Fara í efni

Bæjarstjórn

527. fundur 26. nóvember 2020 kl. 17:00 - 18:23 í fjarfundi
Nefndarmenn
  • Eyþór H. Ólafsson forseti bæjarstjórnar
  • Friðrik Sigurbjörnsson
  • Bryndís Eir Þorsteinsdóttir
  • Aldís Hafsteinsdóttir
  • Njörður Sigurðsson
  • Þórunn Pétursdóttir
  • Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir
  • Helga Kristjánsdóttir
Fundargerð ritaði: Helga Kristjánsdóttir skrifstofustjóri
Dagskrá
Forseti bæjarstjórnar, Eyþór H. Ólafsson setti fund og stjórnaði. Leitaði hann eftir athugasemdum við fundarboð en engar komu fram.

Forseti bæjarstjórnar lagði fram eftirfarandi dagskrárbreytingartillögu.
Við dagskrána bætist liður 11 "Opnun tilboða (verðkönnunar) í verkið "Tæknirými Hamarshöll" Tölusetningar annarra liða dagskrárinnar breytast til samræmis við þetta.
Eyþór H. Ólafsson.
Breytingartillagan samþykkt samhljóða.

1.Fundargerð bæjarráðs frá 19. nóvember 2020.

2011002F

Liðir afgreiddir sérstaklega 5, 9 og 10.

Eftirtaldir tóku til máls: Eyþór H. Ólafsson, Njörður Sigurðsson og Aldís Hafsteinsdóttir.
Liður 5 "Bréf frá Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu frá 6. nóvember 2020" afgreiddur sérstaklega.
Bæjarstjórn samþykkir bókun bæjarráðs.

Liður 9 "Bréf frá Sjóðnum góða frá nóvember 2020" afgreiddur sérstaklega.
Bæjarstjórn samþykkir bókun bæjarráðs.

Liður 10 "Minnisblað frá bæjarstjóra vegna vetrarbrautar í Hveragerði" afgreiddur sérstaklega.
Bæjarstjórn samþykkir bókun bæjarráðs.

Fundargerðin að öðru leyti samþykkt samhljóða.

2.Bréf frá nefndasviði Alþingis frá 17. nóvember 2020.

2011063

Í bréfinu óskar Umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis eftir umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um náttúruvernd, nr. 60/2013 (málsmeðferð o.fl.), 276. mál.

Enginn tók til máls.
Lagt fram til kynningar.

3.Bréf frá nefndasviði Alþingis frá 18. nóvember 2020.

2011059

Í bréfinu óskar Velferðarnefnd Alþingis eftir umsögn um tillögu til þingsályktunar um orlofshúsnæði örorkulífeyrisþega, 187. mál.

Enginn tók til máls.
Lagt fram til kynningar.

4.Bréf frá nefndasviði Alþingis frá 18. nóvember 2020.

2011060

Í bréfinu óskar Velferðarnefnd Alþingis eftir umsögn um tillögu til þingsályktunar um búsetuöryggi í dvalar- og hjúkrunarrýmum, 240. mál.

Enginn tók til máls.
Lagt fram til kynningar.

5.Bréf frá nefndasviði Alþingis frá 18. nóvember 2020.

2011061

Í bréfinu óskar Atvinnuveganefnd Alþingis eftir umsögn um frumvarp til laga um fiskeldi(vannýttur lífmassi í fiskeldi), 265. mál.

Eftirtaldir tóku til máls: Eyþór H. Ólafsson og Aldís Hafsteinsdóttir.
Lagt fram til kynningar.

6.Bréf frá nefndasviði Alþingis frá 18. nóvember 2020.

2011062

Í bréfinu óskar Umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis eftir umsögn um frumvarp til laga um breytingu á skipulagslögum, nr. 123/2010(uppbygging innviða og íbúðarhúsnæðis), 275. mál.

Enginn tók til máls.
Lagt fram til kynningar.

7.Bréf frá nefndasviði Alþingis frá 19. nóvember 2020.

2011064

Í bréfinu óskar Allsherjar- og menntamálanefnd Alþingis eftir umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um skráningu einstaklinga, nr. 140/2019 (sveitarfélag fyrsta lögheimilis), 82. mál.

