Útsvarsliðið hefur lokið keppni

skrifað 13. feb 2012
IMG_0064IMG_0064

Lið okkar Hvergerðinga í spurningakeppninni Útsvari lauk keppni þetta árið síðastliðinn föstudag. Andstæðingar okkar það kvöld voru frá Fljótsdalshéraði og höfðu þau sigur í skemmtilegri og æsispennandi keppni, 64-68.

Keppendum okkar, þeim Maríu Kristjánsdóttur, Ólafi Hafstein Péturssyni og Úlfi Óskarssyni er hér með þakkað kærlega fyrir að hafa tekið þátt í Útsvarinu fyrir hönd okkar Hvergerðinga. Það var skemmtilegt að fylgjast með liðinu okkar enda árangurinn góður. Það að komast í 8 liða úrslit er eingöngu fyrir sérstök gáfumenni, sprettharða einstaklinga og fólk með leiklistarhæfileika! En einna mestu máli skipti að liðið okkar var líflegt og kunni að taka þátt í skemmtiþætti sem Útsvarið auðvitað er.

Hvergerðingar fjölmenntu í sjónvarpssal á föstudaginn og skemmtu sér hið besta en þar fór hlaupahópur Hamars fremstur í flokki.

Aldís Hafsteinsdóttir Bæjarstjóri