Tryggjum öryggi barna í umferðinni

skrifað 09. ágú 2018
Börn á leið í skóla

Foreldrar og forráðamenn barna eru hvattir til að nýta síðustu daga sumarfrísins til að finna öruggustu leiðina í skólann fyrir barn sitt og æfa sig á henni. Þó að barnið geti gengið eitt í skólann er nauðsynlegt að það fái fylgd fyrstu dagana undir góðri leiðsögn frá fullorðnum fyrirmyndum. Einfaldar reglur og hollráð til hinna ungu vegfarenda eru frábært veganesti til framtíðar auk þess sem gönguferðin sjálf getur verið skemmtileg gæðastund.


Samgöngustofa og Hveragerðisbær hafa gert með sér samkomulag þar sem komið yrði á samstarfi milli skóla Hveragerðisbæjar og Samgöngustofu hvað varðar umferðaröryggi. Samgöngustofa valdi Hveragerðisbæ í þetta verkefni ekki síst vegna vinnu bæjarfélagsins við umferðaröryggisáætlun sveitarfélagsins og almennan áhuga bæjaryfirvalda á umferðaröryggi í bænum.

Nú hefur þetta samstarf hafist en það felst í því að aðilar taka höndum saman næsta skólaár og efla umferðaröryggi leik- og grunnskólabarna í sveitarfélaginu.

Nú þegar hafa fulltrúar Samgöngustofu heimsótt leikskólabörn í Hveragerði. Eftirfarandi eru minnispunktar frá Samgöngustofa eftir heimsóknina í Leikskólann Undraland:

Við hittum þar áhugasama fulltrúa frá bæði Undralandi og Óskalandi og börn í elsta árgangi (fædd 2012) sem eru að hefja nám í grunnskólanum. Með börnunum fórum við m.a. yfir öryggi barna í bílum, hvernig fara eigi yfir götu og hvar öruggast sé að hjóla og leika sér úti. Þá var reiðhjólahjálmur skoðaður og börnunum kennt að stilla hann rétt á höfði. Í lok heimsóknarinnar horfðum við á myndina Felix finnur dýrin þar sem við fylgdumst með hvernig Felix gengur að fóta sig í umferðinni og fóru heim með bók sem þau skoða með foreldrum.

Það eru því vel upplýstir nemendur sem hefja skólagöngu í grunnskólanum í haust og gott að byggja á þeim grunni.

Ábending til foreldra og forráðamanna:

Það er tilvalið núna að hvetja foreldra til að nýta síðustu daga sumarfrísins til að finna öruggustu leiðina í skólann og æfa sig á henni. Þó að barnið geti gengið eitt í skólann er nauðsynlegt að það fái fylgd fyrstu dagana undir góðri leiðsögn frá fullorðnum fyrirmyndum. Einfaldar reglur og hollráð til hinna ungu vegfarenda eru frábært veganesti til framtíðar auk þess sem gönguferðin sjálf getur verið skemmtileg gæðastund.

Á fræðsluvef Samgöngustofu,http://www.umferd.is, má finna hagnýtt efni fyrir fólk á öllum aldri, þar á meðal tíu góð ráð til að styðjast við þegar skólaganga er að hefjast:

  • Æfum leiðina í og úr skóla með barninu
  • Veljum öruggustu leiðina í skólann – ekki stystu
  • Leggjum tímanlega af stað, ekki flýta sér
  • Setjum einfaldar og fáar reglur sem barnið á að fara eftir
  • Kennum barninu að fara yfir götu, með og án ljósastýringar
  • Verum sýnileg, notum endurskinsmerki
  • Notum hjólreiðahjálm, bæði börn og fullorðnir
  • Notum viðeigandi öryggisbúnað í bifreið, bæði börn og fullorðnir
  • Tökum tillit til annarra vegfarenda, sérstaklega í nánd við skóla
  • Förum eftir leiðbeiningum skólans um umferð á skólasvæðinu.

Öryggi barnanna okkar í umferðinni er samstarfsverkefni allra íbúa. Að því vinnum við öll saman !

Bæjarstjóri.