Eftirtaldir tóku til máls: Eyþór H. Ólafsson, Njörður Sigurðsson, Aldís Hafsteinsdóttir og Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir.
Bæjarstjórn tekur undir frumvarpið og hvetur Alþingi til að veita því brautargengi. Það hlýtur að vera jákvætt að fyrsta lögheimili barns sé skrásett en ekki eingöngu fæðingarstaður sem í dag eru örfáir á landinu öllu.

8.Bréf frá nefndasviði Alþingis frá 19. nóvember 2020.

2011065

Í bréfinu óskar Alþingis- og menntamálanefnd Alþingis eftir umsögn um tillögu til þingsályktunar um menntastefnu 2020-2030, 278. mál.

Eftirtaldir tóku til máls: Eyþór H. Ólafsson, Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir, Aldís Hafsteinsdóttir og Njörður Sigurðsson.
Lagt fram til kynningar. Bæjarstjórn samþykkir að senda Fræðslunefnd tillöguna til kynningar.

9.Skipulagsmál NLFÍ norðurhluti.

2011066

Lagt fram erindi frá NLFÍ þar sem félagið óskar eftir því að hefja samtal um breytingu á aðalskipulagi á norðurhluta lóðar þeirra og aðliggjandi svæðum (Fagrahvammstún og tjaldsvæði). Er erindið sent í framhaldi af hönnunarsamkeppni um fyrirhugaða uppbyggingu á lóðum HNLFÍ og þeirri yfirlýsingu sem bæjarstjórn gaf á fundi sínum þann 4. október 2018 þar sem samþykkt var að bæjarstjórn væri tilbúin til viðræðna um afnot HNLFÍ af lóðinni allri eða hluta hennar að því tilskyldu að fram komi raunhæf áform sem falla að framtíðarhugmyndum bæjaryfirvalda um nýtingu lóðarinnar og sem tengjast og/eða styrkt geta aðra uppbyggingu HNLFÍ í Hveragerði

Eftirtaldir tóku til máls: Eyþór H. Ólafsson, Aldís Hafsteinsdóttir, Njörður Sigurðsson, Bryndís Eir Þorsteinsdóttir, Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir og Þórunn Pétursdóttir.
Bæjarstjórn samþykki samhljóða eftirfarandi bókun:
Þar sem um grundvallar breytingu á aðalskipulagi Hveragerðisbæjar er að ræða, þar sem frístundasvæði/opnu grænu svæði er breytt í íbúðabyggð, er nauðsynlegt að hefja nú þegar vinnu við að kanna vilja bæjarbúa til að þessi breyting verði gerð og að kanna hvaða valkostir aðrir eru í stöðunni varðandi þá þjónustu sem þegar er við Reykjamörk. Krefst sú vinna góðs undirbúnings og samtals við bæjarbúa. Bæjarstjórn samþykkir að fela Skipulags- og mannvirkjanefnd að hefja þá vinnu en ljóst er að undirbúningur getur tekið tíma enda er mikilvægt að vandað verði til vinnunnar. Bæjarstjórn lýsir í þessu samhengi yfir mikilli ánægju með fyrirhuguð áform um uppbyggingu íbúðabyggðar á suðurhluta lóðar HNLFÍ og hvetur til þess að sú uppbygging hefjist hið fyrsta.

10.Reglur um sérstakra íþrótta- og frístundastyrki vegna Covid 19.

2011074

Lagðar fram reglur Hveragerðisbæjar um úthlutun sérstakra íþrótta-
og tómstundastyrkja fyrir börn á tekjulágum heimilum skólaárið 2020 - 2021.

Eftirtaldir tóku til máls: Eyþór H. Ólafsson, Friðrik Sigurbjörnsson, Aldís Hafsteinsdóttir, Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir, Njörður Sigurðsson og Bryndís Eir Þorsteinsdóttir.
Bæjarstjórn samþykkir reglurnar.

11.Opnun tilboða (verðkönnunar)í verkið "Tæknirými Hamarshöll".

2011077

Opnuð voru tilboð (verðkönnun) í verkið "Tæknirými Hamarshöll" miðvikudaginn 25. nóvember sl. alls bárust þrjú tilboð í verkið.

Njörður Sigurðsson vék af fundi meðan á afgreiðslu stóð.

Trésmiðja Sæmundar 5.351.102.-
Arnar Ingi Ingólfsson 6.849.500.-
Hlynur Kárason 7.000.000.-

Eftirtaldir tóku til máls: Eyþór H. Ólafsson og Aldís Hafsteinsdóttir.
Bæjarstjórn samþykkir að taka tilboði lægstbjóðanda Trésmiðju Sæmundar.

