Styrkja þarf umgjörð landbúnaðar

skrifað 12. okt 2018
Garðyrkja hefur frá upphafi verið mikilvæg atvinnugrein í Hveragerði.

Landbúnaður á Íslandi og þar með garðyrkja á undir högg að sækja og líklega aldrei verið meiri þörf en einmitt í dag á sterkri og vel mannaðri skrifstofu landbúnaðarmála.


Áskorun frá stjórn Sambands garðyrkjubænda vegna fyrirhugaðra sameiningu skrifstofu matvæla og landbúnaðar við skrifstofu alþjóðamála undir stjórn skrifstofustjóra alþjóðaskrifstofunnar var tekin til umfjöllunar í bæjarráði Hveragerðisbæjar þann 4. október s.l..

Bæjarráð samþykkti eftirfarandi bókun vegna málsins og hefur henni verið komið á framfæri við hlutaðeigandi aðila:

Landbúnaður á Íslandi og þar með garðyrkja á undir högg að sækja og líklega aldrei verið meiri þörf en einmitt í dag á sterkri og vel mannaðri skrifstofu landbúnaðarmála sem til að mynda heldur utan um vinnu við að móta landbúnaðarstefnu stjórnvalda og greinir helstu vaxtarbrodda landbúnaðarins til framtíðar.

Bæjarráð tekur undir það sjónarmið sem fram kemur i bréfi Sambands garðyrkjubænda að nauðsynlegt sé að styrkja þekkingu og þá stjórnsýslulegu umgjörð sem landbúnaði er búin í Atvinnu- og nýsköpunarráðuneytinu og þarf sú vinna að hefjast án tafar.

Landbúnaðarháskóli Íslands (LBHÍ) hefur af ýmsum ástæðum ekki haft næga burði til að sinna næginlega rannsóknar- og nýsköpunarverkefnum í landbúnaði og þar með garðyrkju og er það miður. Á meðan landbúnaðurinn þiggur háar fjárhæðir til starfsemi sinnar frá ríkinu er augljóst að stefnumótun og stefnumörkun í greininni þarf að fara fram innan ráðuneytisins, í náinni samvinnu við alla hagaðila.