varfærna spá að ræða sem gerir að verkum að byggja þarf um 33 íbúðir á ári á tímabilinu. Á þegar samþykktum deiliskipulögum er gert ráð fyrir að íbúðir geti orðið um 530 þannig að ljóst er að framboð íbúðarhúsnæðis ætti að duga ef að miðspá um mannfjöldaþróun gengur eftir. Rétt er að geta þess að íbúum hefur fjölgað um 2,3% á ári að meðaltali frá aldamótum þannig að ekki er óvarlegt að áætla að miðspá um íbúafjölgun gæti ræst þrátt fyrir að fjölgun á undanförnum árum hafi verið ívið meiri eða 2,9% á ári.
Húsnæðisáætlunin veitir mikilvægar upplýsingar þegar kemur að markvissri uppbyggingu bæjarfélagsins og mun nýtast vel sem slík á næstu misserum.

Kl 17:44 var gert fundarhlé.
Kl 18:04 hélt fundur áfram.

Fulltrúar Okkar Hveragerðis lögðu fram eftirfarandi breytingartillögu.
Bæjarfulltrúar Okkar Hveragerðis leggja til að fjöldi leiguíbúða á almennum markaði annars vegar og fjöldi félagslegra leiguíbúða hins vegar verði fjölgað í húsnæðisáætlun Hveragerðisbæjar 2021-2029. Lagt er til að hlutfall leiguíbúða af nýjum íbúðum verði ekki lægri en 25% og að félagslegt leiguhúsnæði í lok gildistíma húsnæðisáætlunar verði 25-30 talsins.

Greinargerð
Sambærileg tillaga var lögð fram af bæjarfulltrúum Okkar Hveragerðis við afgreiðslu húsnæðisáætlunar Hveragerðisbæjar árið 2020 en tillagan var felld af Sjálfstæðisflokknum og Framsóknarflokknum.

Í húsnæðisáætlun er gert ráð fyrir að þörf sé á 11-13 almennum leiguíbúðum til ársins 2029 og er miðað við að fjöldi leiguíbúða af nýjum íbúðum í bæjarfélaginu verði ekki lægra en 15% á tímabilinu. Þessi tala er fundin út frá því hvernig leigumarkaðurinn er í Hveragerði og á landinu almennt. Á Íslandi búa um 16-18% af íbúum 18 ára og eldri í leiguíbúðum og í áætluninni er leitt líkum að því að um 7-11% heimila í Hveragerði séu leiguhúsnæði. Á Norðurlöndunum er hlutfall íbúa í leiguhúsnæði mun hærra en þekkist hér á landi og er til að mynda áætlað að um 35% Dana búi í leiguhúsnæði. Með það að markmiði að stuðla að auknu húsnæðisöryggi í sveitarfélaginu og að í Hveragerði séu fjölbreyttir búsetukostir sem henta öllum ætti Hveragerðisbær að hafa það markmið að hlutfall almennra leiguíbúða, s.s. í gegnum leigufélög sem eru rekin án hagnaðarsjónarmiða og önnur almenn leigufélög, verði mun hærra en það sem gert er ráð fyrir í húsnæðisáætluninni.

Í drögum að húsnæðisáætlun Hveragerðisbæjar er gert ráð fyrir að til ársins 2029 sé þörf á 5-7 félagslegum leiguíbúðum. Nú liggja fyrir 17 umsóknir um félagslegt leiguhúsnæði hjá Hveragerðisbæ en sveitarfélagið á aðeins fimm félagslegar leiguíbúðir auk einnar íbúðar sem hefur verið leigð út á félagslegum grunni. Augljóst er að hér þarf að bæta úr og fjölga félagslegum leiguíbúðum verulega til að mæta þörfinni sem nú þegar er til staðar. Ljóst er sú áætlun sem hér liggur til samþykktar nær ekki einu sinni að mæta þörf fyrir félagslegar leiguíbúðir eins og staðan er í dag. Til þess að mæta þörfinni í dag þyrfti Hveragerðisbær að eiga alls 17 félagslegar leiguíbúðir í viðbót við þær sem nú þegar eru til og eru í útleigu. Auk þess þarf að gera ráð fyrir þörfinni til næstu ára í samræmi við fjölgun íbúa. Því má gera ráð fyrir að í lok árs 2029 þyrfti Hveragerðisbær að eiga 25-30 félagslegar leiguíbúðir.

