Árgangur 1950 er orðinn fjölmennastur

skrifað 02. jan 2018
Vetur í Drullusundinu

Elstur Hvergerðinga er Friðrik Marteinsson sem fæddur er árið 1921 og verður hann 97 ára í nóvember 2018. Næst elst er Fjóla Ólafsdóttir sem fædd er ári síðar eða 1922 en þriðji elsti Hvergerðingurinn er Guðjón Kr. Pálsson sem fæddur er árið 1924. Fimmtán Hvergerðingar eru komir yfir nírætt.


Bæjarstjóri hefur haft það fyrir sið að um áramót eru teknar saman upplýsingar er varðar íbúasamsetningu bæjarins okkar. Er engin undantekning gerð frá því í ár en nú hafa orðið eftirtektarverðar breytingar!

Fjölmennasta árgangi bæjarins sem í nokkuð mörg ár hefur verið fæddur árið 1989 hefur nú verið velt úr sessi af hópnum sem fæddur er árið 1950 og búa hér nú jafnmargir í þessum tveimur árgöngum eða 47 manns. Hefur fólki sem fætt er árið 1950 fjölgaði um þrjá frá fyrra ári en þeim sem fædd eru 1989 hefur aftur á móti fækkað um einn. Þeir árgangar sem næstir koma eru fæddir 1957 og 1964 en 43 í hvorum árgangi eru búandi hér í Hveragerði. Þar á eftir er svo fólk fætt 1951 og 1996 með 41 einstakling í hverjum árgangi.

Árið 2017 fæddust hér í bæ 19 börn sem er óvanalega lítið en til samanburðar má geta þess að árið 2016 fæddust hér í bæ 28 börn. Hafa öll þessu börn verið boðin velkomin með gjöf frá bæjarfélaginu sínu. Er full ástæða til að hvetja alla til dáða í þessum efnum !

Samkvæmt óstaðfestum upplýsingum úr þjóðskrá þann 1 janúar 2017 eru íbúar í Hveragerði nú 2.564 en þeir voru 2.483 fyrir 12 mánuðum. Er þetta aukning um 81 íbúa eða 3,3% sem er langt umfram landsmeðaltal. Væntanlega má gera ráð fyrir enn meiri fjölgun íbúa á árinu sem nú er gengið í garð en þegar hafa verið lögð fram byggingaráform fyrir um 179 íbúðir en þar eru meðtaldar þær íbúðir sem ráðgert er að reisa á Eden reitnum (77).

Það er afar ánægjulegt að fólk víða að skuli sjá Hveragerði sem ákjósanlega búsetukost og ekki síður er ánægjulegt að finna að þeim sem hingað flytja líkar vel og eru ánægðir með að hafa bæst í hóp Hvergerðinga.

Í lok þessa árlega pistils vil ég senda ykkur öllum mínar bestu kveðjur og óskir um gleðilegt og farsælt nýtt ár um leið og þakkað er fyrir góðar samverustundir og ánægjulega samvinnu á liðnum árum.

Aldís Hafsteinsdóttir
Bæjarstjóri

Myndin sem fylgir er tekin af bæjarstjóra í Drullusundinu á fallegum degi síðastliðinn vetur.