1.750.000,- til Birtu landssamtaka frá börnum Hveragerðisbæjar

skrifað 18. des 2018
Gabríela Birta og Daniel Hrafn afhentu gjöfina.  Nemendur ákváðu sjálfir hvaða málefni yrði styrkt.

Afrakstur fjölsótts góðgerðardags þar sem börn og ungmenni seldu ýmsar vörur til styrktar Birtu Landssamtökum foreldra sem misst hafa börn sín var afhentur forsvarsmönnum félagsins á opnum gangasöng þann 17. desember. Sjaldan eða aldrei hafa fleiri mætt á góðgerðardaginn og má með sanni segja að börn og ungmenni Hveragerðisbæjar hafi sýnt einstakan dugnað og framtakssemi sem án vafa á eftir að verða unga fólkinu okkar dýrmæt reynsla þegar fram líða stundir.


Fréttatilkynning frá Grunnskólanum í Hveragerði:

Mánudaginn 17. desember var haldinn árlegur opinn gangasöngur hjá Grunnskólanum í Hveragerði sem heppnaðist afar vel. Nemendur og starfsfólk skólans kom saman og söng inn jólin ásamt gestum og gangandi. Á sama tíma var afhentur styrkur sem safnast hafði eftir góðgerðardag skólans 30. nóvember síðastliðinn en þá seldu nemendur ýmsar afurðir sem unnar höfðu verið í skólanum. Nemendur völdu þetta árið að styrkja landssamtökin Birtu. Tilgangur samtakanna er að standa fyrir fræðslu og ýmsum viðburðum á landsvísu fyrir syrgjandi foreldra og fjölskyldur þeirra. Þá hafa samtökin einnig staðið fyrir árlegum hvíldardögum fyrir foreldra með endurnærandi hvíld að leiðarljósi.

Gabríela Birta Kristjönudóttir, formaður nemendafélagsins, og Daníel Hrafn Fannarsson, yngsti nemandi skólans (sem verður 6 ára 19. desember), afhentu Helenu Rós Sigmarsdóttur og Elínu Björgu Birgisdóttur frá Birtu táknrænt skjal fyrir millifærslu upp á 1.750.000 krónur til samtakanna. Grunnskólinn í Hveragerði vill þakka öllum þeim sem mættu á opna gangasönginn kærlega fyrir komuna, sem og þeim sem studdu við nemendur í tengslum við góðgerðardaginn. Sérstakar þakkir fá þau fjölmörgu fyrirtæki sem studdu við verkefnið með styrkjum og gjöfum.

Afhending Birta 2Afhending til BirtuOpinn gangasöngur 1opinn_gangasongur2018Veitingar í boði