Fara í efni

Bæjarstjórn

512. fundur 14. nóvember 2019 kl. 17:00 - 18:58 í fundarsal Breiðumörk 20
Nefndarmenn
  • Eyþór H. Ólafsson forseti bæjarstjórnar
  • Friðrik Sigurbjörnsson
  • Bryndís Eir Þorsteinsdóttir
  • Aldís Hafsteinsdóttir
  • Njörður Sigurðsson
  • Þórunn Pétursdóttir
  • Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir varamaður
  • Helga Kristjánsdóttir
Fundargerð ritaði: Helga Kristjánsdóttir skrifstofustjóri
Dagskrá
Forseti bæjarstjórnar, Eyþór H. Ólafsson setti fund og stjórnaði.

Leitaði hann eftir athugasemdum við fundarboð en engar komu fram.

1.Fundargerð bæjarráðs frá 17.október 2019.

1910002F

Enginn tók til máls.
Fundargerðin samþykkt samhljóða.

2.Fundargerð bæjarráðs frá 7.nóvember 2019.

1910003F

Liðir afgreiddir sérstaklega: 9,14,15,16,19,21 og 22.

Eftirtaldir tóku til máls: Eyþór H. Ólafsson og Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir.

Liður 9 "Bréf frá Skákfélagi Selfoss og nágrennis frá 21. október 2019" afgreiddur sérstaklega.
Bæjarstjórn samþykkir bókun bæjarráðs.

Liður 14 "Bréf frá Hafhúl, Hagsmunafélagi húseigenda við Lækjarbrún, frá 5. nóvember 2019" afgreiddur sérstaklega.
Bæjarstjórn samþykkir bókun bæjarráðs.

Liður 16 " Bréf frá Austurmörk ehf frá 6. nóvember 2019" afgreiddur sérstaklega.
Bæjarstjórn samþykkir breytinguna.

Liður 16 "Samningur við Vegagerðina - skil á Öxnalækjarvegi og skil á vegi að hreinsistöð í Hveragerði" afgreiddur sérstaklega.
Bæjarstjórn samþykkir samninginn.

Liður 19 "Minnisblað frá bæjarstjóra - Tillaga um lækkun gatnagerðargjalds" afgreiddur sérstaklega.
Bæjarstjórn samþykkir breytinguna.

Liður 21 " Lóðarumsókn - Búðahraun 1" afgreiddur sérstaklega.
Bæjarstjórn samþykkir lóðarúthlutunina.

Liður 22 " Lóðarumsókn - Dalahraun 9-11-13 og 15" afgreiddur sérstaklega.
Bæjarstjórn samþykkir lóðarúthlutunina.

Fundargerðin að öðru leyti samþykkt samhljóða.

3.Fundargerð Skipulags- og mannvirkjanefndar frá 5.nóvember 2019.

1911032

Liðir afgreiddir sérstaklega 1,2,3,4 og 5.

Eftirtaldir tóku til máls: Eyþór H. Ólafsson og Aldís Hafsteinsdóttir.
Liður 1 "Friðarstaðareitur, deiliskipulag" afgreiddur sérstaklega.
Bæjarstjórn samþykkir að haldinn verði sérstakur kynningarfundur fyrir skipulagsnefnd og bæjarstjórn þar sem ráðgjafar, Ask arkitektar og Landslag, gera grein fyrir framkomnum tillögum og jafnframt verði stefnt að almennum kynningarfundi um málið í desember nk. Bæjarstjóra falið að boða á fundina.

Liður 2 "Hreinsistöð, breyting á deiliskipulagi" afgreiddur sérstaklega.
Bæjarstjórn samþykkir að deiliskipulagssvæðið verði stækkað til norðurs að helgunarsvæði Suðurlandsvegar og að skoðað verði hvort rétt sé að nýta svæðið norðaustan við lóð skólphreinsistöðvarinnar sem framtíðar hundasvæði.

Liður 3 "Ás-/Grundarsvæði, deiliskipulag" afgreiddur sérstaklega.
Bæjarstjórn samþykkir að lýsingin verði send Skipulagsstofnun og umsagnaraðilum til umsagnar og kynnt fyrir almenningi sbr. 2. mgr. 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Liður 4 "Hraunbæjarland, ósk um óverulega breytingu á deiliskipulagi" afgreiddur sérstaklega.
Bæjarstjórn samþykkir að tillagan verði grenndarkynnt skv. 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Liður 5 "Breiðamörk 25, ósk um breytingu á deiliskipulagi miðbæjarsvæðis" afgreiddur sérstaklega.
Bæjarstjórn samþykkir að gerð verði breytingartillaga við gildandi deiliskipulag miðbæjarsvæðis í samræmi við óskir lóðarhafa og að hún verði grenndarkynnt sem óveruleg breyting, þegar fullnægjandi grenndarkynningargögn liggja fyrir að mati skipulagsfulltrúa.

Fundargerðin að öðru leyti samþykkt samhljóða.

4.Fundargerð Skólaþjónustu - og velferðarnefndar frá 9.október 2019.

1911033

Enginn tók til máls.
Fundargerðin samþykkt samhljóða.

5.Fundargerð Fræðslunefndar frá 22.október 2019.

