Fara í efni

Bæjarstjórn

526. fundur 12. nóvember 2020 kl. 17:00 - 18:22 í fjarfundi
Nefndarmenn
  • Eyþór H. Ólafsson forseti bæjarstjórnar
  • Friðrik Sigurbjörnsson
  • Bryndís Eir Þorsteinsdóttir
  • Aldís Hafsteinsdóttir
  • Njörður Sigurðsson
  • Þórunn Pétursdóttir
  • Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir
  • Helga Kristjánsdóttir
Fundargerð ritaði: Helga Kristjánsdóttir skrifstofustjóri
Dagskrá
Forseti bæjarstjórnar, Eyþór H. Ólafsson setti fund og stjórnaði. Leitaði hann eftir athugasemdum við fundarboð en engar komu fram.

1.Fundargerð bæjarráðs frá 15. október 2020.

2010003F

Liðir afgreiddir sérstaklega 2.

Eftirtaldir tóku til máls: Eyþór H. Ólafsson, Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir, Njörður Sigurðsson, Friðrik Sigurbjörnsson, Aldís Hafsteinsdóttir og Þórunn Pétursdóttir.
Liður 2 "Ráðningarbréf um endurskoðun - Deloitte ehf" afgreiddur sérstaklega. Bæjarstjórn samþykkir afgreiðslu bæjarráðs.

Fulltrúi Frjálsra með Framsókn lagði fram eftirfarandi bókun vegna liðar 3 " Samþykkt um gjaldskrá um götu- og torgsölu".

Bæjarfulltrúi Frjálsra með Framsókn fagnar því að vel hafi verið tekið í þá tillögu B - lista að vinna samþykktirnar betur og vísa þeim til afgreiðslu bæjarráðs. Samþykktirnar tóku nokkrum breytingum en bæjarfulltrúi Frjálsra með Framsókn harmar að meirihluti Sjálfstæðismanna og bæjarfulltrúi Okkar Hveragerðis samþykki reglur sem feli í sér ársjald á leigu fyrir langtímastæði sem er helmingi hærra en í nágrannasveitarfélaginu Reykjavík. Hveragerði skipar sér því í sæti þeirra sem innheimta hvað mest á landsvísu fyrir starfsemi sem þessa sem má teljast sérstakt þar sem stafssemin eykur þjónustu við íbúa og ferðamenn. Bæjarfulltrúi Frjálsra með Framsókn vill leggja áherslu á mikilvægi atvinnuuppbyggingar ekki síst í dag á þessum óvissutímum.
Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir bæjarfulltrúi Frjálsra með Framsókn.

Fundargerðin að öðru leyti samþykkt samhljóða.

2.Fundargerð bæjarráðs frá 5. nóvember 2020.

2010004F

Liðir afgreiddir sérstaklega 9, 12, 16, 17, 18, 20, 23 og 24.

Eftirtaldir tóku til máls: Eyþór H. Ólafsson, Njörður Sigurðsson og Aldís Hafsteinsdóttir.
Liður 9 "Bréf frá Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu frá 15. október 2020" afgreiddur sérstaklega. Bæjarstjórn samþykkir afgreiðslu bæjarráðs.

Liður 12 "Bréf frá Soroptimistaklúbbur Suðurlands frá 14. október 2020" afgreiddur sértaklega. Bæjarstjórn samþykkir afgreiðslu bæjarráðs.

Liður 16 "Bréf frá formanni Hveragerðissóknar frá 2. nóvember 2020" afgreiddur sérstaklega. Bæjarstjórn samþykkir afgreiðslu bæjarráðs.

Liður 17 "Minnisblað frá Greiðslumiðlun ehf um kostnað vegna Hvata og tengdra kerfa" afgreiddur sérstaklega. Bæjarstjórn samþykkir afgreiðslu bæjarráðs.

Liður 18 "Minnisblað frá Verkís - Endurbætur í anddyri, göngubrú og tæknirými" afgreiddur sérstaklega. Bæjarstjórn samþykkir afgreiðslu bæjarráðs.