Með þessum breytingum sem lagt er til myndi Hveragerðisbær setja sér stefnu um að þörf fyrir leiguíbúðir verði ekki minna en 25% af nýjum íbúðum til ársins 2029 í stað 15% eins og nú er og gert er ráð fyrir í þeirri húsnæðisáætlun sem liggur til samþykktar. Bæjaryfirvöld þurfa að beita sér fyrir því að fleiri leiguíbúðir á almennum markaði verði byggðar í Hveragerði. Þá þarf að fjölga félagslegu leiguhúsnæði verulega til að mæta þeirri þörf sem er þegar.

Njörður Sigurðsson
Sigrún Árnadóttir

Breytingartillagan lögð fram og felld með 4 atkvæðum D-lista. Fulltrúar O-lista með og fulltrúi B-listans sat hjá.

Fulltrúar D-lista lögðu fram eftirfarandi bókun.
Hveragerðisbær hefur á undanförnum tveimur árum keypt félagslegt leiguhúsnæði fyrir um 100 m.kr.. Íbúðafélagið Bjarg og Hveragerðisbær hafa samið um byggingu 10 almennra leiguíbúða í raðhúsum. Munu framkvæmdir væntanlega hefjast í maí. Almennar húsaleigubætur og sérstakar húsleigubætur koma sem stuðningur til leigjenda á almennum markaði og þar hefur íbúðafélagið Bríet þegar ákveðið að festa kaup á íbúðum í Hveragerði. Fjöldi nýrra íbúða eru einnig komnar í leigu og því er ljóst að leiguíbúðum er að fjölga í bæjarfélaginu án beinnar aðkomu sveitarfélagsins. Fulltrúar D lista telja rétt í ljósi framangreinds rétt að stíga varlega til jarðar varðandi frekari kaup á félagslegum íbúðum og fella því tillöguna.

Eyþór H. Ólafsson
Bryndís Eir þorsteinsdóttir
Friðrik Sigurbjörnsson
Aldís Hafsteinsdóttir.

Bæjarfulltrúar Okkar Hveragerðis lögðu fram eftirfarandi bókun.
Bæjarfulltrúar Okkar Hveragerðis lýsa yfir miklum vonbrigðum með að meirihluti Sjálfstæðisflokksins hafi ekki viljað fallast á tillögur um að Hveragerðisbær setji sér stefnu um aukið félagslegt leiguhúsnæði í bænum ásamt því að fjölga leiguíbúðum á almennum markaði. Undirrituð vilja jafnframt minna á að það er sameiginleg ábyrgð allra sveitarfélaga að sjá til þess að nægt framboð sé á félagslegu leiguhúsnæði í öllum sveitarfélögum. Sveitarfélög sem ekki bjóða upp á nógu margar félagslegar leiguíbúðir eru þannig að velta ábyrgðinni yfir á önnur. Hveragerðisbær á því að axla sína ábyrgð og standa sig í þessum málum.

Undirrituð telja að annað í húsnæðisáætlun bæjarins standi á góðum grunni og greiða atkvæði með henni þó tillaga um að stefna að auknu og fjölbreyttari búsetumöguleikum í bæjarfélaginu hafi verið felld.

Njörður Sigurðsson
Sigrún Árnadóttir

Húsnæðisáætlunin samþykkt samhljóða.8.Tillaga frá D-lista Sjálfstæðisflokks - endurskoðun atvinnustefnu.