1911031

Eftirtaldir tóku til máls: Eyþór H. Ólafsson.
Bæjarstjórn samþykkir að sumarleyfi leikskólanna verði frá 2. júlí til 4. ágúst 2020 að báðum dögum meðtöldum í samræmi við niðurstöður skoðanakönnunar sem gerð var meðal forelda og starfsmanna.

Varðandi bókun nefndarinnar undir lið 4, skýrsla skólastjóra, þar sem lýst er áhyggjum yfir því að útboð hafi ekki farið fram á nýrri viðbyggingu við skólann vill bæjarstjórn koma því á framfæri að vinna við hönnun viðbyggingar er í góðum farvegi. Bygginganefnd hefur farið yfir forsendur hönnunar og unnið er nú að lokahönnun og í framhaldinu verða útboðsgögn útbúin og verkið auglýst. Stefnt er að auglýsingu útboðsins í byrjun næsta árs og að framkvæmdir við viðbygginguna hefjist snemma vors. Með viðbyggingunni bætast við sex nýjar kennslustofur ásamt minni kennslurýmum og stóru miðrými. Við framkvæmdina verður Skólamörk lokað til frambúðar enda mun viðbyggingin teygja sig inn í Lystigarðinn Fossflöt sem þar með tengist skólalóðinni með skemmtilegum hætti en Þráinn Hauksson, landslagsarkitekt, vinnur nú að hönnun á umhverfi nýju byggingarinnar.
Fundargerðin samþykkt samhljóða.

6.Fundargerð Umhverfisnefndar frá 22.október 2019.

1911034

Enginn tók til máls.
Fundargerðin samþykkt samhljóða.

7.Skipan í nefndir og ráð.

1911048

Jakob Fannar Hansen hefur flutt lögheimili sitt úr Hveragerði og er því ekki lengur kjörgengur í Menningar-, íþrótta- og frístundanefnd þar sem hann hefur átt sæti.

Enginn tók til máls.
Bæjarstjórn samþykkir að Sigurður Páll Ásgeirsson verði aðalmaður í Menningar-, íþrótta- og frístundanefnd og Andri Svavarsson verði varamaður.

8.Fyrirspurn frá Okkar Hveragerði um varðveislumat á gróðurhúsum í Hveragerði.

1911046

Fulltrúar Okkar Hveragerði lögðu fram eftirfarandi fyrirspurn.
Árið 2015 var samþykkt nýtt deiliskipulag á Grímsstaðareit sem gerði ráð fyrir að fjöldi gróðurhúsa við Þelamörk myndu víkja fyrir íbúðarhúsum með tímanum. Bæjarfulltrúar Njörður Sigurðsson og Viktoría Sif Kristinsdóttir gerðu athugasemdir við þessa stefnu bæði í bæjarstjórn og bæjarráði árin 2015-2017. Lögðu þau fram tillögu á fundi bæjarstjórnar 10. september 2015 um að gert yrði varðveislumat á gróðurhúsum í Hveragerði sem meirihluti Sjálfstæðisflokksins felldi. Tillagan var svo endurflutt 12. janúar 2017 og var þá afgreiðslu tillögunnar frestað. Skömmu fyrir kosningar vorið 2018, eða á fundi bæjarstjórnar 12. apríl það ár, var svo loks samþykkt tillaga um gerð varðveislumats á gróðurhúsum. Á fundi bæjarráðs 19. júlí 2018 samþykkti meirihluti Sjálfstæðisflokksins í Hveragerði að ganga til samninga við Landform ehf. um úttekt á gróðurhúsum í Hveragerði til að meta varðveislugildi þeirra. Niðurstöður þessarar úttektar hafa ekki enn verið lagðar fyrir bæjarstjórn og lítið frést af framgangi hennar. Spurt er um hver sé staðan á þessari úttekt, hvenær hún verði lögð fyrir bæjarfulltrúa og hvenær vænta megi að tillögur um varðveislu einstakra gróðurhúsa í bænum verði lagðar fyrir bæjarstjórn.
Njörður Sigurðsson
Þórunn Pétursdóttir

Eftirtaldir tóku til máls: Njörður Sigursson, Eyþór H. Ólafsson og Aldís Hafsteinsdóttir.
Meirihluti bæjarstjórnar gerir athugasemdir við þá staðhæfingu að bæjarfulltrúarnir Njörður Sigurðsson og Viktoría Kristinsdóttir hafi gert athugasemdir við þá stefnu að gróðurhús við Þelamörk myndu víkja fyrir íbúðabyggð. Hið rétta er að umræddir bæjarfulltrúar gerðu engar athugasemdir við breytingu sem gerð var á aðalskipulagi í þessa veru. Málið var á dagskrá fjölda funda í Skipulags- og mannvikjanefnd og í bæjarstjórn haustið 2014 og samþykktu bæði Njörður og Viktoría allar breytingar án athugasemda. Kom þó mjög skýrt fram að á þessum reit væru gróðurhúsin að víkja fyrir íbúðabyggð og var öllum bæjarfulltrúum fullkunnugt um þá breytingu.

Varðandi stöðu úttektar Landforms ehf á varðveislugildi gróðurhúsa í Hveragerði þá er staðan sú að úttektin er svotil fullgerð og er í yfirlestri. Úttektin innifelur ítarlega húsakönnun á gróðurhúsum bæjarins og í henni eru teikningar og ljósmyndir af gróðurhúsunum, stutt ágrip af sögu garðyrkjustöðvanna og lagt er mat á menningarsögulegt og umhverfisgildi húsanna.