Liður 20 "Samningur milli Hveragerðisbæjar og Markaðsstofu Suðurlands" afgreiddur sérstaklega. Bæjarstjórn samþykkir afgreiðslu bæjarráðs.

Liður 23 "Lóðaumsókn - Þórsmörk 2" afgreiddur sérstaklega. Bæjarstjórn samþykkir lóðaúthlutunina.

Liður 24 "Samkomulag - Tálkni, Kambalandslóðir" afgreiddur sérstaklega. Bæjarstjórn samþykkir samkomulagið fyrir sitt leyti.

Fundargerðin að öðru leyti samþykkt samhljóða.

3.Fundargerð aðalfundar Fasteignafélags Hveragerðis frá 14. september 2020.

2011034

Eftirtaldir tóku til máls: Eyþór H. Ólafsson og Aldís Hafsteinsdóttir.
Fundargerðin samþykkt samhljóða.

4.Fundargerð Skipulags- og mannvirkjanefndar frá 3. nóvember 2020.

2011030

Liðir afgreiddir sérstaklega 1, 2, 3, 4 og 5.

Eftirtaldir tóku til máls: Eyþór H. Ólafsson, Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir, Njörður Sigurðsson, Aldís Hafsteinsdóttir, Friðrik Sigurbjörnsson og Bryndís Eir Þorsteinsdóttir.
Liður 1 "Nýtt deiliskipulag fyrir íbúðabyggð NLFÍ, deiliskipulagslýsing" afgreiddur sérstaklega. Bæjarstjórn samþykkir að óska eftir umsögn Skipulagsstofnunar og umsagnaraðila um lýsinguna og kynna hana fyrir almenningi sbr. 2. mgr. 40. gr. skipulagslaga. Bæjarstjórn leggur áherslu á að hugað verði að hleðslustöðvum fyrir rafbíla við deiliskipulagsgerð.

Liður 2 "Ás- og Grundarsvæði, lóð fyrir spennistöð" afgreiddur sérstaklega. Bæjarstjórn samþykkir að breytingartillagan verði samþykkt sem óveruleg breyting á deiliskipulagi og að vikið verði frá kröfum 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 um breytingu á deiliskipulagi og grenndarkynningu, sbr. 3. mgr. 43. gr. laganna.

Liður 3 "Hlíðarhagi-deiliskipulag" afgreiddur sérstaklega.
Þórunn Pétursdóttir vék af fundi meðan á afgreiðslu liðarins stóð.
Bæjarstjórn hefur borist lagfærð tillaga að breytingu á deiliskipulagi fyrir Hlíðarhaga, sem uppfyllir athugasemdir Skipulags- og mannvirkjanefndar varðandi bílastæði. Bæjarstjórn samþykkir því að auglýsa tillöguna skv. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Liður 4 "Iðjumörk 3, umsókn um byggingarleyfi fyrir sólskála" afgreiddur sérstaklega.
Aldís Hafsteinsdóttir vék af fundi meðan á afgreiðslu liðarins stóð.
Bæjarstjórn samþykkir að vísa framkvæmdinni í grenndarkynningu sbr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Liður 5 "Ölfusvegur um Varmá" afgreiddur sérstaklega. Bæjarstjórn samþykkir að gefa út framkvæmdaleyfi fyrir framkvæmdinni sbr.15. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, á grundvelli meðfylgjandi útboðs- og verklýsingar. Jafnframt leggur bæjarstjórn ríka áherslu á að færsla Suðurlandsvegar milli Kamba og Varmár eigi sér stað samhliða lagningu Ölfusvegar yfir Varmá. Er færsla Suðurlandsvegar neðan við byggðina í Hveragerði nauðsynleg með tilliti til öryggissjónarmiða og ekki síður vegna tenginga Hveragerðisbæjar við hinn nýja Suðurlandsveg. Skipulagsáætlanir sem unnar voru í náinni samvinnu við Vegagerðina, og að hennar beiðni, byggja á því að Suðurlandsvegurinn verði færður og því er brýnt að af þeirri framkvæmd verði sem fyrst.

Fundagerðin að öðru leyti samþykkt samhljóða.

5.Bréf frá Mennta- og menningarmálaráðuneytinu frá 5. nóvember 2020.

