Áhugaverðir staðir

Í Hveragerði er fjölmargt fróðlegt og skemmtilegt að sjá og geta gestir bæjarins auðveldlega dvalið í bænum bæði í lengri og skemmri tíma og ávallt séð eitthvað nýtt.

Einstakar gönguleiðir

Gönguleiðirnar í og við bæinn eru frægar langt út fyrir landsteinana en þeirra frægust er gangan inn í heita lækinn í Reykjadal. Skemmtileg ganga sem er á allra færi og endar í ljúfu baði í heita læknum. Upplýsingar um gönguleiðir má finna hér

Söguskilti

Frá afhjúpun skiltis um Skáldagötuna en þar bjuggu á árum áður fjölmörg skáld og listamenn. Fjölmörg söguskilti hafa verið sett upp víðs vegar um Hveragerði og gera þau grein fyrir sögu og menningu byggðarlagsins. Gestir okkar eru hvattir til að ganga á milli söguskilta og fá þannig glögga mynd af sérstakri sögu Hveragerðis.

Listamannabærinn Hveragerði - fyrstu árin!

Listamönnunum sem bjuggu í Hveragerði í árdaga byggðar eru gerð góð skil á sýningunni. Sýningin „Listamannabærinn Hveragerði - fyrstu árin“ var lengi vel staðsett í verslunarmiðstöðinni Sunnumörk en leitar nú að nýjum sýningarstað.

Á sýningunni er leitast er við að draga upp mynd af tilurð skáldanýlendunnar í Hveragerði upp úr 1940 þar sem sex einstaklingar voru kannski mest áberandi.  Nútíminn kallast skemmtilega á við fortíðina en nokkrir valinkunnir Hvergerðingar fjalla um skáldin á sýningunni og velja brot úr verkum þeirra. 

Reynt er að varpa ljósi á hvað varð til þess að svo mörg skáld fluttu til Hveragerðis upp úr 1940 og hvernig fjölskyldur þeirra bjuggu á þessum tíma. Skáldin og verk þeirra eru síðan tekin sérstaklega fyrir og lífsverki þeirra gerð skil. Skáldin sem fluttu til Hveragerðis hernámsárið 1940 og næstu árin á eftir eygðu von um betri og hagkvæmari kjör og aðbúnað en þau lifðu við á kreppuárunum fyrir stríð. Fréttir bárust um ódýra hitun í húsum og að matseld færi jafnvel fram í hverunum sjálfum. Fyrstir fluttu Jóhannes úr Kötlum með fjölskyldu sína í október 1940 og Kristmann Guðmundsson í febrúar 1941. Báðar fjölskyldurnar höfðu misst húsnæði sitt í Reykjavík.  Önnur skáld sem tekin eru sérstaklega fyrir á sýningunni eru Gunnar Benediktsson og kona hans Valdís Halldórsdóttir, séra Helgi Sveinsson og Kristján frá Djúpalæk. 

Áhugasamir eru hvattir til að kynna sér starf Listvinafélagsins á  heimasíðu félagsins þar sem einnig má finna upplýsingar um staðsetningu sýningarinnar.

Listasafn Árnesinga

Listasafn Árnesinga, Austurmörk 21, Hveragerði Listasafn Árnesinga er staðsett við Austurmörk 21. Leið 51 og 52 hjá Strætó stoppa skammt frá safninu. Allar upplýsingar um safnið, sýningar og opnunartíma, má finna á heimasíðu þess. Listasafn Árnesinga er framsækið listasafn sem setur árlega upp fjölda metnaðarfullra sýninga. Listasafn Árnesinga

Hverahvammur - Stigagil

Þegar farin er Breiðumörk í átt að dalnum norðan Hamars liggur malarvegur til hægri á móts við Laufskóga. Hann liggur niður í Hverahvamm á bakka Varmár. Þar er mikil hveravirkni enda hvammurinn á sömu jarðhitasprungu og Hverasvæðið í miðjum bænum. Við efri lóðarmörk Hverahvamms liggur stígur til vinstri að göngubrú yfir Varmá. Brúin tengir lönd Hveragerðis og Reykja í Ölfusi. Neðan göngubrúarinnar eru margir hverir, bæði vatns- og leirhverir, í og við ána. Bakteríur og þörungar setja svip sinn á svæðið með ýmsum litaafbrigðum. Hveravatn þarna og víðar hita Varmá og af því er nafn hennar komið. Örskammt ofar með ánni Reykjameginn var Baðstofuhver sem sagt er frá í "Lýsingu Ölfushrepps" frá 1703. Skömmu fyrir aldamótin 1800 gaus hann á fimm mínútna fresti og náðu gosin 7-15 m hæð. Hann er nú útkulnaður.