2104037

Fulltrúar meirihluta D-listans lögðu fram eftirfarandi tillögu.
Meirihluti D-listans leggur til að atvinnumálastefna Hveragerðisbæjar verði endurskoðuð með það að markmiði að farið verði yfir framvindu þeirra verkefna sem þar eru tilgreind og nýjar áherslur lagðar í takt við þróun samfélagsins og breytingar á ytra umhverfi bæjarfélagsins. Lagt er til að bæjarráði verði falin endurskoðunin en að jafnframt verði leitað til atvinnuráðgjafa SASS um aðstoð við verkið.
Greinargerð:
Mikill vöxtur hefur einkennt Hveragerðisbæ að undanförnu. Mikil íbúafjölgun er staðreynd en nú eru íbúar 2.817 en voru 2.384 árið 2015 þegar atvinnumálastefnan var samþykkt.
Fyrirtækjum hefur fjölgað og er þar ferðaþjónusta mjög áberandi en bæði veitingahúsum og gistirýmum hefur fjölgað mjög á síðastliðnum árum. Ekkert lát er á og á vormánuðum mun opna nýtt hótel með um 50 gistiherbergi, mathöll á fyrstu hæð þar sem verða 6-8 nýir veitingastaðir ásamt verslunum. Nýbygging við hjúkrunarheimilið er að nálgast útboðsstig og Heilsustofnun NLFÍ hyggur á milljarða uppbyggingu svo fátt eitt sé talið. Allt kallar þetta á afleidd störf sem hefur fjölgað í takt við aukin umsvif í bæjarfélaginu. Með því að endurskoða atvinnumálastefnu bæjarfélagsins og fara yfir það sem vel hefur gengið og einnig hitt hvar hægt er að gera betur má ná enn betri árangri í þessum málum til hagsbóta fyrir íbúa og samfélagið allt.

Eftirtaldir tóku til máls: Eyþór H. Ólafsson, Njörður Sigurðsson, Snorri Þorvaldsson, Aldís Hafsteinsdóttir og Friðrik Sigurbjörnsson.
Bæjarstjórn samþykkir að bæjarráði verði falin endurskoðunin en að jafnframt verði leitað til atvinnuráðgjafa SASS um aðstoð við verkið.

9.Fyrirspurn frá Okkar Hveragerði um úthlutun leyfa til götu- og torgsölu.

2104040

Fulltrúar Okkar Hveragerðis lögðu fram eftirfarandi fyrirspurn um úthlutun leyfa til götu- og torgsölu.
Undirrituð óska eftir upplýsingum um hvernig staðið hefur verið að úthlutun leyfa til götu- og torgsölu frá því að bæjaryfirvöld settu samþykkt þar um í október 2020. Óskað er upplýsinga um hversu mörgum leyfum hefur verið úthlutað og hversu langan tíma hefur tekið að afgreiða þau frá því að umsóknir bárust og þar til þær voru samþykktar. Jafnframt er óskað upplýsinga um hvort að Hveragerðisbær hafi í hyggju að taka gjald af söluvögnum sem staðsettir eru á einkalóðum og ef svo er, á hvaða grundvelli sú innheimta er byggð. Þá er óskað upplýsinga um hvaða kostnað Hveragerðisbær hefur lagt í til að gera aðstöðu fyrir matarvagna þar sem heimilt er að hafa þá samkvæmt samþykkt bæjarins.

Greinargerð
Tilefni þessarar fyrirspurnar eru upplýsingar um vanhöld í stjórnsýslu Hveragerðisbæjar í úthlutun leyfis um götu- og torgsölu til rekstraraðila matarvagns sem fram koma í tölvupósti til allra bæjarfulltrúa 12. apríl 2021. Í tölvupósti frá rekstraraðilanum koma fram upplýsingar um þrautagöngu þess aðila við stjórnsýslu bæjarins í níu mánuði. Þar koma m.a. fram upplýsingar að tafir í afgreiðslu Hveragerðisbæjar hafi valdið miklu óhagræði í rekstri viðkomandi aðila. Eðlilegt er að bæjaryfirvöld geri grein fyrir stöðu við úthlutun leyfa fyrir götu- og torgsölu sem virðist vera í hnút vegna þess hvernig meirihluti Sjálfstæðisflokksins hefur haldið á málum.

