Fara í efni

Bæjarstjórn

509. fundur 13. júní 2019 kl. 17:00 - 18:54 í fundarsal Breiðumörk 20
Nefndarmenn
  • Eyþór H. Ólafsson forseti bæjarstjórnar
  • Friðrik Sigurbjörnsson
  • Aldís Hafsteinsdóttir
  • Ingibjörg Zoéga Björnsdóttir varamaður
  • Njörður Sigurðsson
  • Þórunn Pétursdóttir
  • Garðar R. Árnason
  • Helga Kristjánsdóttir
Fundargerð ritaði: Helga Kristjánsdóttir skrifstofustjóri
Dagskrá
Forseti bæjarstjórnar, Eyþór H. Ólafsson setti fund og stjórnaði.

Leitaði hann eftir athugasemdum við fundarboð en engar komu fram.

1.Fundargerð bæjarráðs frá 16.maí 2019.

1905002F

Liðir afgreiddir sérstaklega 4,10,13 og 14.
Eftirtaldir tóku til máls: Eyþór H. Ólafsson, Garðar R. Árnason og Aldís Hafsteinsdóttir.
Liður 4 "Bréf frá Sýslumanninum á Suðurlandi frá 6. maí 2019" afgreiddur sérstaklega.
Bæjarstjórn gerir ekki athugasemd við að Ölkráin ehf fái nýtt rekstrarleyfi.

Liður 10 "Bréf frá eigendum Ísbúðarinnar í Sunnumörk frá 12. maí 2019". Verður afgreiddur sérstaklega undir lið 6.

Liður 13 "Minnisblað frá forstöðumanni Upplýsingamiðstöðvar Suðurlands" afgreiddur sérstaklega.
Bæjarstjórn samþykkir að taka tilboði BSI en forstöðumaður metur hversu mikið umfang úttektanna skal vera.

Liður 14 "Tillaga að viðauka við fjárhagsáætlun - Birkimörk" afgreiddur sérstaklega".
Bæjarstjórn samþykkir viðaukann.

Fundargerðin að öðru leyti samþykkt samhljóða.

2.Fundargerð bæjarráðs frá 6.júní 2019.

1906001F

Liðir afgreiddir sérstaklega 11,13,14 og 16.

Eftirtaldir tóku til máls: Eyþór H. Ólafsson, Aldís Hafsteinsdóttir, Þórunn Pétursdóttir, Friðrik Sigurbjörnsson og Garðar R. Árnason.
Liður 11 "Bréf frá Lagnaþjónustunni frá 3. júní 2019" afgreiddur sérstaklega.
Bæjarstjórn samþykkir að leigja skúrinn.

Liður 13 "Minnisblað frá skipulagsfulltrúa - Dalakaffi, uppgjör og skil á aðstöðu" afgreiddur sérstaklega.
Bæjarstjórn samþykkir tillögur skipulagsfulltrúa.

Liður 14 "Minnisblað frá byggingarfulltrúa - Ofnar í íþróttasal" afgreiddur sérstaklega.
Bæjarstjórn samþykkir að fara í endurnýjun allra ofna í sal íþróttahússins.

Liður 16 "Minnisblað frá bæjarstjóra - Garðarölt í sumarbænum Hveragerði á N4" afgreiddur sérstaklega.
Bæjarstjórn samþykkir að Hveragerðisbær leggi kr. 600.000.- til framleiðslu á þáttunum.

Fundargerðin að öðru leyti samþykkt samhljóða.

3.Fundargerð Skipulags- og mannvirkjanefndar frá 4.júní 2019.

1906024

Liðir afgreiddir sérstaklega 1,2,3 og 5.

Eftirtaldir tóku til máls: Eyþór H. Ólafsson, Njörður Sigurðsson, Aldís Hafsteinsdóttir, Ingibjörg Zoéga, Garðar R. Árnason og Friðrik Sigurbjörnsson.

Kl 17:15 var gert fundarhlé.
Kl 17:17 hélt fundur áfram.
Liður 1 "Friðarstaðareitur, deiliskipulagslýsing" afgreiddur sérstaklega.
Bæjarstjórn samþykkir að lýsingin verði send Skipulagsstofnun og umsagnaraðilum til umsagnar og kynnt fyrir almenningi sbr. 2. mgr. 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Liður 2 "Árhólmar 1, þjónustuhús, umsókn um byggingarleyfi" afgreiddur sérstaklega.
Bæjarstjórn samþykkir að byggingarleyfi fyrir húsinu verði veitt þegar fullnægjandi gögn hafa verið lögð inn til byggingarfulltrúa og hann samþykkt byggingaráformin.