Meirihluti bæjarstjórnar gerir tillögu um að óskað verði eftir umsögn Minjastofnunar um úttektina í samræmi við áherslur Péturs H. Ármannssonar í bréfi dags. 5. apríl 2018 og sú umsögn verði hluti af umræddri úttekt þegar hún verður kynnt bæjarstjórn

Kl. 17:24 var gert fundarhlé.
Kl. 17:35 hélt fundur áfram.

Fulltrúar Okkar Hveragerði lögðu fram eftirfarandi bókun.

Undirrituð gera athugasemdir við þá túlkun bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins að bæjarfulltrúarnir Njörður Sigurðsson og Viktoría Sif Kristinsdóttir hafi ekki gert athugasemdir við þá stefnu að gróðurhús væru víkjandi við Þelmörk. Hér á eftir er listi yfir athugasemdir sem komu fram á árunum 2015-2017:

* Grein Njarðar Sigurðssonar í Dagskránni 2. júlí 2015 þar sem tillögu að deiliskipulagi er mótmælt.
* Athugasemd Njarðar Sigurðssonar við deiliskipulag Grímsstaðareits 9. júlí 2015 þar sem gerð er athugasemd við að gróðurhúsin séu víkjandi. Sent skipulags- og byggingarfulltrúa.
* Bókun Viktoríu Sifjar Kristinsdóttur í bæjarráði 23. júlí 2015 þar sem hún gerir athugasemd við deiliskipulag Grímsstaðareits vegna gróðurhúsa sem eiga að víkja og leggur til að gert verði varðveislumat. Meirihluti Sjálfstæðismanna felldi tillöguna.
* Tillaga Njarðar Sigurðssonar og Viktoríu Sifjar Kristinsdóttur um að gert verði varðveislumat á gróðurhúsum er felld af meirihluta Sjálfstæðismanna í bæjarstjórn 10. september 2015.
* Tillaga Njarðar Sigurðssonar og Viktoríu Sifjar Kristinsdóttur um gerð varðveislumats á gróðurhúsum lögð fram í bæjarstjórn 12. janúar 2017. Bæjarstjórn ákveður að fresta afgreiðslunni að tillögu Sjálfstæðismanna.
* Á fundi bæjarstjórnar 12. október 2017 er nýtt aðalskipulag Hveragerðisbæjar 2017-2029 samþykkt. Njörður Sigurðsson og Viktoría Sif Kristinsdóttir bóka að enn hafi ekki verið afgreidd tillaga þeirra um gerð varðveislumats á gróðurhúsum sem með réttu hefði átt að fara fram meðfram vinnu við aðalskipulag.

Njörður Sigurðsson
Þórunn Pétursdóttir

Kl. 17:37 var gert fundarhlé.
Kl. 17:56 hélt fundur áfram.

Fulltrúar meirihlutans lögðu fram eftirfarandi bókun.
Bæjarfulltrúum á að vera það ljóst að stefna bæjarfélagsins um landnotkun er mörkuð í aðalskipulagi. Óumdeilt er að Njörður og Viktoría samþykktu ítrekað þá stefnumörkun sem mörkuð er í aðalskipulagsbreytingu á Grímsstaðareit þar sem skýrt kemur fram að verið er að breyta landnotkun úr garðyrkju í íbúðabyggð. Upptalning athugasemda sem fram koma í bókun Njarðar og Þórunnar lúta allar að athugasemdum við deiliskipulag en þá þegar var aðalskipulagsbreytingin orðin staðreynd. Í deiliskipulagi eru sett ákvæði um byggingarheimildir, útfærslu bygginga og frágang umhverfis, allt byggt á fyrirliggjandi aðalskipulagi sem markar stefnuna eins og áður segir.
Eyþór H. Ólafsson
Bryndís Eir Þorsteinsdóttir
Friðrik Sigurbjörnsson
Aldís Hafsteinsdóttir.

Fulltrúar Okkar Hveragerði lögðu fram eftirfarandi bókun.

Undirrituð gera athugasemd við orðhengilshátt bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins. Öllum er ljóst sem hafa fylgst með málinu að athugasemdir voru ítrekað gerðar um að gróðurhúsin við Þelamörk ættu að víkja.

Njörður Sigurðsson
Þórunn Pétursson.

Tillagan samþykkt samhljóða.

9.Fyrirspurn frá Okkar Hveragerði um siðareglur kjörinna fulltrúa hjá Hveragerðisbæ.