Eftirtaldir tóku til máls: Eyþór H. Ólafsson, Njörður Sigurðsson, Snorri Þorvaldsson, Aldís Hafsteinsdóttir, Friðrik Sigurbjörnsson, Sigrún Árnadóttir og Bryndís Eir Þorsteinsdóttir.
Forseti bæjarstjórnar upplýsti um eftirfarandi. Þrjú pláss til götu- og torgsölu í bæjarfélaginu voru auglýst þann 20. janúar s.l. Einu leyfi hefur verið úthlutað vegna götu- og torgsölu í Hveragerði, við Hveraportið. Önnur umsókn hefur borist um sama stað en þeim aðilum var vísað á stað við íþróttahúsið. Enn er beðið eftir svari um það hvort þeir aðilar þiggi það pláss. Formlegt stöðuleyfi við Hveraportið var gefið út þann 8. apríl s.l. eftir viðræður um staðsetningu þar sem fram komu óskir um staðsetningu og tengingar sem ekki voru í samræmi við reglur. Starfsmenn bæjarins leituðu leiða til að koma mætti til móts við þessar óskir og fengu meðal annars heimild nærliggjandi húseiganda til að staðsetja mætti vagninn þannig að hann lægi betur við lögnum sem heimilað hafði verið að vagninn tengdist þrátt fyrir að slíkt væri ekki heimilt samkvæmt reglum. Með því að koma til móts við þessa kröfu voru starfsmenn að reyna að mæta skýlausri kröfu umsækjanda.
Mál þetta hefur allt hlotið eðlilega meðferð starfsmanna og stjórnsýslunnar. Eftir að erindi barst bæjarráði þann 3. september voru útbúnar reglur sem voru til umfjöllunar í bæjarráði og fóru síðan í tvær umræður í bæjarstjórn. Staðsetning torgsöluhúss var grenndarkynnt í samræmi við lög þar um. Að lokinni grenndarkynningu voru plássin auglýst og þeim úthlutað. Allt þarf þetta síðan að falla að fundum þeirra nefnda og ráða sem um málin þurfa að fjalla. Því miður hefur of langur tími eftir að umsókn barst farið í viðræður milli aðila og nú virðist vera ljóst að erfitt er að ná niðurstöðu þrátt fyrir að allt hafi verið gert sem hægt er til að viðkomandi aðili geti haldið áfram rekstri.
Gjald sem innheimt er fyrir torgsöluhús kr. 300.000,- pr. ár er síst of hátt miðað við þá vinnu sem innt hefur verið af hendi af starfsmönnum bæjarins og sem nauðsynleg mun væntanlega reynast til framtíðar. Rétt er einnig að það komi fram að allar hátíðir í bæjarfélaginu eru innifaldar í þessu gjaldi en fyrir þær er greitt sérstaklega til dæmis í Reykjavík.
Það er einnig rétt að það komi fram að viðkomandi aðili hefur ekki orðið fyrir neinu verulegu fjárhagslegu tjóni vegna þessarar málsmeðferðar þar sem ljóst er að hann hefur verið í rekstri frá hausti og fram að páskum á einkalóð og án þeirra leyfa sem nauðsynleg eru. Viðkomandi aðili hefði getað staðsett vagninn við Hveraportið í byrjun febrúar ef hún hefði samþykkt gildandi reglur.

Í grein sem oddviti Okkar Hveragerðis hefur birt gagnrýnir hann að brotið hafi verið gegn gildandi samþykktum við þessa málsmeðferð. Geta fulltrúar meirihlutans tekið undir það sjónarmið og óska því hér með eftir því við starfsmenn bæjarins að farið verið framvegis í einu og öllu eftir þeim reglum sem um málið hafa verið settar sem og gildandi byggingareglugerð.

10.Fyrirspurn Frjálsra með Framsókn vegna Atvinnumálastefnu Hveragerðis 2015 - 2022.

2104045

Fulltrúi Frjálsra með Framsókn lagði fram eftirfarandi fyrirspurn um atvinnustefnu Hveragerðis 2015-2022.

Í Atvinnumálastefnu Hveragerðis sem gefin var út fyrir árin 2015 til 2022 má sjá mál sem sögð voru á aðgerðalista fyrir það tímabil. Nú er eingöngu eitt ár eftir af tímaramma áætlunarinnar og er því spurt hvar þessi mál eru stödd í dag og þá sérstaklega liður c í skýrslunni sem varðar framleiðslu og styrkleika til framleiðslu.