Ef gengið er áfram eftir göngustígnum upp með Varmá er komið að Stigagili sem nær frá ánni og upp í Reykjafjall. Í og við Stigagil er jarðhiti, borholur og mannvirki þeim tengd. Frá gufuskiljunni er að stutt að ganga að Reykjum í Ölfusi sem var höfuðból til forna. Á Reykjum var heilsuhæli fyrir berklasjúklinga árin 1931-1938 og frá ársbyrjun 1939 hefur Garðyrkjuskóli ríkisins verið starfræktur þar.

Fossflötin - minjar um mannvirki

Meðfram Varmárgili er  falleg gönguleið þar sem meðal annars má sjá rústir fyrstu og einu rafstöðvar í Hveragerði. Fossflötin markast af Breiðumörk, Skólamörk og Varmá. Ræktun skrúðgarðs hófst þar árið 1986 og er þar nú fallegur garður með leiksvæði, bekkjum og borðum sem ferðamenn geta nýtt sér til útivistar. Á bakka Varmár neðan við Reykjafoss má sjá leifar af gömlum húsgrunni. Grunnurinn markar upphaf byggðar í Hveragerði því þar var ullarverksmiðja sem reist var árið 1902 og nýtti fallorku fossins. Innar í Varmárgilinu eru uppistandandi veggir rafstöðvar sem gerð var árið 1929. Þaðan má rekja undirstöður fallstokksins að heillegri stíflunni neðan Hverahvamms. Í gilinu eru hinar fegurstu litasamsetningar og hveralandslag sem enginn ætti að láta fram hjá sér fara.

Hveragerðiskirkja

Hveragerðiskirkja gnæfir yfri byggðina og Hveragarðinní miðbænum. Hveragerðiskirkja stendur á Sandhóli og gnæfir tignarleg yfir bæinn. Jörundur Pálsson arkitekt við embætti Húsameistara ríkisins teiknaði kirkjuna. Bygging hennar hófst í júlí 1967 og byggingameistari var Jón Guðmundsson í Hveragerði. Heildargólfflötur er 460 m² og mesta lofthæð er 14 m.

31. maí 1971 var safnaðarheimili vígt af Sigurbirni Einarssyni, biskupi Íslands og þann 14. maí 1972 var kirkjan sjálf vígð af Sigurði Pálssyni vígslubiskupi.

Altarið er úr slípuðu grágrýti. Skírnarfonturinn er stuðlabergssúla. Steindur kórgluggi er verk Höllu Haraldsdóttur, glerlistakonu. Stílfærð Kristsmynd er uppistaðan myndarinnar, en litir og form vísa til jarðhita, gufu, blóma og gróanda umhverfisins. Efst tákna stjarna og kross birtu vonar og hinn helga kross, og að Hveragerði er á krossgötum í þjóðbraut. Halla gerði einnig glugga í safnaðarsal.

Krossaumað veggteppi er gert eftir frummynd úr Þjóðminjasafni og sýnir atburði úr Mósebókum. Ofin veggteppi í safnaðarsal eru gjöf frá vinabæ Hveragerðis, Tarp í Slésvík í Þýskalandi.

Bænaljósastjaki og tveir sex-ljósa stjakar í kór eru minningargjafir. Gunnsteinn Gíslason, myndlistarmaður hefur hannað alla stjakana.

Pípuorgelið er ítalskt, af Mascioni-gerð, 17 raddir.

Sunnan við kirkjuna er gott útsýni yfir Hverasvæðið í hjarta bæjarins. Kirkjan er tilvalinn staður til að skoða og upplifa í leiðinni þann frið og kærleik sem ætíð geislar frá guðshúsum.

Listaverkið Mýri

Listaverkið Mýri stendur á opnu svæði á vinstri hönd rétt eftir að komið er inn í bæinn framhjá Hótel Örk. Verkið er eftir listakonuna Steinunni Þórarinsdóttur og tengist Íslandssögunni bæði í fortíð og nútíð. Á verkinu eru ýmsir fundnir hlutir og hlutir sem listakonan hefur búið til sjálf. Hugmyndafræðin er sú að láta söguna sökkva ofan í mýrina. Steinunn gaf bænum listaverkið árið 1996 í tilefni af 50 ára afmæli Hveragerðis. Verkið er úr Corten stáli og rúmlega 10 fermetrar að flatarmáli. Hægt er að ganga að verkinu og skoða það nánar en ryðið í sínum jarðlit fer vel við gróandann í kring.

Skjálftinn 2008, sýning í Verslunarmiðstöðinni

Á sýningunni Skjálftinn 2008 má sjá hrunið eldhús, fara í jarðskjálftahermi og sjá með eigin augum afleiðingar jarðskjálftans 2008 á daglegt líf bæjarbúa.  Auk þess er stór jarðskjálftasprunga í gólfi sýningarsvæðisins sem vekur athygli á því sérstæða umhverfi sem hér er. Kl. 15:45 þann 29. maí 2008 varð öflugur jarðskjálfti suðaustur af Hveragerði. Stærð hans var 6,3 á Richterskvarða. Einhver slys urðu á fólki en engin alvarleg. Almannavarnir lýstu þegar yfir hæsta viðbúnaðarstigi í Hveragerði, á Selfossi og í nágrenni vegna hugsanlegra eftirskjálfta. Töluverðar skemmdir urðu á þeim svæðum sem næst lágu upptökunum einkum innandyra þegar húsgögn og aðrir lausamunir köstuðust til. Ummerki skjálftanna sjást víða á yfirborði jarðar. Skriður féllu úr fjallshlíðum og hveravirkni jókst. Sýnilegar sprungur mynduðust, flestar sprungurnar á Reykjafjalli.

