Þóra Sæunn er talmeinafræðingur Hveragerðisbæjar

skrifað 19. ágú 2015
Þóra SæunnÞóra Sæunn

Mikilvægt að byrja snemma að huga að færni barna í málþroska því mjög margt er hægt að gera til að tryggja að börn nái árangri í lestri og menntun. Það er ekki á færi eins aðila að stuðla að framförum barnanna, heldur þurfa margir að vinna saman og þar eru foreldrar einn mikilvægasti hlekkurinn.


Þóra Sæunn Úlfsdóttir hefur starfað sem talmeinafræðingur hér í Hveragerði að undanförnu og mun starfa hér áfram í vetur. Hún er í um 40% starfi og vinnur í grunnskólanum og í báðum leikskólunum.

Markmiðið starfsins er að greina tal og málmein og veita þjónustu þjálfun og kennslu í kjölfarið. Einnig er markmiðið að fræða starfsmenn Hveragerðisbæjar sem starfa í leik- og grunnskólanum og á heilsugæslunni um tal- og málþroska og áhrif hans á færni barna í lestri og námi.

Að sögn Þóru Sæunnar er mikilvægt að byrja snemma að huga að færni barna í málþroska því mjög margt er hægt að gera til að tryggja að börn nái árangri í lestri og menntun. Það er ekki á færi eins aðila að stuðla að framförum barnanna, heldur þurfa margir að vinna saman og þar eru foreldrar einn mikilvægasti hlekkurinn.

Þóra Sæunn vonast til að fá tækifæri til að ræða við foreldra leik- og grunnskólabarna um málþroskann og tengsl hans við lestur og menntun. Með því að fylgjast með málþroska barnanna frá unga aldri er hægt að grípa inní strax og kenna börnunum þau undirstöðuatriði sem nauðsynleg eru til að getað hlustað, átt samskipti við aðra, lært að lesa og skrifa sem síðar stuðlar að árangri í námi og farsæld í lífinu.