Flokkast gufuveitan enn sem einn af styrkleikum framleiðslu Hveragerðisbæjar í dag? Á hvaða vegferð er vinnan með Orkuveitu Reykjavíkur varðandi gufuna og hver er framtíðarsýnin?

Hver er framtíðarsýn iðnaðar, verslunar og garðyrkju í Hveragerði með tilliti til þéttingu byggðar og til lands og orku (gufuveitu)?

Hvar gerir Hveragerðisbær ráð fyrir að t.d. ný gróðurhús verði staðsett? Er staðsetning nýrrra gróðurhúsa bæjarins unnin í samstarfi við OR?


Greinargerð:
Í Atvinnumálastefnu Hveragerðis er gufuveitan nefnd sem einn af styrkleikum framsleiðslu bæjarins:

„C. Framleiðsla
Helstu styrkleikar eru:
....
- Gufuveitan.
Hvers kyns starfsemi, sem fellur að atvinnulífi bæjarins, mengunarmarkmiðum og sjálfbærni gefur bæjarbúum sóknarfæri, eins og fyrir rúmri öld, þegar ullarþvottur og mjólkurvinnsla lagði grunn að þéttbýlismyndun í Hveragerði. Mikilvægt er að horft sé til fjölbreyttra atvinnutækifæra sem krefjast mismunandi menntunar. Gufuveitan gefur fjölbreytta möguleika á uppbyggingu orkufrekra fyrirtækja.“

Í ört vaxandi bæjarfélagi þarf að leiða hugann að atvinnusköpun og áframhaldandi uppbyggingu innviða til að td. starfsemi eins og garðyrkja fái vaxað og dafnað. Frjáls með Framsókn telja mikilvægt að hugsað sé til framtíðar þegar kemur að þeim orkukosti sem til þarf við þessa iðju sem garðyrkjan er. Óskað er eftir skriflegu svari vegna þessarar fyrirspurnar.

Virðingarfyllst,
Snorri Þorvaldsson varabæjarfulltrúi,
Frjálsra með Framsókn


Eftirtaldir tóku til máls: Snorri Þorvaldsson, Eyþór H. Ólafsson, Aldís Hafsteinsdóttir og Njörður Sigurðsson.
Bæjarstjóri lagði fram eftirfarandi svör við fyrirspurn Frjálsra með framsókn:

Gufuveitan flokkast sem einn af helstu styrkleikum atvinnulífs í Hveragerði og ekki síður sem ein helsta sérstaða atvinnulífs í bæjarfélaginu. Gróðurhús, plastendurvinnsla, stórt þvottahús, sundlaugar, ísgerð, bjórgerð, veitingastaðir og fleira er allt knúið orku frá gufuveitunni sem er einstök á landsvísu.

Gufuveitan hefur verið viðhaldsfrek og á stundum ekki nógu afkastamikil. Ljóst er að notendur þyrftu að vera fleiri til að það gríðarlega afl sem í henni býr myndi nýtast til fullnustu. Bæjaryfirvöld eiga reglulega fundi með stjórnendum Veitna ohf þar sem málefni gufuveitunnar eru ávallt til umræðu. Veitur ohf hafa lagt í mikinn kostnað við að viðhalda henni og má þar meðal annars nefna nýja lögn frá Reykjafjalli og niður að bæjarstæðinu sem ætlað er að fæða gufuveituna.

Starfsmenn Veitna ohf eru meðvitaðir um öll framtíðar áform Hveragerðisbæjar varðandi uppbyggingu bæjarfélagsins og á fundum hefur verið fjallað um hagstæðustu staðsetningar gróðurhúsa og atvinnutækifæra að teknu tilliti til gufuveitunnar.