12.Gjaldskrá sorphirðu og sorpurðunar 2021, fyrri umræða.

2011067

Lögð fram til fyrri umræðu gjaldskrá fyrir sorphirðu og sorpurðun í Hveragerðisbæ.

Enginn tók til máls.
Samþykkt að vísa gjaldskránni til síðari umræðu.

13.Gjaldskrá hundahalds 2021, fyrri umræða.

2011068

Lögð fram til fyrri umræðu gjaldskrá fyrir hundahald í Hveragerðisbæ.

Eftirtaldir tóku til máls: Eyþór H. Ólafsson, Friðrik Sigurbjörnsson og Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir.
Samþykkt að vísa gjaldskránni til síðari umræðu.

14.Gjaldskrá kattahalds 2021, fyrri umræða.

2011069

Lögð fram til fyrri umræðu gjaldskrá fyrir kattahald í Hveragerðisbæ.

Enginn tók til máls.
Samþykkt að vísa gjaldskránni til síðari umræðu.

15.Gjaldskrá vatnsgjalds 2021, fyrri umræða.

2011070

Lögð fram til fyrri umræðu gjaldskrá fyrir vatnsveitu í Hveragerðisbæ.

Enginn tók til máls.
Samþykkt að vísa gjaldskránni til síðari umræðu.

16.Gjaldskrá fráveitu 2021, fyrri umræða.

2011071

Lögð fram til fyrri umræðu gjaldskrá fyrir fráveitu í Hveragerðisbæ.

Enginn tók til máls.
Samþykkt að vísa gjaldskránni til síðari umræðu.

17.Útvarsprósenta í Hveragerði árið 2021.

2011075

Lagt fram minnisblað frá bæjarstjóra frá 24. nóvember 2020 vegna ákvörðunar útsvarsprósentu Hveragerðisbæjar fyrir árið 2021.

Enginn tók til máls.
Bæjarstjórn samþykkir að útsvarsprósenta Hveragerðisbæjar fyrir árið 2021 verði óbreytt eða 14,52%.

18.Fjárhagsáætlun Hvergerðisbæjar 2021, fyrri umræða.

2011072

Lögð fram til fyrri umræðu fjárhagsáætlun Hveragerðisbæjar fyrir árið 2021.

Bæjarstjóri kynnti áætlunina og lagði fram eftirfarandi greinargerð:

Almennt
Óvissa hvað varðar rekstrarlegt umhverfi landsins og reyndar heimsbyggðarinnar allrar hefur aldrei verið meiri en nú.
Kórónuveirufaraldurinn hefur lamað stóran hluta atvinnulífs um víða veröld sem og á Íslandi og hafa sveitarfélög hér á landi ekki farið varhluta af því.

Forsendur sem gefnar voru við fjárhagsáætlunargerð ársins 2020 hafa flestar brostið og fjárhagsleg óvissa næstu missera er mikil.
Miklar vonir eru bundnar við að bóluefni gjörbreyti stöðunni og er fyllsta ástæða til að telja að svo geti orðið. Þar til það verður að veruleika er samt rétt að gera ráð fyrir því að kórónuveirufaraldurinn muni hafa viðvarandi og mikil áhrif hér á landi og þar með einnig í okkar sveitarfélagi.
Hér í Hveragerði er þó staðan sú að atvinnuleysi er undir landsmeðaltali og útsvarstekjur bæjarfélagsins hafa skilað sér nokkuð vel miðað við fjárhagsáætlun. Aftur á móti hafa boðaðar skerðingar á framlögum Jöfnunarsjóðs, sem nemur tugum milljóna mikil áhrif á reksturinn og við því þarf að bregðast.

Við gerð fjárhagsáætlunar Hveragerðisbæjar fyrir árið 2021 er tekið tillit til afleiðinga faraldursins og fyllstu hagræðingar gætt án þess þó að komi til þjónustuskerðingar eða uppsagna starfsfólks.

Við áætlunargerðina er tekið mið af yfirlýsingu Sambands íslenskra sveitarfélaga í tengslum við lífskjarasamningana þar sem óskað var eftir því að gjaldskrárhækkunum yrði stillt í hóf og þær færu ekki umfram verðlagsþróun.

