Fara í efni

Hafið kemst vel af án okkar

Listasafn Árnesinga - Austurmörk 21 3. júl - 22. des

Hafið kemst vel af án okkar“ er samvinnuverkefni sem vísar til hafsvæðanna á milli Íslands og Noregs. Okkur langar til að miðla ferðalagi ofan í og óþekkt undirdjúpin – þar sem við syndum á meðal hákarla, plantna, svifa og annarra framandi tegunda, auk plasts, sem er ný en ekki óþekkt tegund.

„Hafbókin“ efir Morten Strøksnes hefur verið okkar sameiginlega lesefni fyrir þessa sýningu.

Þegar fiskur drukknar

Morten Strøksnes

Þegar hlýnun jarðar ber á góma verður okkur tíðrætt um hver áhrifin á líf okkar á landi munu verða. Það er eðlilegt vegna þess hve óralangt er síðan forverar okkar skriðu upp á þurrt land og þróuðu með sér lungu og bein í stað tálkna og brjósks. Þess vegna liggur svolítil skekkja í sjónarhorninu. Þótt ástand jarðarinnar ráðist augljóslega af því sem gerist á landi, ekki síst af athöfnum okkar, er það eigi að síður hafið sem hefur úrslitaáhrif. Vegna þess að hafið er hinn mikli loftslagsstillir jarðarinnar.

Undanfarin árþúsund hafa lífsskilyrðin í hafinu verið í ótrúlegu jafnvægi. En það er liðin tíð. Orsökin er gríðarlegt magn af gróðurhúsalofttegundum sem við hleypum út í andrúmsloftið. Í raun hefur hafið tekið við megninu (93 prósentum) af þessum umframhita af mannavöldum. Auk hitans hefur gríðarlegt magn af koltvísýringi safnast upp í heimshöfunum. Ef sú væri ekki raunin væri jörðin nú þegar orðin mörgum gráðum heitari.

Því miður hefur þetta velviljaða gangverk sín takmörk og sinn kostnað í för með sér. Reikningurinn liggur á borðinu, við getum unnið okkur inn tíma en við eigum ekki í nein hús að venda.

Hlýnun sjávar þarf ekki að vera skelfing í sjálfu sér enda þótt hún breyti vistkerfinu umtalsvert (það hefur alltaf verið breytingum undirorpið). Stóra vandamálið til lengdar er að hlýrra haf geymir minna kolefni og flýtir þannig enn frekar fyrir allsherjarhlýnun jarðar. Heitt haf býr þar að auki yfir minna súrefni en kalt haf.

Ennfremur gerir aukið magn af koltvísýringi það að verkum að hafið verður sífellt súrara. Í kjölfar þess að við, fyrir tvö hundruð árum síðan, hófum að losa mikið magn af gróðurhúsalofttegundum út í andrúmsloftið hefur sýrustig sjávar lækkað hægt en örugglega. Undir næstu aldamót mun það líklega hafa sigið niður í 7,8 (úr 8,2 fyrir tvö hundruð árum síðan), telja vísindin. Það þýðir að hafið verði orðið súrara en flestar tegundir fiska og sjávardýra þola. Umskiptin verða hraðari en svo að sjávardýrin fái ráðrúm til aðlögunar. Vistkerfið mun hrynja, allt frá toppi fæðukeðjunnar og niður í smæstu svifþörunga.

Vissuð þið annars að ein tegund af þessum agnarsmáu svifþörungum „fann upp“ ljóstillífunina fyrir óralöngu síðan, á forsögulegum tíma jarðarinnar? Með því að nota orkuna frá sólinni tókst þeim að binda koltvísýringinn. Í þessu ferli varð súrefnið afgangs. Þannig voru lögð drögin að tilkomu okkar; það voru blágerlar í hafinu sem gerðu það að verkum að gildi koltvísýrings í andrúmsloftinu lækkaði en súrefnisgildið hækkaði. Þar til loks var hægt að draga andann. Blágerlarnir, sem vísindin þekktu ekkert til fyrir fáeinum áratugum síðan, hafa framleitt tvo þriðju hluta af öllu því súrefni sem fyrirfinnst á jörðinni.

