Þátttaka íbúa skiptir öllu

skrifað 14. jún 2012
IMG_8395IMG_8395

Fjölmörg verkefni eru framundan vegna sýningarinnar Blóm í bæ. Ekki hvað síst eru íbúar hvattir til að taka virkan þátt í sýningunni með því að skreyta hús sín og garða á frumlegan hátt með blómum.

ÁGÆTU ÍBÚAR!

Nú fer senn að líða að Garðyrkju- og blómasýningunni Blóm í bæ en hún verður haldin í fjórða sinn dagana 22. – 24. júní 2012. Þema sýningarinnar í ár er “SIRKUS” þar sem litagleðin verður allsráðandi.

ALLIR TAKI VIRKAN ÞÁTT

Íbúar eru hvattir til að taka virkan þátt í sýningunni með því að skreyta hús sín og garða á frumlegan hátt með blómum. Allir eru hvattir til að gera snyrtilegt í kringum hús sín því við viljum að bærinn sé okkur öllum til sóma þegar gestir streyma í bæinn okkar.

SJÁLFBOÐALIÐAKVÖLD

Enn sem fyrr leitum við til bæjarbúa um auka hendur á síðustu metrunum, margar hendur vinna létt verk! Við tökum fagnandi á móti þeim sem sjá sér fært að aðstoða okkur í því sem þarf að gera síðustu kvöldin fyrir sýningu. Ýmis verk verða í boði. Þriðjudagskvöldið 19. júní og miðvikudagskvöldið 20. júní verður sérstaklega kærkomið að sjá bæjarbúa á planinu við Mjólkurbúið, mæting klukkan 19:00. Við hlökkum til að sjá ykkur.

MINI-GARÐAR

Í ár verður samkeppni í gerð mini-garða. En hvað er mini-garður? Það er lítill garður sem minnir á dúkkuhúsagarð. Stærð innsendra garða má ekki vera stærri en 30 cm í þvermál og gæta verður þess að garðurinn og það sem notað er til að skapa hann sé í réttum hlutföllum. Leyfðu garðahönnuðinum í þér að blómstra og taktu þátt í samkeppni um að búa til flottasta mini-garðinn á Blóm í bæ 2012. Þetta er skemmtileg keppni sem fjölskyldur og vinir geta sameinast um. Sjá nánar á www.blomibae.is þar sem vísað er í heimasíður um minigarða (miniature garden). Ennfremur er hægt að fá nánari leiðbeiningar í HVERABLÓMUM þar sem Jóna tekur vel á móti ykkur. Keppniseintökum á að skila í íþróttahúsið í Hveragerði fimmtudaginn 22. júní milli klukkan 18:00 – 21:00. Þau eiga að vera merkt með heiti verks og nafni keppanda. Vegleg verðlaun.

TRÚÐAR Á LAUGARDEGINUM

Laugardagurinn 23. júní verður sirkusdagur á Blóm í bæ. Við hvetjum krakka í Hveragerði að mæta sem trúðar og setja sinn svip á sýningarsvæðið. Glaðningur verður fyrir þá sem mæta í einhverju sem tengja má trúði. Tilgreint verður í dagskrárblaði sýningarinnar hvar glaðninginn er að finna.  

GARÐASÚPA

Á fyrri sýningum hafa nokkrir bæjarbúar opnað garða sína og boðið upp á garðasúpu í samstarfi við Blóm í bæ. Þetta hefur verið einstaklega skemmtilegur viðburður sem gestir sýningarinnar hafa látið vel af. Við munum bjóða upp á súpuna enn á ný og þeir sem hafa áhuga á að bregða sér í gestgjafahlutverkið vinsamlegast hafið samband við Ásta Camillu í síma 660 3908 sem fyrst. Allt hráefni er greitt af Blóm í bæ sem útvegar einnig bolla, servíettur og skeiðar. Garðasúpan verður á dagskrá á laugardeginum 23. júní milli klukkan 16:30 til 18:00.

BLÓMAKAKA ÁRSINS…

…sló í gegn í fyrra og við ætlum að gera enn betur í ár. Að þessu sinni verður aðalhráefnið JARÐARBER. Nú er um að gera að gefa hugmyndafluginu lausan tauminn og skila inn köku/tertu/böku sem inniheldur jarðarber. Keppnin er haldin í samstarfi við ALMAR BAKARA. Keppniseintökum á að skila í Matartjaldið til Almars bakara laugardaginn 23. júní milli klukkan 11:00 og 13:00. Sigurvegari verður krýndur í Lystigarðinum kl 15:00 sama dag. Vegleg verðlaun í boði frá Almari bakara. Keppendur sækja keppniseintökin að lokinni verðlaunaafhendingu.

LJÓSMYNDAKEPPNI UNGLINGANNA

Í ár verður bryddað upp á nýjung fyrir unglingana í bænum. Þetta er hugmynd sem unglingar lögðu til í Heimskaffinu sem haldið var í Grunnskólanum nú í byrjun maí. „BLÓM Í BÆ, SÉÐ MEÐ MÍNUM AUGUM“ er yfirskrift keppninnar og þeir hafa keppnisrétt sem luku 8. 9. og 10. bekk í vor. Eins og bæjarbúar vita er sýningin mjög litskrúðug og skemmtilegt myndefni í hverju skoti. Tímabil myndatöku er 20. – 24. júní (undirbúningur fyrir sýningu og sýningardagarnir). Þátttakendur skila inn keppnismyndum dagana 7. – 10. ágúst og úrslitin verða kunngjörð á Blómstrandi dögum. Merkja skal myndirnar með númeri, setja skal nafn ljósmyndarans í umslag, loka því og skrifa gefið númer framan á. Innsendar myndir verða til sýnis á Blómstrandi dögum. Keppt verður í stökum myndum og í myndaröð (að hámarki 7 myndir) þar sem þráður tengir allar myndir saman. Vegleg verðlaun. Fylgist vel með á heimasíðunni www.blomibae.is og á fésbókinni.

Með góðum kveðjum og von um að bæjarbúar taki virkan þátt í að gera góða sýningu enn betri!

Ásta Camilla Gylfadóttir, sýningarstjóri Blóm í bæ

Elínborg María Ólafsdóttir, aðstoðarsýningarstjóri.