Ljóst er að mikil eftirspurn er eftir búsetu í Hveragerðisbæ en þrátt fyrir það er það meðvituð stefna bæjarstjórnar að uppbygging nýrra hverfa sé með þeim hætti að lóðum er úthlutað í hæfilegu magni með það að markmiði að ávallt haldist í hendur framúrskarandi þjónusta og fjölgun íbúa. Jafnframt hefur stefna bæjarstjórnar miðað að því að uppbygging íbúðarhúsnæðis sé bæði fjölbreytt og falleg og haldist í hendur við yfirlýsta stefnu um að staðarandi Hveragerðisbæjar haldist áfram jafn góður og verið hefur.

Forsendur
Við gerð fjárhagsáætlunar fyrir árið 2021 er tekið mið af útkomuspá ársins 2020. Íbúafjölgun í Hveragerði er stöðug og eru íbúar nú 2.763. Hefur íbúum fjölgað um 64 eða um 2,3% á árinu. Uppbygging Kambalands er mun hraðari en bjartsýnustu menn þorðu að vona og augljóst að kaup Hveragerðisbæjar á því landi voru skynsamleg ráðstöfun. Víða er einnig verið að byggja í eldri bæjarhlutum en möguleikar til þéttingar byggðar í Hveragerði eru víða miklir.
Með þeim lóðum sem þegar hefur verið úthlutað, lóðum sem fyrirhugað er að úthluta 2021, Hlíðarhaga, og þeirri uppbyggingu sem í gangi er á Edenreitnum eru íbúðir í byggingu eða á teikniborðinu í bæjarfélaginu 250 alls. Er þar um að ræða 25% fjölgun íbúða sem mögulega gætu hýst um 600 nýja íbúa. Ljóst er því að hugsa þarf til framtíðar og búa bæjarfélagið undir þá íbúafjölgun sem í vændum er.

Fasteignaverð hefur hækkað skarpt í Hveragerði að undanförnu sem óhjákvæmilega hefur leitt til þess að fasteignamat í bæjarfélaginu hefur hækkað ár frá ári. Bæjarstjórn hefur árlega stillt álagningarprósentu þannig af að hækkunum fasteignagjalda er stillt í hóf þannig að hækkun hefur ekki verið umfram verðlagsþróun að meðaltali. Nú er gert enn betur en áður og séð til þess að fasteignagjöld hækki að meðaltali ekki umfram 2,5% meðan að verðlagsþróun undangenginna 12 mánuði er 3,5% . Er því um raunlækkun fasteignagjalda í bæjarfélaginu að ræða. Með þessu móti er séð til þess að íbúar Hveragerðisbæjar þurfa ekki að greiða gjöld í samræmi við sífellda verðmætaaukningu eigna þeirra.
Helstu forsendur fjárhagsáætlunar Hveragerðisbæjar fyrir árið 2021 eru:
* Gert er ráð fyrir óbreyttri útsvarsprósentu eða 14,52%.
* Álagningarprósenta fasteignaskatts á húsnæði í A-flokki lækkar úr 0,43% í 0,415%.
* Álagningarprósentur á vatnsgjaldi, holræsagjaldi og lóðarleigu á húsnæði í A-flokki breytast ekki milli ára.
* Aukavatnsgjald hækkar úr 13 kr. pr. m3 og verður 13,5 kr. pr. m3.
* Sorphirðugjöld lækka um 9 % og verða 14.000.- Gjöld vegna sorpurðunar breytast ekki milli ára,-.
* Gert er ráð fyrir að framlag Jöfnunarsjóðs lækki frá áætlaðri niðurstöðu ársins 2020 og byggir áætlun ársins 2021 á rauntölum ársins 2020 og spám Jöfnunarsjóðs.
* Bæjarstjórn hefur undanfarin ár miðað hækkun gjaldskráa við verðlagsþróun síðastliðins árs en ekki við verðbólguspá komandi árs. Með þessu móti telur bæjarstjórn sig vinna með rauntölur sem hlýtur að vera eðlilegra en að hækka gjaldskrár á undan verðbólgunni en slíkt eykur verðbólguþrýsting. Verðlagsþróun síðastliðna 12 mánuði er 3,5% og því hækka flest þjónustugjöld um það.

Í öllum tilfellum er hagur bæjarbúa hafður að leiðarljósi og hækkunum stillt í hóf eins og mögulegt er.
Fjárhagsáætlanir einstakra deilda eru unnar í góðri samvinnu við forstöðumenn stofnana og ber að þakka þann góða vilja og jákvæðni sem starfsmenn hafa sýnt við gerð fjárhagsáætlunarinnar. Ætlast er til að forstöðumenn sýni eins og ávallt ýtrustu hagkvæmni bæði í innkaupum og í starfsmannahaldi.

