Unglingar vinna fyrir bæinn sinn

skrifað 09. nóv 2011
IMG_9478IMG_9478

Skrifað hefur verið undir samninga við nemendur 10. og 7. bekkjar um ákveðin afmörkuð verkefni sem unglingarnir munu taka að sér fyrir Hveragerðisbæ og fá þau að launum ákveðna fjárhæð mánaðarlega sem rennur óskipt í ferðasjóð nemendanna.

Nemendur 7. bekkjar hafa ár hvert tekið að sér að halda Hveragerði snyrtilegum með því að fara mánaðarlega um bæinn og týna það rusl sem verður á vegi þeirra. Einnig sjá þau um losun á endurvinnanlegum efnum innan skólans. Nemendur 10. bekkja taka að sér að aðstoða í mötuneyti skólans, þau annast gæslu í frímínútum og í hádegi og aðstoða einnig vð gæslu á skólaskemmtunum elsta stigs. Nemendurnir eru hrein viðbót við það sem talið er nauðsynlegt til reksturs skólans og ekki kemur til uppsagna vegna þessa samnings.

Samningarnir nú eru engin nýlund en sambærilegir samningar hafa verið gerðir um árabil við nemendur 7. bekkja og í nokkur ár við nemendur 10. bekkja. Hefur þetta samstarf gefist afar vel að sögn Aldísar Hafsteinsdóttur, sem undirritaði báða samningana fyrir hönd bæjarins. Að lokinni undirritun gafst ungmennunum tækifæri til að ræða beint við bæjarstjóra um hugðarefni sín og er ljóst að þessir hópar búa yfir miklum mannkostum.

IMG_9559