 

„Þetta reddast“ höfum við tilhneigingu til að segja við sjálf okkur, kannski af djúpstæðri sjálfsvarnarþörf. En oft hefur ekkert reddast, sérstaklega ef við reynum að setja hlutina í víðtækt samhengi (sem við erum ekkert góð í). Eitt dæmi: Við endalok permtímabilsins (fyrir 299-251 árum síðan), varð jörðin fyrir mestu fjöldaútrýmingu í sögu sinni. Eldgos í Síberíu bætti gríðarlegu magni af fosfóri út í andrúmsloftið og megnið af því endaði í hafinu. Þörungar vita ekkert betra en fosfór og þörungabúskapurinn náði hæstu hæðum. Þetta gekk nærri súrefnisbirgðum hafsins. Þegar allt þetta lífræna efni varð dauða og rotnun að bráð fylltist hafið af brennisteinstvíildi. Þessar hamfarir útrýmdu flestum (96 prósent) sjávardýrategunda og í dag þekkjum við þær eingöngu af steingervingum, í mesta lagi.

Allar fjöldaútrýmingar hafa tengst breytingum í hafinu, beint eða óbeint. Sérstakar aðstæður gætu hafa komið ferlinu af stað, svo sem gríðarlegt eldgos eða kuldaskeið. Mestu hamfarirnar stafa þó af laumulegum og hæggengum ferlum sem Hollywood mun aldrei gera neinar kvikmyndir um. Afleiðingin er breyting á hitastigi sjávar, sýrustigi, súrefnismettun og magni koltvísýrings eða fosfórs. Það sem við vitum er að hitastigið eykst hraðar í dag en á meðan stærsta fjöldaútrýming á jörðu stóð yfir. Vísindamenn sjá að súrefnismagnið í hafinu minnkar, vegna „jarðræktar“ okkar og vegna þess að hlý höf binda minna súrefni en köld höf. Er ég þá að halda því fram að við stöndum frammi fyrir nýrri fjöldaútrýmingu? Nei, það er eru mörg hundruð vísindamanna í fremstu röð sem halda því fram.

Atvik verða sjaldan með alveg nákvæmlega sama hætti. En efnafræðileg viðbrögð stjórnast af lögmálum, ekki duttlungum eða ímyndunum. Þegar efnasamsetningin í andrúmsloftinu og í hafinu breytist mun það hafa miklar og fyrirsjáanlegar afleiðingar fyrir lífið á jörðinni eins og við þekkjum það í dag. Þau lífsform sem hafa aðlagast núverandi loftslagi og efnajafnvægi eru sköpuð fyrir nákvæmlega þessi skilyrði, en þeim er ekki eiginlegt að lifa þegar forsendurnar breytast umtalsvert.

Vísindin gefa lítið tilefni til bjartsýni. Jafnvel þótt við steinhættum tafarlaust að menga andrúmsloftið (sem er fræðilegur möguleiki), myndi það ekki stöðva ferlið sem hlýnun af mannavöldum hefur komið af stað. Kolefnishringrásin á milli lofts, hafs og jarðar myndi halda áfram. Ef það yrði skyndilega mun minni koltvísýringur í andrúmsloftinu myndi hafið skila af sér miklu magni af koltvísýringi til að laga sig að aðstæðunum. Vegna slíkra innbyggðra viðbragða munu mengandi áhrif okkar vera virk langt inn í framtíð sem við höfum enga yfirsýn yfir.

Jarðfræðingar, jöklafræðingar og loftslagsfræðingar, hafa kennt okkur heilmikið um forsögu jarðarinnar. Við vitum að áður fyrr hefur verið mun meira magn af koltvísýringi á jörðinni en nú er. Mun heitara, mun kaldara eða að yfirborð sjávar hafi verið 30 metrum hærra en nú. En það er engin huggun af því að þá mun jörðin heldur ekki hafa verið lífvænleg fyrir okkur. Stórtækar loftslagsbreytingar hafa margsinnis valdið fjöldaútrýmingu. Þá hefur flestu verið útrýmt, nema allra harðgerðustu tegundunum. Það bendir því miður fátt til þess að við séum slíkur útvalinn hópur, þrátt fyrir alla okkar háþróuðu tækni.

Andstætt flestum öðrum lifandi skepnum jarðarinnar getum við ekki lifað í hafinu. En við getum heldur ekki lifað án þess.

(Þýðing úr norsku: Halla Kjartansdóttir)

 

Sýningin var áður í Oseana Kunst- og Kultursenter í Noregi.

Sýningin hefur hlotið styrk frá:

Uppbyggingarsjóði Suðurlands

Norska Sendiráðinu á Íslandi

Norsk Kulturfond.

 

 
 
 
 
 
 
 
 
 

 

Getum við bætt efni síðunnar?