Viðhald og fjárfestingar
Stærsta einstaka fjárfesting ársins 2021 er framhald byggingar sex nýrra kennslustofa við Grunnskólann í Hveragerði. Framkvæmdum mun ljúka fyrir byrjun skólastarfs haustið 2021. Um er að ræða viðbyggingu til norðurs með tilheyrandi lóðafrágangi í og við Lystigarðinn Fossflöt.

Á árinu 2021 er gert ráð fyrir að uppbygging haldi áfram í Kambalandi og væntanlega verður hægt að úthluta lóðum fyrir um 20 einbýlishús á árinu auk þess sem Bjarg íbúðafélag hyggur á byggingu 10 leiguíbúða og einkaaðilar munu hefjast handa við byggingu fjölbýlishúsa í hverfinu.
Gert er ráð fyrir framhaldi á endurbótum á sundlaugarhúsinu í Laugaskarði og fjármunir settir til viðhalds búningsklefa. Framkvæmdir þar hófust á haustmánuðum 2020 og halda áfram inn í árið 2021 þannig að þá verði lokið endurbótum á búningsklefunum auk endurnýjunar á göngubrú við inngang.
Á árinu 2021 standa vonir til að framkvæmdir hefjist við nýtt hjúkrunarheimili við Hverahlíð og mun Hveragerðisbær taka þátt í þeirri framkvæmd með 15% framlagi. Með þeirri framkvæmd mun enginn framar þurfa að deila herbergi með öðrum og jafnframt bætast við 4 ný rými.
Gert er ráð fyrir að lokið verði við byggingu húss yfir vélbúnað Hamarshallarinnar en ekki tókst að klára þá framkvæmd árið 2020. Þá er einnig gert ráð fyrir lagfæringum á eldri götum, gangstígum og gangstéttum, merkingum og öðru slíku.
Þó nokkrir fjármunir eru settir til viðhalds mannvirkja í eigu bæjarfélagsins.
Aðrar fjárfestingar Hveragerðisbæjar á árinu 2021 eru smærri.

Rekstrartölur
Við framlagningu fjárhagsáætlunar til fyrri umræðu er gert ráð fyrir að áætlaðar heildartekjur Hveragerðisbæjar (aðalsjóðs, A- og B- hluta) nemi alls kr. 3.313 m.kr. fyrir árið 2021. Þar af eru skatttekjur ráðgerðar kr. 2.009 milljónir. Framlög Jöfnunarsjóðs eru áætluð 527 m.kr. og aðrar tekjur bæjarsamstæðu um 777 m.kr.
Rekstrargjöld og reiknaðar afskriftir samstæðu nema um 3.126 m.kr.. Niðurstaða samstæðu án fjármagnsliða er því jákvæð um 187 milljónir sem er 5,6% af tekjum.
EBITDA Hveragerðisbæjar er 301 m.kr.. Fjármagnsliðir eru áætlaðir 185 m.kr. og er rekstrarniðurstaða samstæðu því jákvæð um 1,5 m.kr..
Í ljósi aðstæðna í samfélaginu hefur ríkisstjórnin samþykkt að ákvæði í lögum varðandi skuldahlutfall og jafnvægisreglu sé felld út allt til ársins 2025. En þrátt fyrir það gætir bæjarstjórn að því að skuldir bæjarfélagsins fari ekki yfir 150% af tekjum og verður það staðreynd á tímabilinu.

Skuldir og skuldbindingar
Afborganir langtímalána verða tæplega 235 m.kr. og tekin ný lán munu nema 400 m.kr. á árinu 2021. Í lok árs 2021 verða skuldir og skuldbindingar samstæðu 4.545 m.kr.. Þar af er lífeyrisskuldbinding sveitarsjóðs 657 m.kr. og skuldbindingar vegna leigugreiðslna 250 m.kr.
Skuldir og skuldbindingar Hveragerðisbæjar í lok ársins 2021 munu verða 137% af árstekjum. Skv. fjármálareglum sveitarfélaga er heimilt að draga frá skuldum skuldbindingu vegna lífeyris sem fellur til eftir 15 ár og síðar. Sé það gert myndi skuldahlutfallið batna enn frekar og verða 110%. Er skuldastaða sveitarfélagsins því vel undir skuldaþakinu sem lögfest hefur verið í sveitarstjórnarlögum.

