Mun beiðni um viðræður verða samþykkt ?

skrifað 20. nóv 2019
froststilla

Bæjarstjórn hefur lýst yfir vilja til viðræðna við sveitarfélagið Ölfus um sameiningu þessara sveitarfélaga enda komi bæjarfulltrúar bæjarstjórnanna beggja að þeim viðræðum af fullum heilindum og af ríkum áhuga fyrir sameinuðu svæði hér í vesturhluta Árnessýslu.


Á fundi bæjarstjórnar Hveragerðisbæjar þann 14. nóvember s.l. var tekið til afgreiðslu bréf frá Sveitarfélaginu Árborg þar sem óskað er eftir afstöðu sveitarstjórna í Árnessýslu til sameiningar sveitarfélaga eða viðræðna þar að lútandi. Nokkrar umræður urðu um málið en samhljóða afgreiðsla allra bæjarfulltrúa á erindiu var svohljóðandi:

"Bæjarstjórn telur ljóst að með höfnun flestra sveitarfélaga í Árnessýslu á umleitan bæjarráðs Árborgar muni ekki verða af sameiningarviðræðum þessara sveitarfélaga og hafnar því erindi Árborgar.

Bæjarstjórn vill aftur á móti lýsa yfir vilja sínum til viðræðna við sveitarfélagið Ölfus um sameiningu þessara sveitarfélaga enda komi bæjarfulltrúar bæjarstjórnanna beggja að þeim viðræðum af fullum heilindum og af ríkum áhuga fyrir sameinuðu svæði hér í vesturhluta Árnessýslu.

Með sameiningu Hveragerðisbæjar og Sveitarfélagsins Ölfuss myndi verða til tæplega 5.000 manna öflugt sveitarfélag í örum vexti, ríkt af náttúruauðlindum og fjölbreyttri atvinnustarfsemi. Slíkt sveitarfélag myndi verða með skriðþunga og kraft sem eftir yrði tekið. Meðgjöf Jöfnunarsjóðs með sameiningu þessara tveggja sveitarfélaga yrði ríflega 820 milljónir króna sem létta myndi róðurinn við uppbyggingu nýs sveitarfélags.

Rétt er að minna á að í íbúakosningu sem fram fór samhliða sveitarstjórnarkosningum árið 2014 hér í Hveragerði varð sameining við Ölfus hlutskörpust af þeim valkostum sem í boði voru þegar íbúar voru spurðir um vilja til sameiningar við önnur sveitarfélög. Í framhaldinu var sú niðurstaða send til bæjarstjórnar Ölfuss með beiðni um viðræður um sameiningu. Niðurstaða rafrænnar íbúakosningar í Ölfusi sem haldin var í kjölfarið sýndi því miður að sú ást var ekki endurgoldin. Þrátt fyrir þá niðurstöðu þykir bæjarstjórn rétt að láta reyna á vilja nágranna okkar til sameiningar nú í ljósi nýrra forsendna."

Ofangreind afgreiðsla bæjarstjórnar hefur verið send bæjarstjórn Sveitarfélagsins Ölfuss með þeim skilaboðum að vonast er til að vel verði tekið í óskina um að hefja viðræður um sameiningu sveitarfélaganna tveggja hið fyrsta.

Aldís Hafsteinsdóttir
Bæjarstjóri.

Meðfylgjandi mynd var tekin af bæjarstjóranum á fallegum vetrardegi hér í Hveragerði.