Uppbygging gróðurhúsa er áformuð við Gróðurmörk og var sú staðsetning ákveðin á meðan að Hveragerðisbær rak Hitaveitu Hveragerðisbæjar og því komu Veitur ohf ekki að þeim áætlunum. Í dag er aftur á móti í vinnslu deiliskipulag er heimilar byggingu umtalsverðs húsnæðis fyrir verslun og þjónustu á Friðarstöðum og þar með mögulega ferðamanna gróðurhús og hentar sú staðsetning einkar vel með tilliti til lagna gufuveitunnar. Það er því miður ljóst að við sölu Hitaveitu Hveragerðisbæjar var ekki hugsað fyrir því að tryggja framtíð gufuveitunnar í samningum. Er það miður og ljóst að þáverandi bæjarfulltrúar Samfylkingar og Framsóknar höfðu ekki hagsmuni Hvergerðinga að leiðarljósi við þá samningagerð. Úr því verður ekki bætt nú en núverandi meirihluti hefur ávallt unnið ötullega að því að rekstur gufuveitunnar sé tryggður. Áfram verður unnið að því markmiði.

11.Minnisblað frá skrifstofustjóra - yfirdráttaheimild í Arion banka.

2104046

Lagt fram minnisblað frá skrifstofustjóra frá 13. apríl 2021 þar sem óskað er eftir að bæjarstjórn samþykki yfirdráttaheimild í Arion banka að upphæð 130 mkr.

Enginn tók til máls.
Bæjarstjórn samþykkir yfirdráttinn.

12.Ársreikningur Hveragerðisbæjar 2020, fyrri umræða.

2104007

Lagður fram til fyrri umræðu ársreikningur Hveragerðisbæjar fyrir árið 2020.

Aldís Hafsteinsdóttir bæjarstjóri kynnti ársreikning 2020.
Rekstrarniðurstaða sveitarfélagsins samkvæmt samanteknum rekstrarreikningi A og B hluta var neikvæð um 87,8 m.kr. en í fjárhagsáætlun var gert ráð fyrir neikvæðri niðurstöðu að fjárhæð kr. 63,8 m.kr.
Heildartekjur A og B hluta eru 3.209 m.kr. og heildarútgjöld án fjármagnsliða og afskrifa 2.957 m.kr. Rekstrarniðurstaða sveitarsjóðs (A-hluta) er neikvæð um 77,8 m.kr. en áætlun gerði ráð fyrir neikvæðri niðurstöðu upp á 48,5 m.kr.
Helstu ástæður þessa munar er að vísitala var hærri en áætlun gerði ráð fyrir og að vegna mistaka í fjárhagsáætlunargerð voru fjármagnsgjöld vegna leiguskuldar í Sunnumörk/Breiðumörk ekki inn í áætlun ársins 2020.
Veltufé frá rekstri A og B hluta nam um 203 m.kr. eða 6,3 % af heildartekjum. Handbært fé frá rekstri var 60,7 m.kr. en áætlun gerði ráð fyrir 202,8 m.kr. Skýring þessa liggur í aukningu á ógreiddum gatnagerðargjöldum sem greiðendur hafa fengið greiðslufrest á. Fjárfestingar á árinu 2020 námu 304 m.kr. Afborganir langtímalána og afborganir leiguskuldar vegna Sunnumarkar/Breiðumerkur nema 225,6 m kr. Tekin ný langtímalán voru 389m.kr.. Í árslok er hlutfall skulda af tekjum að frádregnum lífeyrisskuldbindingum sem falla til eftir 15 ár eða síðar 102,87%.
Rétt er að geta þess að ársreikningurinn er óendurskoðaður við fyrri umræðu en endurskoðendur óska eftir að sá háttur sé hafður á. Þrátt fyrir að endurskoðun sé að mestu lokið geta komið upp skekkjur sem kunna að krefjast leiðréttingar á ársreikningnum. Frekari umfjöllun um ársreikninginn mun fara fram við síðari umræðu sem fram fer í maí og þá munu endurskoðendur einnig skila skoðunarbréfi sínu og ítarlegar verður fjallað um einstaka liði ársreikningsins.

Eftirtaldir tóku til máls: Aldís Hafsteinsdóttir.
Bæjarstjórn samþykkir að vísa ársreikningnum til síðari umræðu í bæjarstjórn.
Fundargerðin upp lesin og samþykkt samhljóða.

Fundi slitið - kl. 19:58.

Getum við bætt efni síðunnar?