Þakkir
Eins og undanfarin ár var fjárhagsáætlun ársins 2021 unnin sameiginlega af öllum bæjarfulltrúum og var samstarfið afar ánægjulegt. Fyrir það ber að þakka. Ennfremur er skrifstofustjóra og öðrum starfsmönnum þakkað framúrskarandi gott samstarf við gerð fjárhagsáætlunar fyrir árið 2021.

Eftirtaldir tóku til máls: Eyþór H. Ólafsson og Aldís Hafsteinsdóttir.
Bæjarstjórn samþykkir að vísa fjárhagsáætluninni til síðari umræðu.

19.Þriggja ára fjárhagsáætlun Hveragerðisbæjar 2022-2024, fyrri umræða.

2011073

Lögð fram til fyrri umræðu þriggja ára fjárhagsáætlun Hveragerðisbæjar fyrir árin 2022-2024.

Bæjarstjóri gerði grein fyrir forsendum þriggja ára fjárhagsáætlunar fyrir árin 2022-2024 og lagði fram eftirfarandi greinargerð:

Markmið
Unnið var í samræmi við eftirfarandi markmið við gerð þriggja ára áætlunar Hveragerðisbæjar fyrir árin 2022-2024:

* Fjárfestingar haldast miklar næstu árin og er það nauðsynlegt vegna væntrar íbúafjölgunar.
* Skuldahlutfall haldist innan þeirra marka sem gefin eru þrátt fyrir framkvæmdir á tímabilinu.
* Samanlögð rekstrarniðurstaða samstæðu A/B hluta verði jákvæð á tímabilinu.

Forsendur
Í áætluninni er gert ráð fyrir hóflegri hækkun skatttekna næstu árin:

- Hækkun vísitölu verði 2,5% ár ári á tímabilinu.
- Íbúafjölgun verði 3,5% á ári og íbúar verði ~3.100 í lok árs 2024
- Tekjur af útsvari hækki um 6,5% öll árin (3% launavísitala, 3,5% íbúafjöldi).
- Tekjur af fasteignagjöldum hækki um 5,5% öll árin (2,5% vísitala, 3% fjöldi álagðra fermetra).
- Framlög úr Jöfnunarsjóði hækki um 6,5% öll árin (3% launavísitala, 3,5% íbúafjöldi).
- Aðrar tekjur hækki um 2,5% á ári.
- Laun hækki um 3% á ári.
- Annar kostnaður hækki um 2,5% á ári.

Lántökur á tímabilinu taka mið af þeim fjárfestingum sem fyrirsjáanlegar eru miðað við núverandi forsendur. Haustið 2021 mun ljúka byggingu viðbyggingar við grunnskólann sem hýsa mun 6 kennslustofur. Með tilkomu þeirra verða kennsluaðstæður með allt öðrum og betri hætti en áður hefur verið. Fjölgun íbúa kallar á enn frekari uppbyggingu í þágu barna og gert er ráð fyrir að það þurfi að bæta aðstöðu leikskólabarna og fjölga leikskólaplássum.
Gert er ráð fyrir framlagi Hveragerðisbæjar til uppbyggingar nýrrar byggingar við núverandi hjúkrunarheimili en ríkisstjórnin hefur þegar samþykkt að ráðast í þá framkvæmd með það að markmiði að útrýma tvíbýlum á hjúkrunarheimilinu. Einnig er gert ráð fyrir umtalsverðri gatnagerð á tímabilinu. Vegna fjölgunar íbúa mun reynast nauðsynlegt að fara í viðbætur við fráveitumannvirkið og er gert ráð fyrir þeim á tímabilinu auk þess sem á tímabilinu mun gámasvæðið verða flutt á framtíðarstað við Vorsabæ.

