Þrastarungar yfir heita pottinum

skrifað 11. júl 2012
Ungarnir fimm fylla vel út í hreiðrið. Ungarnir fimm fylla vel út í hreiðrið.

Þessa dagana fylgjast starfsmenn Sundlaugarinnar í Laugaskarði spenntir með þrastamóður sem kom sér vel fyrir í furutré beint fyrir ofan heita pottinn, fór í hreiðurgerð, verpti eggjum og nú eru þar fimm afar líflegir þrastarungar.

Ungarnir fimm eru búnir að vekja mikla gleði og ánægju hjá starfsmönnum sundlaugarinnar í góða veðrinu síðustu daga, og fara jafnt ungir sem aldnir reglulega og kíkja í hreiðrið.

Það er töluverð hætta á að ungarnir detti í djúpa pottinn því í dag fylla þeir út í hreiðrið og þarf þá ekki að spyrja að leikslokum. Þess vegna hafa starfsmenn nú komið fyrir plastdúk undir trénu í þeirri von að það muni einhverju bjarga þegar ungarnir fljúga úr hreiðrinu.

En þessa skemmtilegu mynd sem tekin er í Laugaskarði af þrastarungum í hreiðri yfir djúpa pottinum tók Ólöf Jónsdóttir sem ásamt öðrum starfsmönnum hefur fylgst grannt með uppeldinu í trénu undanfarnar vikur. Sigríður Birgisdóttir náði einnig mynd af þrastamóður í verndarhug.

Þrastamóðirin verndar ungana sína vel. Hreiðrið situr vel falið í grein sem slútir yfir heita pottinn. Þrastamóðirin fylgist vel með.