Liður 3 "Kambahraun 41, umsókn um stækkun lóðar og byggingarleyfi fyrir stækkun bílskúrs" afgreiddur sérstaklega.
Bæjarstjórn samþykkir að málið verði grenndarkynnt í samræmi við 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Liður 5 "Neyðarlínan ohf, umsókn um framkvæmdaleyfi fyrir fjárskiptamastri og tækjahúsi í landi Öxnalækjar" afgreiddur sérstaklega.
Bæjarstjórn samþykkir að fresta afgreiðslu til fundar bæjarráðs og boða á þann fund fulltrúa Neyðarlínunnar og skipulagsfulltrúa.

Fundargerðin að öðru leyti samþykkt samhljóða.

4.Fundargerð Menningar- íþrótta- og frístundanefndar frá 3.júní 2019.

1906025

Eftirtaldir tóku til máls: Eyþór H. Ólafsson, Garðar R. Árnason, Aldís Hafsteinsdóttir, Friðrik Sigurbjörnsson og Njörður Sigurðsson.
Fundargerðin samþykkt samhljóða.

5.Fundargerð Fræðslunefndar frá 3.júní 2019.

1906026

Enginn tók til máls.
Fundargerðin samþykkt samhljóða.

6.Ósk um notkun á nafninu Eden.

1906015

Ósk hefur borist frá eigendum Ísbúðarinnar í Sunnumörk um að fá að nota nafnið Ísbúðin Eden. Jafnframt liggur fyrir erindi frá Gísla Steinari Gíslasyni um að nafnið Eden fari ekki til annars aðila á meðan unnið er að því verkefni að á lóð tívolísins í Hveragerði rísi verslunar og þjónustukjarni sem haldið gæti nafninu Eden á lofti.

Fulltrúar meirihlutans lögðu fram eftirfarandi tillögu.

Hveragerðisbær hefur frá árinu 2010 átt vörumerkið Eden og er það skráð hjá Einkaleyfastofu í flokki 31 (landbúnaðar, garðræktar og skógræktarafurðir o.fl) og flokki 43 (veitingaþjónusta og tímabundin gistiþjónusta).

Var það ávallt ætlunin að þessu vörumerki væri haldið í Hveragerði og það notað ef og þegar starfsemi er líktist sem mest þeirri starfsemi sem áður var í Eden yrði komið á laggirnar.

Það er mjög þarft og afskaplega jákvætt að nú hafi á ný opnað ísbúð í Hveragerði. Meirihluti bæjarstjórnar lítur aftur á móti svo á að sá rekstur sé ekki í þeim anda sem fólk almennt tengir við Eden í Hveragerði og hafnar því erindi eiganda Ísbúðarinnar í Sunnumörk.

Eyþór H. Ólafsson
Friðrik Sigurbjörnsson
Aldís Hafsteinsdóttir
Ingibjörg Zoéga.


Fulltrúar Okkar Hveragerði lögðu fram eftirfarandi tillögu.

Það er mat undirritaðra að Hveragerðisbær, sem opinber aðili, eigi ekki að hlutast til um hvað einkafyrirtæki í sveitarfélaginu mega heita. Það er ekki hlutverk Hveragerðisbæjar að eiga vörumerki, eins og vörumerkið Eden, og svo úthluta því til aðila sem meirihluti bæjarstjórnar telur þóknanlegt til að bera heitið. Því leggja undirrituð til að Hveragerðisbær selji vörumerkið Eden og þeir aðilar sem hafa áhuga á að kaupa bjóði í vörumerkið.

Njörður Sigurðsson
Þórunn Pétursdóttir


Eftirtaldir tóku til máls: Eyþór H. Ólafsson, Njörður Sigurðsson, Aldís Hafsteinsdóttir og Garðar R. Árnason.
Tillaga Okkar Hveragerði borin upp og felld með 5 atkvæðum , 2 með.
Tillaga D- listans borin upp og samþykkt með 5 atkvæðum, 2 sátu hjá.

7.Varðveislusamningur um apann Bongó - Jobba.