1911047

Fulltrúar Okkar Hveragerði lögðu fram eftirfarandi fyrirspurn.
Samkvæmt 9. gr. siðareglna kjörinna fulltrúa hjá Hveragerðisbæ sem samþykktar voru 2013 ber að taka siðareglurnar til umræðu í upphaf hvers kjörtímabils og endurskoðunar ef þörf þykir. Þá segir í sömu grein að kjörnir fulltrúar skuli við upphaf hvers kjörtímabils undirrita yfirlýsingu um að þeir hafi kynnt sér og virði reglur og samþykktir bæjarstjórnar. Þá er jafnframt kveðið á um í sveitarstjórnarlögum nr. 138/2011 að ný sveitarstjórn skuli meta hvort að endurskoða þurfi siðareglur og tilkynna ráðuneyti um þá niðurstöðu. Eðlilegt er að bæjarstjóri, sem framkvæmdastjóri sveitarfélagsins, eða forseti bæjarstjórnar hafi frumkvæði að því að leggja siðareglur fyrir nýja bæjarstjórn í upphafi kjörtímabils. Það hefur ekki enn verið gert þó að liðnir séu 17 mánuðir frá því að ný bæjarstjórn hélt sinn fyrsta fund. Því er spurt hvenær bæjarstjóri eða forseti bæjarstjórnar ætli að taka siðareglur kjörinna fulltrúa hjá Hveragerðisbær til umfjöllunar í bæjarstjórn.

Njörður Sigurðsson
Þórunn Pétursdóttir

Eftirtaldir tóku til máls: Njörður Sigurðsson, Aldís Hafsteinsdóttir og Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir.


Bæjarstjóri vill þakka árvekni bæjarfulltrúa og þykir miður að endurskoðun siðareglna bæjarfulltrúa skuli ekki hafa farið fram. Reglurnar verða lagðar fram til umfjöllunar á næsta fundi bæjarstjórnar og í kjölfarið mun verða óskað eftir því að bæjarfulltrúar undirriti yfirlýsingu um að þeir hafi kynnt sér reglurnar. Jafnframt óskar bæjarstjóri eftir því að þeir bæjarfulltrúar sem ekki þegar hafa skilað upplýsingum um fjárhagslega hagsmuni sína geri slíkt án tafar svo hægt sé að birta upplýsingarnar á vef bæjarins. Bæjarfulltrúar sem þegar eiga birtar upplýsingar þurfa að yfirfæra þær með tilliti til breytinga sem orðið hafa á högum þeirra.

10.Bréf frá Sveitarfélaginu Árborg frá 21.október 2019.

1911003

Í bréfinu er óskað eftir afstöðu sveitarstjórna í Árnessýslu til sameiningar sveitarfélaga eða viðræðna þar að lútandi.

Eftirtaldir tóku til máls: Eyþór H. Ólafsson, Njörður Sigurðsson, Aldís Hafsteinsdóttir, Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir, Friðrik Sigurbjörnsson, Þórunn Pétursdóttir og Bryndís Eir Þorsteinsdóttir.
Bæjarstjórn telur ljóst að með höfnun flestra sveitarfélaga í Árnessýslu á umleitan bæjarráðs Árborgar muni ekki verða af sameiningarviðræðum þessara sveitarfélaga og hafnar því erindi Árborgar.

Bæjarstjórn vill aftur á móti lýsa yfir vilja sínum til viðræðna við sveitarfélagið Ölfus um sameiningu þessara sveitarfélaga enda komi bæjarfulltrúar bæjarstjórnanna beggja að þeim viðræðum af fullum heilindum og af ríkum áhuga fyrir sameinuðu svæði hér í vesturhluta Árnessýslu.

Með sameiningu Hveragerðisbæjar og Sveitarfélagsins Ölfuss myndi verða til tæplega 5.000 manna öflugt sveitarfélag í örum vexti, ríkt af náttúruauðlindum og fjölbreyttri atvinnustarfsemi. Slíkt sveitarfélag myndi verða með skriðþunga og kraft sem eftir yrði tekið. Meðgjöf Jöfnunarsjóðs með sameiningu þessara tveggja sveitarfélaga yrði ríflega 820 milljónir króna sem létta myndi róðurinn við uppbyggingu nýs sveitarfélags. Rétt er að minna á að í íbúakosningu sem fram fór samhliða sveitarstjórnarkosningum árið 2014 hér í Hveragerði varð sameining við Ölfus hlutskörpust af þeim valkostum sem í boði voru þegar íbúar voru spurðir um vilja til sameiningar við önnur sveitarfélög. Í framhaldinu var sú niðurstaða send til bæjarstjórnar Ölfuss með beiðni um viðræður um sameiningu. Niðurstaða rafrænnar íbúakosningar í Ölfusi sem haldin var í kjölfarið sýndi því miður að sú ást var ekki endurgoldin. Þrátt fyrir þá niðurstöðu þykir bæjarstjórn rétt að láta reyna á vilja nágranna okkar til sameiningar nú í ljósi nýrra forsendna.

11.Gjaldskrá sorphirðu og sorpurðunar 2020, fyrri umræða.

1911039

Lögð fram til fyrri umræðu gjaldskrá fyrir sorphirðu og sorpurðun í Hveragerðisbæ.
Enginn tók til máls.
Samþykkt að vísa gjaldskránni til síðari umræðu.

12.Gjaldskrá hundaleyfa og handsömunar 2020, fyrri umræða.

1911040

Lögð fram til fyrri umræðu gjaldskrá fyrir hundahald í Hveragerðisbæ.
Enginn tók til máls.
Samþykkt að vísa gjaldskránni til síðari umræðu.

13.Gjaldskrá kattahalds 2020, fyrri umræða.

1911041

Lögð fram til fyrri umræðu gjaldskrá fyrir kattahald í Hveragerðisbæ.
Enginn tók til máls.
Samþykkt að vísa gjaldskránni til síðari umræðu.

