Hönnunarsamkeppni um miðbæ Hveragerðis

Mi%C3%B0b%C3%A6jarsamkeppni.bmp 

Úrslit í samkeppni um hönnun miðbæjar í Hveragerði voru tilkynnt í Listasafni Árnesinga í Hveragerði þann 1. febrúar 2009.


Dómnefnd er sammála um eftirfarandi niðurstöðu í samkeppninni:
1. sæti.  Tillaga nr. 14141 (2) ASK arkitektar ehf
2. sæti.  Tillaga nr. 31683 (4) Arkís ehf
3. sæti.  Tillaga nr. 32010 (16) Arkitektur.is


2 áhugaverðar tillögur hafa einnig verið valdar til innkaupa:
Tillaga nr. 74168 (11)
Haukur Þórðarson, Tinna Ottesen, Magnús Freyr Gíslason Og  Eva Harðardóttir

Tillaga nr. 32203 (17)
Batteríið Arkitektar
Anders Möller Nielsen, Borghildur Sölvey Sturludóttir, Fríða Sigurðardóttir arkitektar FAÍ


Um keppnina:

Tillaga um opna samkeppni um skipulag miðbæjar Hveragerðis hefur verið til umræðu hjá bæjaryfirvöldum í nokkurn tíma.  Á fundi bæjarráðs þann 29. nóvember 2007 var samþykkt að mörkuð yrði stefna um fyrirkomulag skipulagsvinnu í miðbænum og á fundi bæjarráðs þann 14. desember 2007 var samþykkt að fram færi opin samkeppni um skipulag miðbæjarins í samvinnu við Arkitektafélag Íslands. Samkeppnin var auglýst í september en skilafrestur var til 1. desember 2008.
Hvati bæjarstjórnar að samkeppninni var ekki síst sá að í miðbæ Hveragerðis eru nokkrar stórar garðyrkjulóðir þar sem  annað hvort er búið  eða að þar er  fyrirhugað  að rífa byggingar sem á lóðunum standa.  Óskir hafa borist frá lóðarhöfum þessara lóða um aukna nýtingu lóðanna. Bæjarstjórn Hveragerðisbæjar taldi að við þessar aðstæður gæfist einstakt tækifæri til að byggja upp heildstæðan miðbæ sem félli vel að markmiðum í aðalskipulagi bæjarins.
Í keppnislýsingu var áhersla lögð á að tillögurnar tækju mið af helstu einkennum, perlum og minjum bæjarins sem eru ýmist á útjaðri eða inni á umræddu svæði, s.s. sundlauginni í Laugaskarði, hverasvæðinu, Varmánni, Reykjafossi, skrúðgarðinum á Fossflöt, kirkjunni, gamla hótelinu, mjólkurbúinu og fleiri gömlum húsum. Þannig skyldu tillögur tengja þessa staði saman í heildstæða og aðlaðandi mynd fyrir íbúa og gesti bæjarins með hliðsjón af aðgengi fyrir alla.
Hveragerðisbær vill hafa umhverfissjónarmið í hávegum og styrkja ímynd sína sem ferðamanna- og heilsubær. Tillögur skyldu taka mið af því og endurspegla þessa stefnu bæjarfélagsins með skýrum hætti.
Ákveðið var að samkeppnin yrði framkvæmdakeppni. Hveragerðisbær er með henni að leita eftir megin línum fyrir skipulag miðbæjarsvæðisins. Sú tillaga sem hlýtur 1. verðlaun verður síðan væntanlega notuð til grundvallar nánari útfærslu á deiliskipulagi.
Rétt til þátttöku í samkeppninni höfðu félagar í Arkitektafélagi Íslands, aðrir aðilar sem hafa rétt til skipulagsgerðar og einnig nemendur í arkitektúr og skipulagsfræðum.

Dómnefnd ákvað að verðlaunaupphæðin sem var 6 milljónir króna myndi skiptast með eftirfarandi hætti:
1. verðlaun eru 3.000.000, 2. verðlaun eru 1.750.000 og 3. verðlaun eru 1.250.000
Auk þess var ákveðið að verja kr. 800.000 til viðurkenningar á athyglisverðum tillögum.

Dómnefnd var skipuð eftirtöldum aðilum :
Tilnefndir af Hveragerðisbæ:
Aldís Hafsteinsdóttir, bæjarstjóri, formaður dómnefndar.
Eyþór H. Ólafsson, formaður skipulags- og byggingarnefndar.
Guðmundur F. Baldursson, skipulags- og byggingarfulltrúi.

Tilnefndir af Arkitektafélagi Íslands:
Guðrún Ingvarsdóttir  og Þormóður Sveinsson, arkitektar FAÍ

Trúnaðarmaður dómnefndar, tilnefndur af stjórn Arkitektafélags Íslands, var Haraldur Helgason, arkitekt FAÍ.
Fyrsti fundur dómnefndar við dómstörf var haldinn þann 10. desember 2008.  Alls bárust 17 tillögur og ákveðið var að taka þær allar til dóms.
Dómnefnd var sammála um að gæði innsendra tillagna væru mikil og áberandi hversu jákvæða og skýra sýn þátttakendur hafa á bæjarfélagið og sérkenni þess.  Í öllum tillögum er að finna athyglisverðar lausnir og því ákvað dómnefnd að "kaupa" tvær tillögur auk þeirra þriggja sem verðlaun hljóta.
Sýning á öllum tillögunum verður í Listasafni Árnesinga til 19. apríl.

%C3%9Arslit%20samkeppni.bmp