Fjárfestingar:
Helstu fjárfestingar á þessu tímabili munu verða eftirfarandi í þús. kr.:

Á árinu 2022
Götur og göngustígar 225.000
Gatnagerðartekjur -220.000
Bílaplan og stígar við Árhólma 35.000
Tekjur vegna fjárfestinga -35.000
Sundlaug, bílaplan og umhverfi 60.000
Grunnskóli/leikskóli 43.000
Framlag til hjúkrunarheimilis 70.000
Bílar og tæki 20.000
Flutningur á gámasvæði 15.000
Fráveitumannvirki 30.000
Vatnsveituframkvæmd 10.000
Aðrar fjárfestingar 30.000
Alls fjárfesting 273.000

Á árinu 2023
Götur og göngustígar 210.000
Gatnagerðartekjur -200.000
Bílaplan og stígar við Árhólma 35.000
Tekjur vegna fjárfestinga -35.000
Bílaplan við Hamarshöll 35.000
Sundlaug, bílaplan og umhverfi 20.000
Grunnskóli/leikskóli 215.000
Framlag til hjúkrunarheimilis 10.000
Flutningur á gámasvæði 70.000
Fráveitumannvirki 30.000
Vatnsveituframkvæmd 15.000
Aðrar fjárfestingar 30.000
Alls fjárfesting 445.000

Á árinu 2024
Götur og göngustígar 215.000
Gatnagerðartekjur -200.000
Bílaplan og stígar við Árhólma 35.000
Tekjur vegna fjárfestinga -35.000
Bílaplan við Hamarshöll 20.000
Sundlaug, bílaplan og umhverfi 5.000
Grunnskóli/leikskóli 215.000
Bílar og tæki 5.000
Flutningur á gámasvæði 30.000
Fráveitumannvirki 30.000
Vatnsveituframkvæmd 10.000
Aðrar fjárfestingar 30.000
Alls fjárfesting 360.000

Rétt er að ítreka að fjárfestingaáætlun er endurskoðuð við fjárhagsáætlunargerð hvers árs í ljósi þess efnahagslega umhverfis sem ríkir á hverjum tíma.

Skuldir og skuldbindingar
Markmið bæjarstjórnar um að skuldir samstæðu verði undir skuldaþakinu mun standast á tímabilinu og ekki útlit fyrir að það muni breytast þrátt fyrir nýjar fjárfestingar í samræmi við þriggja ára áætlun. Skuldir samstæðu munu þróast með eftirfarandi hætti að teknu tilliti til þess að skv. fjármálareglum sveitarfélaga er heimilt að draga frá skuldum skuldbindingu vegna lífeyris sem fellur til eftir 15 ár og síðar. Í sviga má sjá skuldahlutfallið án þess að heimild skv. fjármálareglum sé nýtt:

2021 110,2 % af tekjum (137,2%)
2022 107 % af tekjum (132,8%)
2023 105,2 % af tekjum (130,3%)
2024 98,5 % af tekjum (122,2%)

Á árunum 2022-2024 munu afborganir lána nema 829 m.kr. en á sama tímabili verða tekin ný langtímalán að upphæð 740 m.kr. eins og áður er getið.

Lokaorð:
Þrátt fyrir óvissu um framtíðina vegna kórónuveirufaraldursins þá er full ástæða til að vera bjartsýn fyrir hönd Hveragerðisbæjar enda sýnir íbúafjölgun og fjöldi íbúða í byggingu að bæjarfélagið á sér bjarta framtíð.

Allir bæjarfulltrúar hafa unnið fjárhagsáætlun bæjarins sameiginlega á undanförnum árum og er það vilji þeirra að búið sé þannig um hnúta að í bæjarfélaginu sé veitt framúrskarandi þjónusta og að hlúð sé að því sem skiptir máli í nærumhverfinu.

Ýmsar framkvæmdir eru framundan sem allar eru þess eðlis að bæta umhverfi og lífsgæði bæjarbúa. Það er því jákvætt að bæði ungir sem þeir sem eldri eru sjái framtíð sína og fjölskyldu sinnar vel borgið hér í Hveragerði. Með fjölgun íbúa og auknum tekjum mun skapast svigrúm til að íbúar fái notið bætts rekstrar og meiri þjónustu þar sem þess er nokkur kostur.

Eins og undanfarin ár var þriggja ára áætlun áranna 2022-2024 unnin sameiginlega af öllum bæjarfulltrúum og var samstarfið afar ánægjulegt. Fyrir það ber að þakka. Ennfremur er skrifstofustjóra og öðrum starfsmönnum þakkað framúrskarandi gott samstarf við gerð áætlunarinnar.


Eftirtaldir tóku til máls: Eyþór H. Ólafsson og Aldís Hafsteinsdóttir.
Samþykkt að vísa þriggja ára fjárhagsáætlun til síðari umræðu.
Fundargerðin upp lesin og samþykkt samhljóða.

Fundi slitið - kl. 18:23.

Getum við bætt efni síðunnar?