Strætó veitir góða þjónustu

skrifað 02. des 2011

Nú þegar veður gerast válynd og færð fer að þyngjast er gott að vita af öruggum ferðum Strætós hér á milli Hveragerðis og Reykjavíkur.

Fjöldi Hvergerðinga ferðast daglega með vögnunum til og frá vinnu og þeim nemendum skóla á höfuðborgarsvæðinu sem velja að búa áfram í foreldrahúsum þó nám sé sótt til Reykjavíkur fjölgar stöðugt. Slíkt er enda bæði fjárhagslega hagkvæmt og afskaplega þægilegt.

Strætó býður SMS þjónustu sem er með þeim hætti að notendur skrá farsímanúmer sitt hjá Strætó og fá í kjölfarið send SMS skilboð falli niður ferðir af einhverjum ástæðum eða ef óviðráðanlegar seinkanir verða. Það getur verið afskaplega gott að fá þessar upplýsingar beint í símann áður en lagt er af stað út en ekki þegar staðið er á biðstöðinni í Shell. SMS þjónustan er pöntuð í þjónustuveri sími 540-2700.

Ef farþegar hafa ábendingar og kvartanir vegna þjónustu Strætó er lang best að þeim sé beint til þjónustuvers Strætó - sími 540-2700. Nokkuð er um að kvartanir og ábendingar berist bæjarskrifstofu sem í raun er óþarfur milliliður í þessum efnum.

En samkvæmt upplýsingum þjónustuvers hafa litlar sem engar seinkanir orðið vegna veðurs undanfarna daga. Passað er uppá að farþegar nái sínum tengivögnum þannig að allt er gert til að þjónusta við notendur leiðar 51 sé sem allra best.

Aldís Hafsteinsdóttir bæjarstjóri