14.Gjaldskrá vatnsgjalds 2020, fyrri umræða.

1911042

Lögð fram til fyrri umræðu gjaldskrá fyrir vatnsveitu í Hveragerðisbæ.
Enginn tók til máls.
Samþykkt að vísa gjaldskránni til síðari umræðu.

15.Gjaldskrá fráveitu 2020, fyrri umræða.

1911043

Lögð fram til fyrri umræðu gjaldskrá fyrir fráveitu í Hveragerðisbæ.

Enginn tók til máls.
Samþykkt að vísa gjaldskránni til síðari umræðu.

16.Fjárhagsáætlun Hveragerðisbæjar 2020, fyrri umræða.

1911044

Lögð fram til fyrri umræðu fjárhagsáætlun Hveragerðisbæjar fyrir árið 2020.

Bæjarstjóri kynnti áætlunina og lagði fram eftirfarandi greinargerð.


Eins og undanfarin ár var fjárhagsáætlun ársins 2020 unnin sameiginlega af öllum bæjarfulltrúum og var samstarfið afar ánægjulegt. Fyrir það ber að þakka. Ennfremur er skrifstofustjóra og öðrum starfsmönnum þakkað framúrskarandi gott samstarf við gerð fjárhagsáætlunar fyrir árið 2020.

Almennt:
Fjárhagsáætlun Hveragerðisbæjar fyrir árið 2020 tekur mið af yfirlýsingu Sambands íslenskra sveitarfélaga í tengslum við lífskjarasamningana. Ennfremur er unnið eftir því markmiði að íbúum Hveragerðisbæjar verði tryggð besta mögulega þjónusta. Það er ljóst að gríðarleg eftirspurn er eftir búsetu í Hveragerðisbæ en þrátt fyrir það er það meðvituð stefna bæjarstjórnar að uppbygging nýrra hverfa sé með þeim hætti að lóðum er úthlutað í hæfilegu magni með það að markmiði að ávallt haldist í hendur framúrskarandi þjónusta og fjölgun íbúa. Jafnframt hefur stefna bæjarstjórnar miðað að því að uppbygging íbúðarhúsnæðis sé bæði fjölbreytt og falleg og haldist í hendur við yfirlýsta stefnu um að staðarandi Hveragerðisbæjar haldist áfram jafn góður og verið hefur.

Markmið:
Markmið bæjarstjórnar við gerð áætlunarinnar er að skilyrði sveitarstjórnarlaga verði uppfyllt en í því felst m.a. að:
1. Samanlögð rekstrarniðurstaða samstæðu, þ.e. A og B hluta skal vera jákvæð á hverju þriggja ára tímabili.
2. Heildarskuldir og skuldbindingar séu ekki hærri en sem nemur 150% af tekjum.

Forsendur:
Við gerð fjárhagsáætlunar fyrir árið 2020 er tekið mið af útkomuspá ársins 2019.
Íbúafjölgun í Hveragerði er stöðug og eru íbúar nú 2.700. Hefur íbúum fjölgað um 73 eða um 2,7% á árinu. Mikil eftirspurn er eftir húsnæði í bæjarfélaginu og seljast flest hús á örfáum dögum og önnur ná ekki inn á söluskrá fasteignsala áður en þau eru seld. Á árinu 2019 hefur verið unnið að gatnagerð í Kambalandi en lóðum við fyrstu götur hverfisins var úthlutað nýverið. Á árinu 2020 munu enn fleiri lóðir standa byggingaraðilum og einstaklingum til boða en ljóst er á eftirspurninni að færri munu fá en vilja. Uppbygging Kambalands mun því verða mun hraðari en bjartsýnustu menn þorðu að vona. Ljóst er að kaup Hveragerðisbæjar á Kambalandi voru skynsamleg ráðstöfun en þar var hugsað til langrar framtíðar og fjölbreytt byggingarland bæjarins enn betur tryggt en áður var. Jafnframt uppbyggingu Kambalands hefur verið unnið að uppbyggingu íbúðarhúsnæðis víðar í bæjarfélaginu. Því er ljóst að framboð húsnæðis mun aukast strax á næsta ári en framkvæmdir eru hafnar eða við það að hefjast á hátt í tvöhundruð íbúðum í bæjarfélaginu. Á árinu 2020 munu þær íbúðir byrja að raðast inn á markaðinn þannig að ljóst er að fjölgun íbúa í bæjarfélaginu verður áfram umtalsverð á næstu misserum.
Fasteignaverð hefur hækkað mjög skarpt í Hveragerði að undanförnu sem óhjákvæmilega hefur leitt til þess að fasteignamat í bæjarfélaginu hefur hækkað. Vegna þessa hefur bæjarstjórn tekið ákvörðun um að aðlaga álagningarprósentur fasteignagjalda með það að markmiði að hækkanir heildarfasteignagjalda verði almennt ekki hærri en sem nemur viðmiði lífskjarasamninga. Þannig er enn og aftur komið til móts við þær miklu hækkanir á gjöldum sem annars hefðu orðið að veruleika. Vert er þó að geta þess að hækkanir geta verið mismunandi eftir húsagerðum og staðsetningu þannig að sums staðar geta hækkanir verið meiri en á öðrum stöðum minni. Núverandi fyrirkomulag álagningar gerir að verkum að þetta er óumflýjanlegt.

