Leikskólinn Undraland

Þelamörk 62
810 Hveragerði
Sími: 483 4234

Leikskólastjóri: Anna Erla Valdimarsdóttir
Aðstoðarleikskólastjóri: Jónína Þórarinsdóttir.
Netfang: undraland@hveragerdi.is
Heimasíða

Leikskólinn Undraland var tekinn í notkun í september 1982 með tveimur aldursskiptum deildum. Í desember 1997 var þriðja deildin opnuð. Leikskólinn er rekinn af Hveragerðisbæ en Sveitarfélagið Ölfus hefur aðgang að leikskólaplássum skv. samningi.

Stefnur leikskólans.

Námskrá leikskólans Undralands mótast af þeim áherslum sem lagðar eru í Aðalnámskrá leikskóla. Leikskólinn leggur áherslu á náttúruna og umhverfið. Umhverfismennt tengist í alla námsþætti leikskólans.

Sú hugmyndafræði sem liggur að baki markmiðum Undralands eru kenningar Bandaríska heimspekingsins John Dewey. Hann taldi reynslu vera undanfara menntunar og uppsprettu þeirra spurninga sem nám byggir á. Athafnaþörf barnsins þarf því að virkja og það lærir af eigin reynslu og virkni. Skapa þarf örvandi uppeldisumhverfi og hafa aðgengilegan efnivið. Kennarinn hvetur barnið, spyr opinna spurninga og leiðir það áfram til eigin niðurstöðu.

Markmið leikskólans

Í leikskólanum er lögð áhersla á að efla félagsfærni og styrkja sjálfsmynd barnanna. Ennfremur að finna leiðir til að skapa umhverfi og aðstæður sem virkja sköpunargleði, stuðla að góðu félagslegu andrúmslofti í vel skipulögðu umhverfi svo börn og starfsfólk fái notið sín.

Stefnur í starfi Undralands.

Námsskrá leikskólans mótast af þeim áherslum sem lagðar eru í Aðalnámsskrá leikskóla. Við leitumst við að hafa uppeldisstefnu John Dewey að leiðarljósi. Bandaríski heimspekingurinn John Dewey er best þekktur fyrir kenningar sínar um menntun og skólastarf. Í kennigum hans er unnið út frá því að reynsla sé undanfari menntunar og uppspretta þeirra spurninga sem nám byggir á, þ.e. að barnið læri af eigin reynslu og virkni. Nám barnsins á að vera ein heild, en reynsla, tilraunir, hæfileikinn til að meta og samvinna styrkja og efla barnið í þekkingarleit sinni. Skapa þarf barninu örvandi uppeldisumhverfi með sýnilegum og aðgengilegum efniviði. Kennarinn hvetur barnið, spyr opinna spurninga og leiðir það áfram til eigin niðurstöðu. Lögð er áhersla á að hvetja barnið til virkrar og skapandi hugsunar. Með alhliða þjálfun skynjunar og tilfinninga eykst sjálfsvitund og trú á eigin getu. Leikurinn er aðalnámsleið leikskólabarnsins. Í gegnum leikinn fær barnið tækifæri til að tjá reynsluheim sinn og kynnast reynslu annara. Námsvið samkvæmt Aðalnámskrá fléttast saman við frjálsan leik og mynda samfellu í leikskóladegi barnsins.Lagður er metnaður í gott samstarf leik og grunnskóla. Gott samstarf leiðir af sér öruggari nemendur þegar þau flytjast á milli skólastiga. Félagsfærni elstu nemendanna er efld með lífsleikniæfingum og grunnurinn að komandi lestrar og stærðfræðinámi er lagður.

Í leikskólanum er unnið markvisst eftir kennsluaðferðum Leikur að læra. Aðferðirnar ganga út á að kenna börnum “bókleg fög“, s.s. stærðfræði, íslensku, liti og form í gegnum leik og hreyfingu á faglegan, skemmtilegan og árangursríkan hátt. Hreyfing er manninum eðlislæg og öll skynhreyfireynsla hefur áhrif á hæfileikann til að varðveita nýja þekkingu eða kunnáttu og endurkalla hana. Kennsluaðferðirnar virka því mjög vel fyrir börn á leikskólaaldri þar sem hreyfiþörf þeirra er mjög mikil.

Nánar má lesa um leikskólann í Skólanámskrá skólans.

Leikskólinn Undraland er opinn frá kl. 7:30-17:00.