Á sýningunni Skjálftinn 2008 má sjá hrunið eldhús, fara í jarðskjálftahermi og sjá með eigin augum afleiðingar jarðskjálftans 2008 á daglegt líf bæjarbúa.  Auk þess er stór jarðskjálftasprunga í gólfi sýningarsvæðisins sem vekur athygli á því sérstæða umhverfi sem hér er. Á sýningunni er gerð grein fyrir orsökum og afleiðingum jarðskjáftans í maí 2008 í Hveragerði. Á sýningunni má sjá reynslusögur íbúa, upplýsingar um áhrif skjálftans á hús, nánasta umhverfi og innbú bæjarbúa. Á sjónvarpsskjáum má sjá upptökur úr eftirlitsmyndavélum, ljósmyndir frá bæjarbúum og upplýsingar frá Jarðskjálftamiðstöð Háskóla Íslands. Hægt er að upplifa jarðskjálfta í jarðskjálftahermir sem er yfir 6 á richter. Jarðskjálftasprunga sem fannst við byggingu hússins 2003 er upplýst og á sýningunni. Aðgangur að sýningunni er ókeypis en greiða verður fyrir upplifun í jarðskjálftaherminn.

Grýla 

Grýla, þekktasti goshverinn í Hveragerði, er norðan Hamarsins á vinstri hönd rétt eftir að komið er inn í Ölfusdal. Grýla gaus allt upp í 15 m hæð á klukkustundar fresti þegar hún var upp á sitt besta. Vegna prentvillu (Þorvaldur Thoroddsen 1911) hefur Grýla stundum verið nefnd Grýta. Unnið hefur verið að því á síðustu misserum að sýna þessum gamla hver tilhlýðilega virðingu með því að fegra umhverfi hans. 

Leppalúði  

Leppalúði er óformlegt nafn á "goshver" sem er inni í Ölfusdal, við veginn á hægri hönd, rétt áður en komið er að brúnni yfir Varmá á leið að golfvellinum í Gufudal. Í raun er þetta grunn borhola sem áhugavert er að skoða því þar er sígos, þriggja til fjögra metra hátt. 

Sandhólshver  

Við horn Hverahlíðar og Þverhlíðar norðan kirkjunnnar er hver með sjóðandi vatni sem nefnist Sandhólshver. Hann er á sprungu sem liggur í gegnum Hverasvæðið og norður um Hverahvamm upp í Reykjafell. Sandhólshver myndaðist í Suðurlandsskjálftanum árið 1896 sem var um 6-7 stig á Richter. Áður var þar einungis lítið hveraauga en í umbrotunum varð hverinn til á einni nóttu og bar gufustrókinn eins hátt og Reykjafjall. Krafturinn var svo mikill að grjót og jarðvegur þeyttist tugi metra í loft upp og grastorfur flugu alla leið upp á Hamar. Hiti í honum miðjum er núna um 94°C en vatnsborð hans hefur lækkað síðustu árin. Sandhólshver var lengi notaður til hitunar fyrir nærliggjandi hús. Ofnar voru látnir ofan í heitt vatnið og rör frá þeim leidd til og frá húsunum. Þannig myndaðist lokuð hringrás, vatnið hitnaði í ofnunum, steig upp eftir rörunum og um miðstöðvarkerfi húsanna. Neysluvatn var líka leitt í gegnum ofn í hvernum til hitunar. Einnig var hveravatnið leitt eftir rörum í þar til gerðar þrær við húsin sem stóðu neðar. Þar var neyslu- og miðstöðvarvatn hitað og notað á sama hátt. 

Útsýni yfir Varmá, Reykjafoss og Lystigarðinn í miðbænum á fallegum góðviðrisdegi 2011. Hveragerði hefur upp á ýmislegt annað að bjóða, enda bæjarstæðið og umhverfið í kring einstaklega fallegt, hvort sem er að vetri eða sumri. Skemmtilegt er að rölta upp á Hamar, en það má auðveldlega komast upp á hann austanmegin, við vatnstank bæjarins. Af Hamrinum er fallegt útsýni yfir bæinn og þaðan má sjá langt út á opið haf til suðurs og Ölfusdalinn og Hengilssvæðið til norðvesturs.

Ef smellt er á myndirnar má sjá þær stækkaðar á skjánum.