Ýmsar framkvæmdir í gangi

skrifað 31. júl 2012
Arnar Sæmundsson og Guðmundur Baldursson inní nýja aðstöðuhúsinu. Arnar Sæmundsson og Guðmundur Baldursson inní nýja aðstöðuhúsinu.

Sumarið er tími framkvæmda og þess sér óneitanlega merki hér í Hveragerði sem og annars staðar.

Meðfylgjandi myndir sem teknar eru í dag sýna framkvæmdir við grunnskólann en þar er nú verið að betrumbæta 6 kennslustofur í elsta hluta skólahússins, bæta hljóðvist, lýsingu og mála. Nú eru starfsmenn Árvirkjans að leggja þar lokahönd á raflagnir og lýsingu en framkvæmdum á að ljúka vel fyrir upphaf skólastarfs.

Í Hamarshöllinni er mikið um að vera og bæði smiðir og rafvirkjar eru þar að störfum. Verið er að byggja aðstöðuhús inní höllinni og ganga frá raflögnum. Smíði skjólveggja norðan við húsið og malbikun er einnig á döfinni á næstunni.

Innar í Dalnum eða á planinu við Hengladalaá rís nú söluskáli sem stefnt er á að hefji starfsemi á næstu vikum. Það eru hjónin í Reykjakoti, Magnea og Þorsteinn, sem eiga heiðurinn af þeirri framkvæmd en á myndinni má sjá undirstöðurnar sem komnar eru á staðinn.

Það er síðan Guðmundur Baldursson skipulags og byggingafulltrúi sem lenti á öllum myndum dagsins eins og sjá má.

Inní Hamarshöllinni er nú verið að byggja aðstöðuhús. Starfsmenn Árvirkjans vinna við lagninu raflagna í grunnskólanum. Söluskáli rís við Hengladalaá.