Tilkynning frá ON

skrifað 09. jún 2019
byrjar 23. jún 2019
 

Tilkynning frá ON

í byrjun næstu viku verða nokkrar breytingar á niðurdælingu.

Niðurdæling í holur HE-10 og HE-35 mun hefjast eftir helgi. Niðurdælingin er í tilraunskyni og er liður í áætlun Orku náttúrunnar í breytingum á niðurdælingu Hellisheiðarvirkjunar. Niðurdælingin er innan gildissviðs regla OS-2016-R01-01 um viðbúnað og viðbrögð við jarðskjálftavá vegna losunar vökva í jörðu um borholur. Niðurstaða frummats á jarðskjálftavirkni var að „hætta á finnanlegri skjálftavirkni er óveruleg" (sjá viðhengi). Í þetta sinn var sú breyting höfð á að frummatið var gert fyrir stærra svæði en bara holurnar sem tilkynntar eru hér og innihalda mögulegar framtíðar niðurdælingarholur. Þetta var gert til að geta staðsett nýjar niðurdælingarholur á svæðum þar sem skjálftavirkni er talin ólíkleg. Samkvæmt verklagi okkar um niðurdælingu og reglum Orkustofnunar um viðbúnað og viðbrögð við jarðskjálftavá vegna losunar vökva í jörðu um borholur er haft samband við hagmunaaðila til að upplýsa um niðurstöður úr frummati og/eða þegar um stærri breytingar á niðurdælingu er að ræða.

Auk þessa hefst niðurdæling í Gráuhnúkum á ný í byrjun næstu viku, en niðurdælingin var stöðvuð tímabundið vegna viðhalds. Í kjölfarið verður niðurdæling í HE-55 hafin á ný, en niðurdæling hófst þar í tilraunaskyni í desember síðastliðnum og stóð þá yfir í nokkra daga.

Unnið er eftir verklagi Orku náttúrunnar um gangsetningu niðurdælingarholu þar sem rennsli í niðurdælingarholurnar er aukið í skrefum. Staðbundið jarðskjálftanet er á virkjanasvæðinu til að fylgjast með hugsanlegum jarðskjálftum.

Ekki hika við að hafa samband ef þið hafið einhverjar spurningar.

Kær kveðja,
Vala Hjörleifsdóttir
Sérfræðingur í skjálftarannsóknum
Auðlindarannsóknir og tækniþróun samstæðu / Þróun