Helstu forsendur fjárhagsáætlunar Hveragerðisbæjar fyrir árið 2020 eru:
* Gert er ráð fyrir óbreyttri útsvarsprósentu eða 14,52%.
* Álagningarprósenta fasteignaskatts á húsnæði í A-flokki hækkar úr 0,36% í 0,43% en á móti lækkar lóðarleiga úr 0,75% í 0,44%.
* Álagningarprósenta á vatnsgjald á húsnæði í A-flokki lækkar úr 0,06% í 0,02%.
* Aukavatnsgjald breytist ekki og verður áfram 13,0 kr. á rúmmetra.
* Álagningarprósenta holræsagjalds lækkar úr 0,21% í 0,155% á alla flokka húsnæðis.
* Sorphirðugjöld hækka um 2,5 % og verða 15.400.- Gjöld vegna sorpurðunar hækka um það sama og verða 21.500,-.
Með því að hætt hefur verið við hugmyndir um urðunarskatt er ljóst að íbúar landsins sluppu við verulegar álögur. Aftur á móti hefur því miður enn ekki tekist að finna lausn á sorpurðun Sunnlendinga og því er útflutningur sorps að verða að veruleika a.m.k. tímabundið. Þrátt fyrir það eru sorpurðunargjöld ekki hækkuð meira en um 2,5% en bæjarstjórn vonast til að með aukinni meðvitund og fræðslu muni Hvergerðingar ná enn betri árangri í flokkun en nú þegar eru íbúar hér í fararbroddi í Íslandi hvað það varðar, en héðan fer nú þegar um 66% af sorpi í farveg endurvinnslu. Aftur á móti er enn hægt að gera betur og að því er stefnt á næsta ári.

* Bæjarstjórn hefur undanfarin ár miðað hækkun gjaldskráa við verðlagsþróun síðastliðins árs en ekki við verðbólguspá komandi árs. Með þessu móti telur bæjarstjórn sig vinna með rauntölur sem hlýtur að vera eðlilegra en að hækka gjaldskrár á undan verðbólgunni en slíkt eykur verðbólguþrýsting. Fyrir árið 2020 er brugðið út frá þessari reglu að því leiti að gjaldskrár hækka að jafnaði einungis um 2,5% þrátt fyrir að verðlagsþróun síðastliðna 12 mánuði sé 2,99% sem hefði þá verið hækkun ársins miðað við venju undanfarinna ára.
Í öllum tilfellum er hagur bæjarbúa hafður að leiðarljósi og hækkunum stillt í hóf eins og mögulegt er.
* Gert er ráð fyrir að framlag Jöfnunarsjóðs hækki frá áætlaðri niðurstöðu ársins 2019 og byggir áætlun ársins 2020 á rauntölum ársins 2019 og spám Jöfnunarsjóðs.
* Hvað varðar rekstur er sú breyting stærst að á árinu 2018 opnuðu allar deildir nýja leikskólans Undralands. Þó er ljóst að með fjölgun starfsmanna má enn bæta við þó nokkuð mörgum börnum og gert er ráð fyrir að skref verði stigin í þá átt á árinu. Nú um áramót er búið að bjóða flestum þeim börnum sem verða eins árs í janúar 2020 leikskólavistun þannig að ljóst má vera að tilkoma nýja leikskólans hefur gjörbreytt stöðu barnaforeldra í Hveragerði.
Nú er allur matur leikskólanna beggja eldaður í nýja eldhúsinu á Undralandi og maturinn keyrður til Óskalands. Hefur þetta fyrirkomulag mælst vel fyrir.
Fjárhagsáætlanir einstakra deilda eru unnar í góðri samvinnu við forstöðumenn stofnana og ber að þakka þann góða vilja og jákvæðni sem starfsmenn hafa sýnt við gerð fjárhagsáætlunarinnar. Ætlast er til að forstöðumenn sýni eins og ávallt ýtrustu hagkvæmni bæði í innkaupum og í starfsmannahaldi.

Viðhald og fjárfestingar:
* Stærsta einstaka fjárfesting ársins 2020 er viðbygging við Grunnskólann í Hveragerði. Þar er gert ráð fyrir að framkvæmdir hefjist á árinu og þeim ljúki fyrir upphaf skólastarfs haustið 2021. Um er að ræða viðbyggingu til norðurs þar sem gert er ráð fyrir nokkrum kennslustofum og sérkennslurýmum.
Á árinu 2018 keypti Hveragerðisbær Kambaland sem er stórt landsvæði vestast í byggðinni. Þar lá fyrir deiliskipulag að stóru hverfi og framkvæmdir voru hafnar við gatnagerð. Á árinu 2020 er gert ráð fyrir að uppbygging haldi áfram í Kambalandi og að fleiri lóðum verði úthlutað þar á vormánuðum en þá mun væntanlega verða hægt að úthluta fjölda íbúða í fjölbýlishúsum, raðhúsum og einbýlishúsum.
Gert er ráð fyrir framhaldi á endurbótum á sundlaugarhúsinu í Laugaskarði og fjármunir settir til viðhalds annars búningsklefans. Framkvæmdir þar munu hefjast á haustmánuðum og halda áfram inn í árið 2021 þannig að þá verði lokið endurbótum á búningsklefunum báðum.
Ráðist verður í frágang á bílastæði við Árhólma og gjaldtaka hafin af gestum svæðisins. Gert er ráð fyrir húsi yfir vélbúnað Hamarshallarinnar en ekki tókst að ráðast í þá framkvæmd árið 2019. Þá er einnig gert ráð fyrir lagfæringum á eldri götum, gangstígum og gangstéttum, merkingum og öðru slíku.
Þó nokkrir fjármunir eru síðan settir til viðhalds mannvirkja í eigu bæjarfélagsins.
Framkvæmdir verða þó nokkrar við fráveitu en þar er gert ráð fyrir að áframahaldandi uppbyggingu rétt eins og þörf er á í vatnsveitunni vegna íbúafjölgunar.
Aðrar fjárfestingar Hveragerðisbæjar á árinu 2020 eru smærri.

