1.316.000,- til Barnaspítala Hringsins

skrifað 23. des 2017
Gígja og Tryggvi Hrafn afhentu stjórnarkonum Hringsins upphæðina sem safnaðist

Börn og ungmenni í grunnskólanum hér í Hveragerði afhentu stjórnarkonum í Kvenfélaginu Hringnum kr. 1.316.000,- í hinum árlega opna gangasöng sem haldinn var nýverið.

Við getum verið afskaplega stolt af ungu kynslóðinni okkar, og starfsmönnum grunnskólans sem með dugnaði, frumkvæði og mikilli gleði stóðu fyrir gríðarlega vel heppnuðum góðgerðardegi þar sem alls konar handverk og veitingar voru til sölu. Var slegist um vörurnar enda er afrakstur dagsins í takt við það.

Það er fátt dýrmætara en gott skólastarf og mannvænleg ungmenni og þar eigum við Hvergerðingar stóran fjársjóð.

Kærar þakkir til ykkar allra !


Eftirfarandi er af heimasíðu grunnskólans:

Það er alltaf hátíðleg stund þegar nemendur koma saman og syngja inn jólin ásamt gestum og gangandi. Í ár voru heiðursgestirnir stjórn Hringsins, en félagið hefur það markmið að vinna að líknar- og mannúðarmálum, sérstaklega í þágu barna. Aðalverkefni félagsins um áratugaskeið hefur verið uppbygging Barnaspítala Hringsins. Nemendur skólans héldu góðgerðardag þann 1. desember síðastliðinn og seldu ýmsar afurðir sem unnar höfðu verið á góðgerðardögum skólans. Í dag var svo komið að því að afhenda upphæðina sem hafði safnast.

Gígja Marín Þorsteinsdóttir formaður nemendafélags GíH og Tryggvi Hrafn H. Tryggvason yngsti nemandi skólans (sem verður 6 ára 30. des) afhentu Sonju Egilsdóttur formanni Hringsins táknrænt skjal fyrir millifærslu upp á 1.316.000 kr. til Barnaspítalans.

Mikill fjöldi fólks mætti á þessa stund og undir lokin var tekið hressilega undir jólalögin sem sungin voru.

Við þökkum öllum þeim sem mættu í morgun kærlega fyrir komuna, sem og þeim sem studdu okkur í tengslum við góðgerðardaginn.

Myndirnar frá góðgerðardeginum eru teknar af bæjarstjóra.

Opinn gangasöngurIMG_3397IMG_3384IMG_3387IMG_3395IMG_3399IMG_3400IMG_3408IMG_3389IMG_3392IMG_3394IMG_3419