2011038

Í bréfinu er afrit af úrskurði mennta- og menningarmálaráðuneytis í stjórnsýslumáli nr. MMR20089157.

Enginn tók til máls.

Bæjarstjóra falið að svara erindinu í samráði við lögmann.

6.Bréf frá Lögmönnum Sundagörðum frá 6. nóvember 2020.

2011037

Í bréfinu sem ritað er fyrir hönd Ragnheiðar Guðmundsdóttur og fjölskyldu er fjallað um vanefndir á samkomulagi frá 9. janúar 2019.

Enginn tók til máls.
Bæjarstjóra falið að svara erindinu í samráði við lögmann.

7.Bréf frá Sýslumanninum á Suðurlandi frá 5. nóvember 2020.

2011031

Sýslumaðurinn á Suðurlandi óskar eftir umsögn Hveragerðisbæjar vegna umsóknar Frost og funa ehf til sölu gistingar í flokki III hótel í Hverhamri fnr. 221-1014, 221-7727 og 221-7729.

Enginn tók til máls.
Bæjarstjórn gerir ekki athugasemdir við umsóknina.

8.Bréf frá Markaðsstofu Suðurlands frá 5. nóvember 2020.

2011035

Í bréfinu óskar Markaðsstofa Suðurlands eftir framlengingu á samstarfssamningi við Hveragerðisbæ.

Eftirtaldir tóku til máls: Eyþór H. Ólafsson, Friðrik Sigurbjörnsson, Þórunn Pétursdóttir, Bryndís Eir Þorsteinsdóttir, Njörður Sigurðsson og Aldís Hafsteinsdóttir
Bæjartjórn samþykkir þátttöku i Markaðsstofu Suðurlands fyrir næsta ár með framlagi er nemur kr. 430,- pr. íbúa. Bæjarstjórn óskar eftir fundi með framkvæmdastjóra Markaðsstofu Suðurlands í upphafi árs 2021 þar sem gerð verði grein fyrir verkefnum stofnunarinnar sem tengjast Hveragerði.

9.Bréf frá Suðursölum ehf frá 9. nóvember 2020.

2011036

Lagt fram bréf frá Suðursölum ehf þar sem óskað er eftir lóðarleigusamningum fyrir Edenmörk 1-3-5 og 7.

Enginn tók til máls.
Bæjarstjórn samþykkir að lóðaleigusamningur á umræddu svæði verði gefnir út enda er lóðarhafi langt kominn með uppbyggingu á reitnum. Rétt er að geta þess að lóðarhafi sér um alla gatnagerð á svæðinu þrátt fyrir að greiða gatnagerðargjöld að fullu. Sú gatnagerð er vel á veg kominn og allar lóðir orðnar byggingahæfar. Gert er ráð fyrir framhaldi framkvæmda á allra næstu vikum.

10.Bréf frá Friðriki Erni Emilssyni frá 31. október 2020.

2011033

Lagt fram bréf frá Friðriki Erni Emilssyni frá 31. október 2020 þar sem hann óskar eftir ótímabundnu leyfi sem varamaður í bæjarstjórn og segir sig jafnframt frá setu í Fræðslunefnd Hveragerðisbæjar.

Eftirtaldir tóku til máls: Eyþór H. Ólafsson og Njörður Sigurðsson.
Bæjarstjórn samþykkir að Gunnar Biering Agnarsson verði aðalmaður í fræðslunefnd og Unnur Birna Björnsdóttir verði varamaður.

11.Opnun tilboða í verkið - Ræstingar fyrir Hveragerðisbæ.

2011032

Opnuð voru tilboð í verkið "Ræstingar fyrir Hveragerðisbæ" fimmtudaginn 5. nóvember s.l. alls bárust átta tilboð í verkið.

Villa var í tilboðshefti útboðsgagna. Villa var í excel skrá sem hefur verið leiðrétt í tilboðum bjóðenda og tilboð uppreiknuð.