Rekstrartölur:
Við framlagningu fjárhagsáætlunar til fyrri umræðu er gert ráð fyrir að áætlaðar heildartekjur Hveragerðisbæjar (aðalsjóðs, A- og B- hluta) nemi alls kr. 3.136 m.kr. fyrir árið 2020. Þar af eru skatttekjur ráðgerðar kr. 1.830 milljónir. Framlög Jöfnunarsjóðs eru áætluð 578 m.kr. og aðrar tekjur bæjarsamstæðu um 728 m.kr.
Rekstrargjöld og reiknaðar afskriftir samstæðu nema um 2.957 m.kr.. Niðurstaða samstæðu án fjármagnsliða er því jákvæð um 178 milljónir sem er 5,7% af tekjum.
EBITDA Hveragerðisbæjar er 319 m.kr.. Fjármagnsliðir eru áætlaðir 153 m.kr. og er rekstrarniðurstaða samstæðu því jákvæð um 25,3 m.kr. Í fyrri umræðu er gert ráð fyrir
2% verðbólgu á árinu 2020. Samanlögð rekstrarniðurstaða áranna 2018, 2019 og 2020 verður því jákvæð um 140 m.kr. sem er í fullu samræmi við ákvæði sveitarstjórnarlaga.

Skuldir og skuldbindingar:
Afborganir langtímalána verða rúmlega 198 m.kr. og tekin ný lán munu nema 300 m.kr.
á árinu 2020. Í lok árs 2020 verða langtímaskuldir og skuldbindingar samstæðu 3.652 m.kr.. Þar af er lífeyrisskuldbinding sveitarsjóðs 675 m.kr. og skuldbindingar vegna leigugreiðslna 273 m.kr.
Skuldir og skuldbindingar Hveragerðisbæjar í lok ársins 2020 munu verða 133% af árstekjum. Skv. fjármálareglum sveitarfélaga er heimilt að draga frá skuldum skuldbindingu vegna lífeyris sem fellur til eftir 15 ár og síðar. Sé það gert myndi skuldahlutfallið batna enn frekar og verða 123%. Er skuldastaða sveitarfélagsins því vel undir skuldaþakinu sem lögfest hefur verið í sveitarstjórnarlögum.

Lokaorð:
Nánari útfærsla einstakra liða mun koma fram í ítarlegri greinargerð sem lögð verður fram við síðari umræðu um fjárhagsáætlun þann 12. desember nk.

Eftirtaldir tóku til máls: Aldís Hafsteinsdóttir, Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir og Þórunn Pétursdóttir.
Samþykkt að vísa fjárhagsáætluninni til síðari umræðu.

17.Þriggja ára fjárhagsáætlun Hveragerðisbæjar 2021-2023, fyrri umræða.

1911045

Lögð fram til fyrri umræðu þriggja ára fjárhagsáætlun Hveragerðisbæjar fyrir árin 2021-2023.

Bæjarstjóri gerði grein fyrir forsendum þriggja ára fjárhagsáætlunar fyrir árin 2021-2023 og lagði fram eftirfarandi greinargerð:

Unnið var í samræmi við eftirfarandi markmið við gerð þriggja ára áætlunar Hveragerðisbæjar fyrir árin 2021-2023:

* Fjárfestingar verða helstar á sviði gatnagerðar, skólamannvirkja og íþróttamannvirkja.
* Skuldahlutfallið fari lækkandi þrátt fyrir framkvæmdir á tímabilinu.
* Samanlögð rekstrarniðurstaða samstæðu A/B hluta verði jákvæð á tímabilinu.

Almennt:
Í áætluninni er gert ráð fyrir hóflegri hækkun skatttekna næstu árin:
Gert er ráð fyrir 2,5% hækkun vísitölu á tímabilinu.
Íbúafjölgun verði 3,5% á ári.
Tekjur af útsvari hækki um 8,5% öll árin (5% launavísitala, 3,5% íbúafjöldi).
Tekjur af fasteignagjöldum hækki um 5,5% öll árin (2,5% vísitala, 3% fjöldi álagðra fermetra).
Framlög úr Jöfnunarsjóði hækki um 8,5% öll árin (5% launavísitala, 3,5% íbúafjöldi).
Aðrar tekjur hækki um 2,5% á ári.
Laun hækki um 5% á ári.
Annar kostnaður hækki um 2,5% á ári.

