Bókasafn

Sunnumörk 2
810 Hveragerði
Sími: 483 4531
Bréfsími: 483 4571
Netfang: bokasafn@hveragerdi.is
http://www.facebook.com/bokasafnid.i.hveragerdi.

Starfsfólk:

Á bókasafninu er t.d. hægt að...

... fá lánaðar bækur, hljóðbækur, tímarit, myndefni, margmiðlunarefni og tónlist.

... fá bækur sendar heim einu sinni í viku - á fimmtudögum. Eldri borgarar og aðrir sem ekki eiga heimangengt vegna fötlunar eða veikinda geta hringt í safnið (483-4531) og pantað bækur.

... lesa dagblöð, héraðsfréttablöð, tímarit og fréttabréf frá ýmsum samtökum og ýmislegt annað efni frá Hveragerðisbæ.

... sinna heimanáminu eða áhugagrúskinu. Talsvert er til af orðabókum og öðrum handbókum til heimildaleitar, einnig nokkuð af ættfræðiritum.

... skrifa ritgerðir, gera skýrslur, leita heimilda eða kynna sér ýmislegt forvitnilegt á internetinu. Tvær tölvur eru á safninu til afnota fyrir almenning, með möguleika á ritvinnslu, notkun margmiðlunarefnis og internetaðgangi. Hægt er að panta tíma. Einnig er aðgangur að þráðlausu neti.

... skoða sýningar á málverkum, handverki og fleiru.

... fylgjast með og/eða taka þátt í ýmsum þeim viðburðum sem eru á vegum safnsins og eru auglýstir í safninu og á heimasíðu þess. Þar má nefna viðburði á Safnahelgi á Suðurlandi, í Norrænu bókasafnavikunni, upplestur úr nýjum bókum og prjónakaffi fyrsta mánudag í mánuði frá september til maí.

REGLUR

Gjaldskrá frá 2018

Afnotagjald greiðist einu sinni á ári

Það er einstaklingsgjald. Gegn því getur notandi haft að láni allt að 10 safngögnum í einu. Börn, eldri borgarar og öryrkjar greiða ekki afnotagjald. Börn þurfa samþykki forráðamanns til að verða gildir lánþegar. Þau geta haft að láni allt að 5 safngögnum í einu.

Útlánstími.

Bækur, hljóðbækur, tímarit og málaskólar á snældum lánast út í 30 daga, nýjar bækur í 10 daga, nýlegar vinsælar bækur, margmiðlunarefni og tónlist í 14 daga, fræðslumyndir í 7 daga og kvikmyndir (skemmtiefni) í 3 daga.
Skemmtiefni á mynddiskum og tónlistardiskar lánast gegn gjaldi, margmiðlunarefni og myndbönd án endurgjalds.
Hægt er að framlengja útlán séu safngögn ekki pöntuð.

Tölvunotkun á safni miðast við 30 mínútur í senn

og er eingöngu leyfð 16 ára og eldri. Séu reglur um tölvunotkun ekki virtar er bókaverði heimilt að vísa viðkomandi frá og jafnvel banna honum aðgang að tölvunum til frambúðar. Greitt skal fyrir aðgang að interneti og útprentun gagna en ekki fyrir aðra notkun. Aðgangur að þráðlausu neti er gjaldfrír.

Verði vanskil á safngögnum reiknast dráttareyrir.

Týnist eða skemmist safngögn ber lántakanda að bæta þau miðað við gjaldskrá eða eftir mati bókavarðar. **Safngögn skal flytja í umbúðum að og frá safni.

Farið vel með safngögn.

Notið bókamerki. Verjið safngögn fyrir óvitum. Bækur sem lent hafa í hundskjafti er ekki hægt að lána út aftur og ber því að bæta. Verjið safngögn fyrir raka (ekki geyma bækur í bílnum yfir nótt), kaffi og öðrum vökva, súkkulaði!, og einnig snörpum hita. Skemmist bók eða annað safngagn þarf að láta vita af því þegar skilað er.

UM SAFNIÐ

Bókasafnið í Hveragerði var stofnað árið 1937 eða 8 eftir að tvö lestrarfélög úr Ölfusinu höfðu verið sameinuð, þ. e. lestrarfélagið Mímir í austursveitinni og lestrarfélag Hjallasóknar í vestursveitinni. Bókunum, sem voru eitthvað á annað hundrað, var komið fyrir í stæðilegum skáp í forstofu skólastjóra barnaskólans, Helga Geirssonar. Plássið var um 3 fermetrar. Bókakostur óx hægt fyrstu árin og tekjurnar í samræmi við það. Árið 1940 voru 302 bækur í Bókasafninu í Hveragerði, árið 1986 voru þær um 6.600 talsins en nú, í byrjun árs 2012, eru þær um 22.000.

Haustið 1947 flutti safnið í 11 fermetra herbergi í barnaskólanum. Árið 1978 var það svo loks flutt í 50 fermetra húsnæði að Hverahlíð 24. Þar þótti aðstaðan ágæt og smá vinnuaðstaða var fyrir bókavörðinn. Síðustu árin voru bækurnar þar bókstaflega út um allt, ofan frá rjáfri og niður á gólf! Það var því mjög ánægjulegt þegar bókasafnið fékk inni að Austurmörk 2, vorið 1999, í um 150 fermetrum. Þar var bjart og rúmgott til að byrja með, en þegar tekið var upp úr kössum og farið að kaupa inn bækur voru hillurnar fljótar að fyllast.

Haustið 2004 flutti safnið ennþá í nýtt húsnæði í Verslunarmiðstöðinni í Sunnumörk. Húsnæðið er glæsilegt og staðsetningin frábær. Starfsemi safnsins hefur breyst nokkuð eftir flutningana því að nú er það ,,í leiðinni" þegar fólk gerir matarinnkaupin. Fyrirkomulag í safninu finnst safngestum notalegt.

Þegar vinna hófst við grunn Verslunarmiðstöðvarinnar kom í ljós jarðsprunga mikil. Hlé var gert á framkvæmdum og breytingar gerðar á hönnun hússins. Sprungan lá gegnum bókasafnið og pósthúsið/upplýsinga-miðstöðina og var því ákveðið að setja gler yfir hana og lýsa hana upp svo fólk gæti barið hana augum. Sprungan hefur vakið mikla athygli, jafnt bókasafnsgesta sem ferðamanna, innlendra og erlendra.

Árið 2005, fyrsta heila árið í Sunnumörkinni, fjölgaði heimsóknum í safnið um 109% frá árinu áður. Heildargestafjöldi komst í 18.618. Heildarútlán árið 2005 voru 19.706 safngögn, eða tæplega 10 bækur á hvern íbúa í Hveragerði það árið. Til gamans má geta þess, að árið 1998, síðasta ár bókasafnsins í Hverahlíðinni, voru heildarútlán 9.187 safngögn. Árið 2011 komst heildargestafjöldi í 25.636 og heildarútlán urðu 22.136 eða 9,56 safngögn á hvern íbúa í Hveragerði. Margir sumarbústaðagestir líta hér inn og fá sér skammtímakort. Börnin eru dugleg að sækja sumarlestur, sem er lestrarhvetjandi verkefni fyrir 6-10 ára börn í samvinnu við grunnskólann. Það hefur vakið athygli og skilað góðum árangri.

Kynnið vinum ykkar bókasafnið.

Hvetjum börnin til bóklesturs.