1906023

Lagður fram samningur milli Menntaskólans að Laugarvatni og Hveragerðisbæ um að Hveragerðisbær varðveiti apann Bongó - Jobba ótímabundið.

Eftirtaldir tóku til máls: Eyþór H. Ólafsson, Þórunn Pétursdóttir, Friðrik Sigurbjörnsson, Aldís Hafsteinsdóttir og Njörður Sigurðsson.
Samningurinn samþykktur með 5 atkvæðum, fulltrúar Okkar Hveragerði sitja hjá með eftirfarandi bókun.

Apinn Bongó eða Jobbi eins og hann var líka kallaður var fluttur til landsins árið 1958 af söngkonunni Ellý Vilhjálms og fékk hann síðar heimili um 1960 í blómaskála Paul Michelsen í Hveragerði. Þar var hann sýningardýr í búri um árabil. Eftir að ævi hans lauk var hamur dýrsins stoppaður upp og er hann nú í eigu Menntaskólans að Laugarvatni. Frá sjónarhóli dýravelferðar teljum við ekki viðeigandi að hafa uppstoppaðan ham af Bongó/Jobba til sýnis á vegum Hveragerðisbæjar. Það er skoðun undirritaðra að sögu apans Bongó/Jobba megi gera skil á tilhlýðilegri hátt en að hafa uppstoppaðan haminn til sýnis, s.s. með ljósmyndum og texta. Rétt er að benda á að uppstoppun dýra getur átt við þegar varðveita á útlit dýra sem hefur verið útrýmt eða til notkunar í kennslu. Slíkt á ekki við í tilfelli hamsins af apanum Bongó/Jobba sem á að verða sýningargripur vegna þess að hann var frægt sýningardýr í Hveragerði á sínum tíma. Undirrituð telja því ekki rétt að hamurinn verði til sýnis í Hveragerði en slíkt fer gegn þeirri umhverfisvitund sem Hveragerðisbær vill innleiða.

Þórunn Pétursdóttir
Njörður Sigurðsson

Fulltrúar D- listans lögðu fram eftirfarandi bókun.

Bæjarstjórn þakkar Menntaskólanum að Laugarvatni þá velvild sem Hveragerðisbær er sýndur með því að bjóða bæjarfélaginu apann Jobba til varðveislu. Apinn var fluttur inn af Ellý Vilhjálmsdóttur, söngkonu, er færði hann síðan Paul og Sigríði Michelsen að gjöf en þau hjón ráku hér blómaskála Michelsen af miklum myndarskap um árabil. Nú fagnar bæjarstjórn þvi að Jobbi sé kominn aftur heim og mun finna honum góðan stað til framtíðar. En fyrst mun hann verða til sýnis á Blómum í bæ sem haldin er um komandi helgi hér í Hveragerði.

Eyþór H. Ólafsson
Friðrik Sigurbjörnsson
Aldís Hafsteinsdóttir
Ingibjörg Zoéga.


8.Tillaga frá Frjálsum með Framsókn - Barnvænt samfélag, vottun.

1906027

Lögð fram eftirfarandi tillaga frá Frjálsum með Framsókn.

Bæjarstjórn Hveragerðis samþykkir að óska eftir samstarfi við Unicef á Íslandi við að innleiða Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna samkvæmt hugmyndafræði barnvænna sveitarfélaga, sem Unicef og umboðsmaður barna hafa þróað, og fá vottun vegna þessa.

Að sveitarfélag innleiði Barnasáttmálann þýðir að það samþykki að nota sáttmálann sem viðmið í starfi sínu og að forsendur sáttmálans séu leiðarstef í starfsemi þess. Við innleiðinguna rýna starfsmenn og kjörnir fulltrúar ákvarðanatökuferli sveitarfélagsins með hliðsjón af Barnasáttmálanum, gera aðgerðaráætlun og koma í framkvæmd viðeigandi breytingum. Sáttmálinn er þannig nýttur sem gæðastjórnunarverkfæri í stefnumótun og þjónustu með tilliti til barna.

Greinargerð:
Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna, sem er 30 ára í ár, var samþykktur á allsherjarþingi SÞ árið 1989. Hann var undirritaður á Alþingi árið 1990 og staðfestur fyrir Íslands hönd 28. október 1992. Sáttmálinn var lögfestur á Alþingi 20. febrúar 2013.