Lántökur á tímabilinu taka mið af þeim fjárfestingum sem fyrirsjáanlegar eru á þessum tímapunkti. Á næstu tveimur árum mun rísa ný viðbygging við grunnskólann sem gera mun að verkum að kennsluaðstæður verða með allt öðrum og betri hætti en áður hefur verið enda ljóst að með fjölgun íbúa eykst þörf fyrir skólahúsnæði.
Jafnframt verður haldið áfram endurbótum á húsnæði Sundlaugarinnar í Laugaskarði. Gert er ráð fyrir framlagi Hveragerðisbæjar til uppbyggingar nýrrar byggingar við núverandi hjúkrunarheimili en ríkisstjórnin hefur þegar samþykkt að ráðast í þá framkvæmd með það að markmiði að útrýma tvíbýlum á hjúkrunarheimilinu. Einnig er gert ráð fyrir umtalsverðri gatnagerð á tímabilinu. Vegna fjölgunar íbúa mun reynast nauðsynlegt að fara í viðbætur við fráveitumannvirkið og er gert ráð fyrir þeim á tímabilinu.
Gert er ráð fyrir 440 m.kr. langtímaláni árið 2021, 100 m.kr. langtímaláni árið 2022 en engri lántöku árið 2023.
Fjárfestingar:
Helstu fjárfestingar á þessu tímabili munu verða eftirfarandi í þús. kr.:

Á árinu 2021
Götur og göngustígar 200.000
Gatnagerðartekjur -150.000
Bílaplan og stígar við Árhólma 15.000
Tekjur vegna fjárfestinga -15.000
Bílaplan við Hamarshöll 35.000
Sundlaug 50.000
Grunnskóli 215.000
Framlag til hjúkrunarheimilis 105.000
Framlög til húsnæðismála 30.000
Fráveitumannvirki 40.000
Aðrar fjárfestingar 5.000
Alls fjárfesting 530.000

Á árinu 2022
Götur og göngustígar 200.000
Gatnagerðartekjur -200.000
Bílaplan og stígar við Árhólma 50.000
Tekjur vegna fjárfestinga -10.000
Bílaplan við Hamarshöll 20.000
Sundlaug 35.000
Grunnskóli 25.800
Fráveitumannvirki 30.000
Vatnsveita 25.000
Framlög til húsnæðismála 35.000
Aðrar fjárfestingar 5.000
Alls fjárfesting 215.800


Á árinu 2023
Götur og göngustígar 100.000
Gatnagerðartekjur -120.000
Bílaplan og stígar við Árhólma 50.000
Tekjur vegna fjárfestinga -50.000
Sundlaug 35.000
Leikskóli hönnun 9.000
Fráveitumannvirki 30.000
Vatnsveita 15.000
Aðrar fjárfestingar 80.000
Alls fjárfesting 149.000


Rétt er að ítreka að fjárfestingaáætlun er endurskoðuð við fjárhagsáætlunargerð hvers árs í ljósi þess efnahagslega umhverfis sem ríkir á hverjum tíma.

Skuldir og skuldbindingar:
Markmið bæjarstjórnar um að skuldir samstæðu verði undir skuldaþakinu mun standast á tímabilinu og ekki útlit fyrir að það muni breytast þrátt fyrir nýjar fjárfestingar í samræmi við þriggja ára áætlun. Skuldir samstæðu munu þróast með eftirfarandi hætti að teknu tilliti til þess að skv. fjármálareglum sveitarfélaga er heimilt að draga frá skuldum skuldbindingu vegna lífeyris sem fellur til eftir 15 ár og síðar. Í sviga má sjá skuldahlutfallið án þess að heimild skv. fjármálareglum sé nýtt:

2020 123 % af tekjum (133%)
2021 125 % af tekjum (134%)
2022 115 % af tekjum (124%)
2023 103 % af tekjum (112%)

Á árunum 2021-2023 munu afborganir lána nema 791 m.kr. en á sama tímabili verða tekin ný langtímalán að upphæð 550 m.kr. eins og áður er getið.

Lokaorð:
Bæjarstjórn hefur unnið fjárhagsáætlun bæjarins sameiginlega á undanförnum árum og er það sameiginlegur vilji bæjarfulltrúa að búa þannig um hnúta að í bæjarfélaginu sé veitt framúrskarandi þjónusta og að hlúð sé að því sem skiptir máli í nærumhverfinu.
Ýmsar framkvæmdir eru framundan sem allar eru þess eðlis að bæta umhverfi og lífsgæði bæjarbúa. Það er því jákvætt að bæði ungir sem þeir sem eldri eru sjái framtíð sína og fjölskyldu sinnar vel borgið hér í Hveragerði.
Með fjölgun íbúa og auknum tekjum mun skapast svigrúm til að íbúar fái notið bætts rekstrar og meiri þjónustu þar sem þess er nokkur kostur.

Eftirtaldir tóku til máls: Aldís Hafsteinsdóttir.
Samþykkt að vísa þriggja ára fjárhagsáætlun til síðari umræðu.
Fundargerðin upp lesin og samþykkt samhljóða.

Fundi slitið - kl. 18:58.

Getum við bætt efni síðunnar?