Hekla Björt íþróttamaður Hveragerðis

skrifað 29. des 2016
Hekla Björt var kjörin íþróttamaður Hveragerðis 2016

Hin unga og efnilega fimleikakona, Hekla Björt Birkisdóttir, var kjörin íþróttamaður ársins í hófi menningar, íþrótta og frístundanefnar Hveragerðisbæjar.

Hekla Björt var Íslands- og deildarmeistari í fullorðinsflokki í hópfimleikum, með blönduðu liði Selfoss. Hún var valin í landslið U18 ára blandað lið Íslands í hópfimleikum sem tók þátt í mjög sterku Evrópumóti í Slóveníu og lenti liðið í 3. sæti. Hún var lykilmaður í liði Íslands og keppti á öllum áhöldum.

Hekla Björt hefur stundað fimleika hjá fimleikadeild Selfoss í nokkur ár, en áður var hún í fimleikadeild Hamars. Hekla Björt hefur tekið miklum framförum í greininni síðustu ár og er orðin ein af fremstu fimleikakonum landsins.

Að þessu sinni voru 15 íþróttamenn heiðraðir en þeir hafa sýnt mikinn metnað til að ná langt í sinni íþróttagrein og eru svo sannarlega góð fyrirmynd fyrir bæinn og yngri íþróttamenn.

Eftirfarandi íþróttamenn voru í kjöri:

 • Ágúst Örlaugur Magnússon knattspyrnumaður
 • Björn Ásgeir Ásgeirsson körfuknattleiksmaður
 • Dagný Lísa Davíðsdóttir körfuknattleikskona
 • Fannar Ingi Steingrímsson golfari
 • Hafsteinn Valdimarsson blakmaður
 • Hekla Björt Birkisdóttir fimleikakona
 • Hrund Guðmundsdóttir badmintonkona
 • Kristján Valdimarsson blakmaður
 • Kristrún Rut Antonsdóttir knattspyrnukona
 • Matthías Abel Einarsson lyftingamaður
 • Úlfar Jón Andrésson íshokkímaður

Einnig fengu þeir viðurkenningu sem hafa hlotið Íslands- og bikarmeistaratitla á árinu.

LJósmyndari: Guðmundur Erlingsson

15 íþróttamenn fengu viðurkenningu fyrir afrek ársins 2016Friðrik Sigurbjörnsson formaður míf nefndar afhenti íþróttamönnunum viðurkenningarAldís Hafsteinsdóttir bæjarstjóri og Hjalti Helgason formaður íþr.félagsins Hamars undirrituðu þjónustusamning. Hveragerðisbær hefur stutt dyggilega við bakið á íþróttafélaginu Hamri, sem og öðrum félögum í bænum.Lóurnar, þær Elín Gunnlaugs, Halla Dröfn, Kolbrún Hulda, Halla Marínós, Elísabet og Halldóra sungu í athöfninni.