Um flokkun sorps!

skrifað 10. des 2012
thumb_litiltunnathumb_litiltunna

Í Hveragerði er sorp flokkað í þrjár tunnur með það að markmiði að minnka það sorp sem fer í kostnaðarsama og óumhverfisvæna urðun í samræmi við lög og reglur þar um. Hefur flokkunin gengið afar vel og sem dæmi má nefna þá hefur rétt rúmlega 50% sorps Hvergerðinga farið í endurvinnslu farveg á undanförnum árum.

Verður þetta að teljast afar góður árangur og ljóst er að bæjarbúum er umhugað um umhverfi sitt og náttúru. Enn er þó hægt að gera betur og því er brýnt að ítreka reglur um flokkun sem í gildi eru í bæjarfélaginu.

Við hverja íbúð eru þrjár tunnur.

Gráa tunnan er ætluð fyrir óendurvinnanlegan úrgang. Óendurvinnanlegur úrgangur er allt það sem ekki má fara í grænu tunnuna, lífrænu tunnuna eða í annan skilgreindan endurvinnslufarveg. Tunnan er losuð mánaðarlega.

Græna tunnaner fyrir endurvinnanleg efni. Í tunnuna má setja allan pappír, bylgjupappa og pappa, plast, minni málmhluti (t.d. niðursuðudósir, málmlok af glerkrukkum) og fernur. Plastið og málminn ber að setja í glæra plastpoka. Tunnan er losuð mánaðarlega. Gler og rafhlöður mega alls ekki fara í tunnuna og heldur ekki hefðbundinn jólapappír og pakkabönd hverskonar.

Brúna tunnan er eingöngu ætluð undir lífrænan úrgang sem settur er í lífræna maíspoka. Í tunnuna má setja allan þann lífræna úrgang sem fellur til frá heimilum. Lífræni úrgangurinn er losaður og fluttur beint á jarðgerðarsvæði. Afurðin sem þar verður til er molta sem nota má sem áburð fyrir skógrækt eða garða. Vonir stóðu til að moltan myndi nýtast fyrir íbúa og sveitarfélagið sem jarðvegsbætir. Slíkt hefur því miður enn ekki verið hægt því komið hefur í ljós að alltof mikið slæðist með af plasti og öðrum aukaefnum í lífræna úrganginn. Eingöngu er hægt að nota lífræna maíspoka undir lífræna úrganginn annars er hætta á að afurðin (moltan) verði fyrir skemmdum. Einnig er brýnt að gæta að því að annar úrgangur slæðist ekki með í lífrænu tunnuna sem eyðilagt getur vinnsluferli moltunnar.

Á heimasíðu Íslenska gámafélagsins er að finna ýtarlegar upplýsingar um flokkunina og eru bæjarbúar hvattir til að kynna sér þær ásamt sorphirðudagatalinu sem þar er einnig að finna.