Leikskólinn Óskaland

Finnmörk 1
810 Hveragerði
Sími: 483 4139

Leikskólastjóri: Gunnvör Kolbeinsdóttir
Aðstoðarleikskólastjóri: Guðlaug Jónsdóttir
netfang oskaland@hveragerdi.is

Fyrri hluti leikskólans Óskalands var tekinn í notkun 1. júlí 2004. Síðari hluti húsnæðisins var vígður á haustmánuðum 2007 og telst skólinn nú fullbyggður með fjórum deildum.

Fjöldi barna er 80. Vistunartímar sem boðið er uppá eru 4, 5, 6, 7, 8 og 9 tímar. Stöðugildi eru 20,8. Þar af eru 7 leikskólakennarar í 6,10 stöðugildum, 4 aðrir fagmenn í 3,4 stöðugildum, 10 ófaglærðir í 8,5 stöðugildum og 2 í mötuneyti í 1,8 stöðugildi. Boðið er uppá morgunverð, hádegisverð og síðdegishressingu.

Stefnur í starfi Óskalands

Hugmyndafræði leikskólans er sótt í smiðju Bandaríkjamannsins John´s Dewey. Hann lagði á það áherslu að börnin væru m.a. virk í leikjum sínum og að nám barnanna byggðist á uppgötvunum og reynsla á umhverfi barnanna sé auðugt af þroskandi efniviði. Út frá þeim hugmyndum byggði ítalinn Loris Malaguzzi frá borginni Reggio Emilila fræði sín á og eftir þeim starfar leikskólinn með börnunum að 5 ára aldri. Þemastarf er aðalsmerki Malaguzzi þar sem börnin fá að rannsaka og skapa út frá eigin uppgötvunum, börnin eru spurð opinna spurninga og leiða svörin til niðurstaðna sem þau læra af. Malaguzzi hélt því fram að börnin búi yfir 100 málum og að það sé hlutverk kennaranna að virkja þau.

Vinna með elstu börnunum þ.e. 5 - 6 ára fer aðallega fram í lífsleikni, þar sem unnið er að því að efla félagslega færni með það að markmiði að börnin verði fær um að skilja eigin líðan og annarra og að bregðast við því á viðeigandi hátt. Verkefnin auka félagslega færni, sjálfstæði og allan almennan þroska. Undirbúningur undir væntanlega skólagöngu barnanna fléttast inn í lífsleiknitímana, en góð samvinna er milli leikskólans og grunnskólans.

Markmið leikskólans eru miðuð við aðalnámsskrá leikskóla og eru m.a.:

*Að auka gleði og vellíðan barnanna með áherslu á næringu, hreyfingu, listsköpun.

*Að efla heildarþroska barnsins gegnum leik.

*Að auka gleði og samvinnu milli barna, foreldra og starfsfólks og að öllum líði vel.

*Að börnin þrói með mér skapandi og gagnrýna hugsun.

*Að börnin læri að umgangast náttúruna og umhverfið með virðingu.

*Að börnin læri að þekkja eigin tilfinningar og læri að virða tilfinningar annarra og þori að eiga frumkvæði að samskiptum við aðra.

Umhverfisvænn leikskóli

Unnið er að því að leikskólinn verði umhverfisvænn leikskóli. Börnunum er kennt að spara vatn og rafmagn þar sem þetta eru ekki óþrjótandi auðlindir. Lífrænum úrgangi er safnað í safnkassa úti á lóðinni. Endurvinnanlegu efni s.s. pappír, umbúðum og mjólkurfernum er safnað í kassa. Það sem hægt er að nota í listsköpun er notað en öðru er skilað á endurvinnslustöð. Afgangsmatvælum sem annars væri hent er safnað í fötu og fá hamingjusamar hænur í Ölfusinu að njóta þeirra.

Nánar má lesa um leikskólann í Skólanámsskrá leikskólans.

Leikskólinn Óskaland er opinn frá kl. 7:45-17:00