Takk fyrir frábæra Blómstrandi daga

skrifað 19. ágú 2019
IMG_2053 (002)

Talið er að á milli 25-30 þúsund manns hafi heimsótt Hveragerðisbæ um síðastliðna helgi en fjölbreytt dagskrá bæjarhátíðarinnar Blómstrandi daga og glæsileg dagskrá og gómsætur ís á Ísdegi Kjörís laðaði að sér fjölmarga gesti.


Talið er að á milli 25 og 30 þúsund manns hafi heimsótt Hveragerðisbæ um síðastliðna helgi en bæjarhátíðin Blómstrandi dagar var þá haldin með fjölbreyttri dagskrá ásamt Ísdegi Kjörís en fyrirtækið fagnar í ár 50 ára afmæli.

Dagskrá helgarinnar var fjölbreytt og dreifðist vítt og breitt um bæinn þannig að þessa helgi breyttist Hveragerði í sannkallaða stórborg þar sem bíll var við bíl á götunum, allir veitingastaðir fylltust af gestum, uppselt var á tónleika og hundruðir dönsuðu inn í nóttina á hinum hefðbundna blómadansleik.

50 ára afmæli Kjörís var fagnað með veglegum hætti á lóð fyrirtækisins og að sögn forsvarsmanna þess runnu hátt í 3 tonn af ís ljúflega ofan í gesti. Lúsmís og kampavínsís voru á meðal þess sem boðið var uppá en auk þess var sérstakt Vegan hús á staðnum þannig að allir gátu fundið ís við sitt hæfi.

Á ekkert er hallað þegar fullyrt er að kvöldvaka, brekkusöngurinn og flugeldasýningin í Lystigarðinum Fossflöt sé hápunktur kvöldsins en sjaldan eða aldrei hafa fleiri mætt á kvöldvöku Blómstrandi daga.

Sinueldur sem kviknaði í kjölfar flugeldasýningarnar var greiðlega slökktur af Brunavörnum Árnesinga en um leið minnti hann alla á hversu mikla aðgát þarf að hafa við meðferð flugelda og opins elds.

Að lokinni góðri helgi viljum við þakka kærlega öllum þeim sem lögðu hönd á plóg og gerðu að verkum að Blómstrandi dagar eru enn eina ferðina ein alstærsta bæjarhátíð landsins.

Rekstraraðilum í Hveragerði, forsvarsmönnum Kjörís, íbúum og starfsmönnum bæjarins eru færðar bestu þakkir fyrir þeirra framlag til hátíðarinnar. Jóhanna Margrét Hjartardóttir, menningar- og frístundafulltrúi sá um skipulag af sinni alkunnu snilld og Höskuldur Þorbjarnarson og hans fólk í umhverfisdeild og áhaldahúsi sá um að bærinn leit eins vel út og raun bar vitni. Eru þeim færðar bestu þakkir fyrir góða vinnu.

Öllum gestum þökkum við fyrir komuna með þakklæti fyrir brosin, gleðina og ánægjuna sem skein úr hverju andlitii.

Sjáumst að ári í Blómabænum.

Aldís Hafsteinsdóttir
Bæjarstjóri

IMG_1997IMG_1999IMG_2027IMG_2021IMG_8515IMG_1979IMG_2011