Sumarfrístund elstu barna leikskólans

skrifað 13. jún 2014

Tillaga um sumarfrístund elstu barna leikskólans mun verða lögð fram fyrir bæjarráð á næsta fundi þess. Vegna sumarleyfis leikskólans Óskalands sem hefst 18. júní hefur þessari tilkynningu þegar verið dreift til foreldra þar. Foreldrar á Undralandi munu fá tilsvarandi bréf á mánudaginn kemur.


Meirihluti bæjarstjórnar vill með þessu bréfi kynna hugmynd um að elstu börnum leikskólans standi til boða að hætta á leikskólanum eftir sumarfrí og í staðinn verði þau á frístundaskólanum við Þórsmörk í öruggri gæslu en við aðra iðju og í öðru umhverfi en áður. Með þessu móti venjast þau við frístundaskólann og leiði sem mögulega gæti gert vart við sig síðustu vikurnar á leikskólanum ætti að heyra sögunni til.

Með markvissu og skemmtilegu starfi sem eingöngu væri sniðið að þörfum þessara barna gæti þetta orðið afar skemmtilegur valkostur.

Umsjónarmaður sumarfrístundar yrði Ásta María Guðbrandsdóttir, nemi í tómstundafræðum en henni til halds og trausts yrðu leikskólastjórarnir báðir og fleiri starfsmenn eftir sem þurfa þykir.

Sumarfrístundin fyrir elstu leikskólabörnin væri gjaldfrjáls en foreldrar og forráðamenn þeirra barna sem myndu velja þennan valkost myndu nesta börn sín með morgunhressingu en hádegisverður og síðdegishressing væri í boði gegn gjaldi. Í sumar myndi þetta vera ákveðið tilraunaverkefni sem hægt væri að þróa áfram ef vel reynist.

Börnum á Óskalandi stendur til boða að hefja dvöl í sumarfrístund þann 21. júlí en börnum á Undralandi þann 5. ágúst. Sumarfrístund væri starfrækt á milli kl. 8 og 17:15 á virkum dögum.
Sumarfrístund væri að störfum fram að skólabyrjun í 1. bekk.

Þeir sem hafa áhuga á því að börn þeirra taki þátt í sumarfrístund vinsamlegast hafið samband við leikskólastjóra viðkomandi barns hið allra fyrsta.

Með bestu kveðjum

Aldís Hafsteinsdóttir

Bæjarstjóri