Barnasáttmálinn er útbreiddasti mannréttindasamningur heims og kveður á um þau réttindi sem öll börn eiga að njóta. Lög um leik-, grunn- og framhaldsskóla, aðalnámskrár skólastiganna og grunnþættir menntunar eiga jafnframt að tryggja börnum þessi réttindi og vera samhljóma Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.

Öll börn, óháð stöðu þeirra, skulu njóta þeirra mannréttinda sem kveðið er á um í Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og ekki má mismuna börnum hvað þau réttindi varðar.

Að mati undirritaðs er staða barna góð í Hveragerði, en mikilsvert að fá það staðfest með formlegri vottun sem Barnvænt samfélag. Börnin eiga alltaf að vera í forgangi við stefnumótun og ákvarðanatöku. Barnvænt samfélag er gott samfélag.

Garðar R. Árnason
Frjáls með Framsókn

Kl. 18:13 var gert fundarhlé.
Kl. 18:31 hélt fundur áfram.

Eftirtaldir tóku til máls: Garðar R. Árnason, Eyþór H. Ólafsson, Aldís Hafsteinsdóttir og Njörður Sigurðsson.
Bæjarstjórn samþykkir tillöguna með þeim breytingum sem hér koma fram.
Umrædd vottun er afar viðamikil og alls ekki einföld í framkvæmd. Fámennum hópi starfsmanna stjórnsýslu bæjarfélagsins hefur þegar verið falin ýmis verkefni er leggja aukið álag á þá. Því samþykkir bæjarstjórn að ekki verði ráðist í þetta verkefni að svo komnu máli. Bæjarstjórn tekur aftur á móti undir álit tillöguflytjanda að mikilvægt er að börnum séu tryggð mannréttindi og að hagsmunir þeirra séu hafðir í fyrirrúmi. Það munum við gera hér eftir sem hingað til og hafa til hliðsjónar ýmis þau atriði sem fram koma í barnasáttmálanum. Aðild að vottun UNICEF verður skoðuð af bæjarstjórn í tengslum við gerð fjárhagsáætlunar.

9.Kosning forseta- og varaforseta í bæjarstjórn skv. 7.gr. samþykktar um stjórn Hveragerðisbæjar og fundarsköp bæjarstjórnar.

1906031

Kosning forseta bæjarstjórnar. Eyþór H. Ólafsson fékk 7 atkvæði. Eyþór H. Ólafsson er því kjörinn forseti bæjarstjórnar.
Kosning varaforseta bæjarstjórnar. Bryndís Eir Þorsteinsdóttir fékk 6 atkvæði og Friðrik Sigurbjörnsson 1 atkvæði. Bryndís Eir Þorsteinsdóttir er því kjörin varaforseti.

10.Kosning skrifara og varaskrifara skv. 7.gr. samþykktar um stjórn Hveragerðisbæjar og fundarsköp bæjarstjórnar.

1906032

Kosning skrifara. Stungið var upp á Friðriki Sigurbjörnssyni sem skrifara. Samþykkt með 7 atkvæðum.
Kosning varaskrifara. Stungið var upp á Nirði Sigurðssyni sem varaskrifara. Samþykkt með 7 atkvæðum.

11.Kosning í bæjarráð skv. 26.gr. samþykktar um stjórn Hveragerðisbæjar og fundarsköp bæjarstjórnar.

1906033

Tillaga kom um aðalmenn: Friðrik Sigurbjörnsson, formaður, Bryndís Eir Þorsteinsdóttir, varaformaður, Þórunn Pétursdóttir.
Tillaga kom um varamenn: Eyþór H. Ólafsson, Aldís Hafsteinsdóttir, Njörður Sigurðsson.
Tillagan samþykkt samhljóða.

12.Sumarleyfi bæjarstjórnar.

1906034

Forseti lagði fram svohljóðandi tillögu:
Bæjarstjórn Hveragerðisbæjar samþykkir að fella niður fundi bæjarstjórnar í júlí og ágúst vegna sumarleyfis bæjarstjórnar og felur bæjarráði fullnaðarafgreiðslu mála í samræmi við 4. mgr. 8. greinar og 6. mgr. 31. greinar samþykkta um stjórn Hveragerðisbæjar og fundarsköp bæjarstjórnar.
Tillagan samþykkt samhljóða.
Fundargerðin upp lesin og samþykkt samhljóða.

Fundi slitið - kl. 18:54.

Getum við bætt efni síðunnar?