Orkusalan gefur hleðslustöð fyrir rafbíla

skrifað 03. jan 2017
Frá afhendingu stöðvarinnar.

Orkusalan hefur fært Hveragerðisbæ hleðslustöð fyrir rafbíla að gjöf en bæjarstjóri hefur þegar tekið við gjöfinni fyrir hönd sveitarfélagsins.

Orkusalan hefur ákveðið að gefa öllum sveitarfélögum landsins hleðslustöðvar sem þessa. Með átakinu vill fyrirtækið auðvelda rafbílaeigendum að komast leiðar sinnar hringinn í kringum landið en Ísland er í lykilstöðu til að leiða rafbílavæðingu heimsins og vill Orkusalan leggja sitt af mörkum með samfélagslega ábyrgð að leiðarljósi.

Á fundi bæjarráðs þann 1. desember var Orkusölunni þökkuð gjöfin og það frumkvæði sem fyrirtækið sýnir með því að gefa öllum sveitarfélögum landsins hleðslustöð fyrir rafbíla. Bæjarráð telur að stöðin muni nýtast best við Verslunarmiðstöðina Sunnumörk og leggur til að henni verði fundinn staður við húsið að norðanverðu. Bæjarráð fól umhverfisfulltrúa uppsetningu stöðvarinnar í samvinnu við stjórnendur húsfélags Sunnumerkur.

Á myndinni má sjá fulltrúa Orkusölunnar afhenda bæjarstjóra hleðslustöðina.