Útgáfuhátíð LÍFSVERKS í Skálholti þ. 14. desember

skrifað 11. des 2019
byrjar 14. des 2019
 
Lífsverk - þrettán kirkju

Ámundi Jónsson snikkari í Syðra-Langholti – Ný bók og sýning um lífsverk listamanns á 18. öld.

Þann 1. desember sl. kom út bókin LÍFSVERK – Þrettán kirkjur Ámunda Jónssonar eftir Guðrúnu Arndísi Tryggvadóttur og um leið opnaði Guðrún samnefnda sýningu í Hallgrímskirkju. Nú verður útgáfunni fagnað í Skálholti.Guðrún flytur erindi um hvað það var sem vakti áhuga hennar á sögu Ámunda Jónssonar en Arndís S. Árnadóttir, sem er höfundar sagnfræðilegrar rannsóknar bókarinnar segir frá því hvernig hún fór að því að rannsaka lífsferil alþýðumanns frá 18. öld. Að lokum opnar Guðrún sýningu á öllum þrjátíu vatnslitaverkum sínum úr bókinni en sýningin mun standa til loka janúar í skólahúsinu í Skálholti.

Dagskrá:

Kl. 14:00 Guðrún Arndís Tryggvadóttir - Af hverju Ámundi?
Kl. 14:30 Arndís S. Árnadóttir - Hvernig fer maður að því að rannsaka lífsferil alþýðumanns frá 18. öld ?

Kl. 15:00 Leitað að sögunni með pensli- Sýning opnuð á verkum Guðrúnar í bókinni.
Kl. 15:15 Kaffi í veitingastaðnum í skólanum

Ámundi Jónsson nefndur „snikkari“ fæddist í Vatnsdal undir Þríhyrning árið 1738 og ólst upp í Steinum undir Eyjafjöllum. Hann var síðast búsettur í Syðra-Langholti en hann keypti einmitt jörðina þegar Skálholt setti jarðir sínar á sölu árið 1792. Ýmislegt annað tengir hann við Skálholt. Hann byggði þrettán kirkjur á Suðurlandi og skreytti þær með skurðverki og máluðum gripum s.s. altaristöflum, predikunarstólum. Gripi eftir Ámunda Jónsson er að finna í sex kirkjum á Suðurlandi enn þann dag í dag en hann gerði t.d. altaristöfluna í Keldnakirkju, Kálfholtskirkju og Gaulverjabæjarkirkju, skírnarfontinn í Odda, altari í Krosskirkju og predikunarstólinn í Mosfellskirkju. Fleiri gripir eru varðveittir í Þjóðminjasafninu. Öll þekkt verk Ámunda eru í bókinni.