Íþróttir og útivist

Undanfarin ár hefur Hveragerðisbær unnið að heilsueflingu bæjarbúa.

Markmið verkefnisins er að stuðla að heilbrigðum lífsháttum barna, ungs fólks og fjölskyldna þeirra með áherslu á aukna hreyfingu og bætt mataræði. Skólastofnanir, íþrótta- og tómstundahreyfingar, heilsugæsla og foreldrasamtök eiga fulltrúa í starfshópi sem skipuleggur ferla til að virkja þátttakendur til heilbrigðari lífsstíls. Árið 2005 var gert átak í að bæta næringu barna og unglinga í skólastofnunum bæjarins. Einnig var gerð rannsókn á lífsháttum barna og ungmenna bæjarins.

Á næstu árum horfum við til þess að efla verkefnið til muna og auka kynningu á hreyfingu og útiveru almennings. Í Hveragerði eru miklir möguleikar á að stunda fjölbreytta hreyfingu úti í okkar fallegu náttúru. Margar merktar gönguleiðir er að finna á heimasíðu bæjarins og einnig er fjölnota íþróttahringur staðsettur við enda Hamarsvallar.

Forvarnaráætlun Hveragerðisbæjar - endurskoðun

Tilgangurinn er að stuðla að víðtækri og skiplagðri lýðheilsuáætlun fyrir bæjarbúa með því að til sé heildræn velferðarstefna í bæjarfélaginu og að tryggja samvinnu þeirra sem koma að málefnum m.a. barna og ungmenna í bæjarfélaginu t.d. skóla, frístunda- og íþróttafélaga, félagsmiðstöðvar og kirkju.

Hlutverk

  • er að samhæfa og styrkja enn frekar það lýðheilsustarf sem unnið er í bæjarfélaginu.
  • er að vinna að jákvæðum árangri í velferð barna og ungmenna.
  • er að tryggja samvinnu og samheldni í velferðarstarfinu.
  • er að ákveðinn samhljómur sé ríkjandi varðandi velferð barna og ungmenna.
  • er að tryggja börnum jákvætt og uppbyggilegt umhverfi hvort sem er í skóla eða frítíma.

Hreyfidagar í Hveragerðisbæ

Hreyfing - heilsa - hamingja

Hveragerði er heilsubær og hefur orðið mikil vakning hjá bæjarbúum á heilsusamlegum lifnaðarháttum undanfarin ár. Fólk á öllum aldri stundar útivist og hreyfingu og er fjölbreytni þeirrar þjálfunar sem er í boði, í skipulagðri líkamsrækt fyrir almenning, mikil. Sundlaugin í Laugaskarði er miðdepill þessarar starfsemi.
Fyrirhugað er að halda heilsudaga, ár hvert sem hvatningu fyrir almenning að hreyfa sig til að bæta heilsu og vellíðan. Nánari upplýsingar koma síðar.

Íþróttamannvirki bæjarins

Yfirmaður íþróttamannvirkja er menningar- og frístundafulltrúi

Sundlaugin Laugaskarði

Laugaskarði
810 Hveragerði
Sími: 483 4113. Netfang: laugaskard@hveragerdi.is

Sundlaugin í Laugaskarði er 50 metra löng og 12 metra breið og var um langa hríð langstærsta sundlaug landsins. Hún er svokölluð gegnumrennslislaug, hituð upp með jarðgufu, sem tryggir eðlilegt sýrustig og hreinleika vatnsins. Laugin er í skjólsælli hvilft sem veit gegn suðri, norðan Varmár við veginn að Garðyrkjuskóla ríkisins að Reykjum í Ölfusi. Gæslumaður er ávallt á vakt við laugina og auk þess er sjónvarpskerfi til að fylgjast með og tryggja öryggi sundlaugargesta. Þar er heit, grunn setlaug, heitur pottur með rafmagnsnuddi og náttúrulegt gufubað.

Laugin var byggð í tveimur áföngum, sá fyrri var 25x12 metrar og var tekinn í notkun árið 1938, en síðari hlutinn árið 1945. Í henni æfði íslenska landsliðið í sundi allt til 1966 þegar Laugardalslaugin í Reykjavík kom til sögunnar.

Það var Ungmennafélag Ölfushrepps sem beitti sér mest fyrir því að laugin var gerð og lögðu félagsmenn fram ómælda sjálfboðavinnu. Þeim bættist góður liðsauki þegar Lárus Rist sundkappi fluttist til Hveragerðis árið 1936 og má segja að hann hafi tekið forystu við uppbyggingu laugarinnar og réði meðal annars staðarvali.

Hveragerðisbær annast allan rekstur og viðhald laugarinnar.

Íþróttahús Hveragerðis

við Skólamörk
810 Hveragerði
Sími: 483 4348
Netfang: ithrottahus@hveragerdi.is

Stærð íþróttasalarins er 18x33 metrar, áhorfendastæði eru fyrir 240 manns og þar eru búnings- og baðklefar.

Húsið var byggt í tveimur áföngum og var fyrri áfangi tekinn í notkun 1976 en síðari áfangi 1984. Undir hálfu húsinu er kjallari með fjögurra metra lofthæð og þar er nú félagsmiðstöð fyrir grunnskólanema. Lægri kjallari undir hinum helmingnum er nýttur sem geymsla.

Grunnskólinn í Hveragerði hefur afnot af húsinu á skólatíma til leikfimi og íþróttakennslu. Að skóla loknum hefur Íþróttafélagið Hamar afnot af húsinu og þar fer fram fjölbreytt íþróttastarf á vegum Hamars. Hveragerðisbær styrkir félagið með ókeypis afnotum af húsinu.

Hamarshöll - Vallarhús, Vorsabæjarvöllum

norðan Hamars
810 Hveragerði
sími 483 1240
Netfang: hamarshollin@hveragerdi.is

Fjölnota íþróttahús með gervigrasvelli, íþróttagólfi og 9 holu púttvelli.

Búnings- og baðklefar eru í vallarhúsi sem er við hliðina á Hamarshöll.

Húsið var byggt árið 2012 og er fjölnota íþróttahöll sem hýsir gervigrasvöll, níu holu púttvöll og fjölnota íþróttagólf í fullri stærð. Stærð íþróttahallinnar er um 5000 m² (104 x 48). Íþróttahöllin er upphituð úr tvöföldum dúk sem er borinn uppi af innri loftþrýstingi og loftþrýstingi á milli ytra og innra lags í útveggjum og þaki. Ákveðið var að skipta við framleiðendur frá DUOL sem bjóða mjög vönduð hús með háum gæðastuðli sem eru með Evróskri vottun samkvæmt EN stöðlum og hafa verið samþykkt af Brunamálastofnun Íslands.

Íþróttafélagið Hamar í Hveragerði hefur afnot af húsinu en einnig er hægt að leigja tíma til iðkunar allt árið um kring, hafið samband við menningar- og frístundafulltrúa Netfang: jmh@hveragerdi.is

Hveragerðisbær annast allan rekstur og viðhald íþróttahússins.

Íþróttafélagið Hamar

stendur fyrir íþróttaæfingum í badmintoni, blaki, fimleikum,knattspyrnu, körfuknattleik og sundi. Markmið íþróttafélagsins er að stuðla að eflingu íþrótta- og æskulýðsstarfs, í Hveragerði og nágrenni, sem og heilbrigðs lífernis. Sjá nánari upplýsingar á heimasíðu félagsins http://hamarsport.is/.

Önnur félög

Fleiri félög eru starfandi eins og