Dagar ehf 20.266.140
Höfðabón ehf 70.764.336
AÞ þrif ehf 34.879.400
Hreint ehf 25.564.132
Sólar ehf 31.499.737
Ræstitækni ehf 24.841.600
Betri þrif ehf 56.172.164
Allt hreint ehf 37.904.070

Eftirtaldir tóku til máls: Eyþór H. Ólafsson, Aldís Hafsteinsdóttir og Þórunn Pétursdóttir.
Bæjarstjórn samþykkir að taka tilboði lægtstbjóðanda Dagar ehf.

12.Einföld ábyrgð vegna lántöku Brunavarna Árnessýslu hjá Lánasjóði sveitarfélaga.

2011005

Lögð fram einföld ábyrgð vegna lántöku Brunavarna Árnessýslu hjá Lánasjóði sveitarfélaga.

Eftirtaldir tóku til máls: Eyþór H. Ólafsson.
Bókun vegna lántöku Brunavarna Árnessýslu hjá Lánasjóði sveitarfélaga.
Hveragerðisbær samþykkir hér með að veita einfalda ábyrgð vegna lántöku Brunavarna Árnessýslu hjá Lánasjóði sveitarfélaga að fjárhæð 100.000.000 kr., í samræmi við skilmála láns til ársins 2034 eins og þeir verða á þeim tíma er lánið er tekið. Er ábyrgð þessi veitt sbr. heimild í 2. mgr. 69. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011, og er hún óskipt (in solidum) gagnvart kröfuhafa, en innbyrðis skiptist hún í hlutfalli við eignarhluti í Brunavörnum Árnessýslu. Lánið er tekið í tvennu lagi, 30 millj.kr. á árinu 2020 og 70 millj.kr. á árinu 2021.

Hveragerðisbær veitir lánasjóðnum veð í tekjum sínum til tryggingar þeirri ábyrgð, sbr. heimild í 2. mgr. 68. gr. sömu laga. Ábyrgðin tekur til allra greiðslna sem og hvers kyns kostnaðar sem hlýst af vanskilum. Er lánið tekið til að fjármagna kaup á nýjum stigabíl til slökkvistarfa sbr. 3. gr. laga um stofnun opinbers hlutafélags um Lánasjóð sveitarfélaga nr. 150/2006.

Hveragerðisbær skuldbindur hér með sveitarfélagið sem eiganda Brunavarna Árnessýslu til að breyta ekki ákvæði samþykkta Brunavarna Árnessýslu sem leggur hömlur á eignarhald að félaginu að því leyti að félagið megi ekki fara að neinu leyti til einkaaðila.

Fari svo að Hveragerðisbær selji eignarhlut í Brunavörnum Árnessýslu. til annarra opinberra aðila, skuldbindur Hveragerðisbær sig til að sjá til þess að jafnframt yfirtaki nýr eigandi á sig ábyrgð á láninu að sínum hluta.

Jafnframt er Aldísi Hafsteinsdóttur kt. 211264-5009 veitt fullt og ótakmarkað umboð til þess að staðfesta f.h. Hveragerðisbæjar veitingu ofangreindrar ábyrgðar með áritun á lánssamninginn.

13.Tilboð í endurhönnun á götu- og stígalýsingu, gerð ljósvistarskipulags og útboðsgagna.

2011023

Lagt fram tilboð frá Lotu ehf í verkið endurhönnun á götu- og stígalýsingu í Hveragerði, gerð ljósvistarskipulags og útboðsgagna.

Eftirtaldir tóku til máls: Eyþór H. Ólafsson, Njörður Sigurðsson, Aldís Hafsteinsdóttir, Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir og Friðrik Sigurbjörnsson.
Meirihluti bæjarstjórnar samþykkir tilboðið. Fulltrúar Okkar Hveragerði sátu hjá með eftirfarandi bókun.

Undirrituð sitja hjá þar sem við teljum að eðlilegra sé að leita tilboða eða verðhugmynda hjá fleiri en einum aðila. Öðruvísi er ekki hægt að taka upplýsta ákvörðun um hagstæðasta tilboðið.

Njörður Sigurðsson
Þórunn Pétursdóttir
Fundargerðin upp lesin og samþykkt samhljóða.

Fundi slitið - kl. 18:22.

Getum við bætt efni síðunnar?