Verðlaunagarðar 2013

skrifað 24. jún 2013
Verðlaunahafar ásamt formanni bæjarráðs og bæjarstjóra. Verðlaunahafar ásamt formanni bæjarráðs og bæjarstjóra.

Viðurkenningar fyrir fegurstu garðana árið 2013 voru afhentar í Listigarðinum Fossflöt laugardaginn 22. júní sl.

Eftirtaldir garðar þóttu bera af þetta árið og var eigendum þeirra færður þakklætisvottur frá Hveragerðisbæ og verðlaunaskjölds sem væntanlega verður settur upp á áberandi stað utandyra.

Kambahraun 7 - Steinvör Ester Ingimundardóttir og Hlöðver Guðmundsson

Þegar gengið er framhjá Kambahrauni 7 fer ekki framhjá neinum að hér búa fagurkerar sem hafa safnað að sér ýmsum áhugaverðum plöntum. Garðurinn að framanverðu er lítill og snotur og er mjög áhugavert að gægjast yfir lóðarmörkin og njóta. En ekki er allt sem sýnist því að í bakgarðinum er heill heimur sem er vel þess virði að fá ganga inní.

Dynskógar 7 - Berglind Helgadóttir og Jóhann Hjaltalín Stefánsson

Garður í grónu hverfi. Garðeigendur hafa verið að byggja upp garðinn að nýju, hægt og rólega en láta gömlu trén halda sér. Þarna má sjá ýmsar áhugaverðar plöntu tegundir.

Hveramörk 18 – Inga Dóra Jóhannesdóttir og Jón Hafsteinn Eggertsson

Gamall og hlýlegur trjágarður. Fjölbreyttur, fullvaxinn trjágróður, Umlykjandi kyrrð og ró í miðjum bæ. Allt á sínum stað, geislandi af væntumþykju og lífsgleði.

Fyrir hönd Hveragerðisbæjar er verðlaunahöfunum óskað innilega til hamingju með viðurkenninguna og ekki síst fyrir framlag sitt til blómstrandi bæjar hér í Hveragerði.

Að því loknu var öllum boðið í gómsæta grænmetissúpu í Hveragarðinum.

Aldís Hafsteinsdóttir, bæjarstjóri.

Að lokinni verðlaunaafhendingunni fóru viðstaddir og skoðuðu verðlaunagarðana undir leiðsögn Kristins H. Þorsteinssonar, umhverfisfulltrúa og Péturs Reynissonar, skrúðgarðyrkjumeistara.  Hér er hópurinn staddur að Kambahrauni 7. Að lokinni göngunni var boðið uppá gómsæta garðasúpu í Hveragarðinum.