Velkomin á Blóm í bæ
Við bjóðum gesti velkomna á Garðyrkju- og blómasýninguna „Blóm í bæ“ sem nú er haldin í fjórða sinn í Hveragerði. Einmuna veðurblíðu er spáð um helgina og nú skartar allur gróður sínu fegursta!
Velkomin á Blóm í bæ !
Það er okkur Hvergerðingum sérstök ánægja að bjóða gesti velkomna á Garðyrkju- og blómasýninguna „Blóm í bæ“ sem nú er haldin í fjórða sinn í Hveragerði. Tugþúsundir gesta hafa sótt hátíðina og notið fjölbreyttrar sýningar á öllu því sem tilheyrir græna geiranum auk þess sem skreytingar blómaskreyta í bæjarfélaginu hafa vakið mikla athygli fyrir frumleika og fegurð.
Þema sýningarinnar í ár er "sirkus og munu skreytingar á sýningunni taka mið af því. Alls konar kynjaverur sirkusins lifna við í blómum og myndum og litagleðin tekur öll völd. Í beðum og kerjum má sjá marglit blóm af ýmsum gerðum sem öll minna okkur á fjölbreytileika náttúrunnar og gæði íslenskrar framleiðslu. Aldrei hefur jafn mikið magn af afurðum græna geirans verið til sýnis á einum stað.
Í íþróttahúsi bæjarins hefur glæsileg sýning afskorinna blóma og pottablóma verið sett upp og þar gefst gestum tækifæri til að sjá hið besta frá íslenskum blómaframleiðendum. Á útisvæði er vegleg sýning á garðplöntum þar sem virða má fyrir sér sumarblóm, berjarunna, matjurtir og fjölæringa. Allar skreytingar í bæjarfélaginu eru í höndum atvinnu- og áhugamanna um blómaskreytingar sem leggja nótt við dag fyrir sýninguna svo skreytingarnar verði sem bestar.
Hvergi gefst betra tækifæri til að kynna sér það helsta sem í boði er í garðyrkju en á Blóm í bæ í Hveragerði. Ýmislegt verður síðan til afþreyingar, blóma bingo verður með reglulegu millibili hátíðardagana, örfyrirlestrar, fræðslugöngur, garðaskoðun, ljóðablómastaurar, plöntupúl og garðasúpa í görðum bæjarbúa er meðal þess fjölmarga sem á dagskrá verður þessa helgi.
Á laugardeginum fagnar Norræna félagið í Hveragerði Jónsmessu og reisir miðsumarstöng með tilheyrandi gleðskap í Lystigarðinum. Auk þessa alls verða leiktæki og uppákomur fyrir yngstu kynslóðina og sýningar og markaðir út um allan bæ þannig að engum ætti að leiðast.
Sýningin hefst í dag, föstudag, kl. 12 en henni lýkur á sunnudeginum kl. 18. Setningarathöfn verður á föstudag kl 14 og mun ráðherra landbúnaðar og sjávarútvegs setja sýninguna.
Um leið og Hvergerðingar og fagfélög græna geirans bjóða alla landsmenn velkomna til að njóta þess besta sem íslensk garðyrkja býður uppá bendum við á að nánari upplýsingar er að finna á heimasíðunni www.blomibae.is.
Aldís Hafsteinsdóttir Bæjarstjóri
fleiri fréttir
-
22. feb 2019Listasafn Árnesinga
-
21. feb 2019Heilsuefling fyrir eldri íbúa
-
21. feb 2019Bangsar bæjarins brugðu á leik
-
18. feb 2019Fjölsóttur foreldrafundur
-
05. feb 2019Leikfélag Hveragerðis
-
04. feb 2019Loksins komið skautasvell
-
30. jan 2019Ánægja íbúa mest í Hveragerði
-
29. jan 2019Sýningin Huglæg rými í Listasafn Árnesinga
-
25. jan 2019Vinningshafar í jólagluggaleiknum
-
24. jan 2019Hækkuðu fasteignamati mætt með lækkaðri álagningu