Stórframkvæmdir í Kömbunum

skrifað 03. apr 2013
Yfiirlitsmynd yfir verksvæðiðYfiirlitsmynd yfir verksvæðið

Bæjarstjórn Hveragerðisbæjar hefur gefið út framkvæmdaleyfi fyrir framkvæmdinni „Hringvegur um Kamba – Breikkun”. Framkvæmdin felur í sér breikkun Hringvegar um Kamba í fjórar akreinar með vegriði á milli gagnstæðra akreina. Frá hringtorgi við Hveragerði að neðstu beygju í Kömbum verður sett vegrið á milli gagnstæðra akreina. Í Kömbum verða sett undirgöng fyrir óvarða vegfarendur (gangandi, hjólandi og ríðandi).

„Umrætt verk felur í sér gerð 1+2 vegar frá Hamragilsvegi að Kambabrún með vegriði á milli gagnstæðra akreina og 2+2 vegar í þröngu sniði um Kamba, einnig með vegriði á milli gagnstæðra akreina. (Þröngt snið merkir að ekki er grassvæði á milli gagnstæðra akreina eins og er t.d. á vegakaflanum á Sandskeiði). Einungis vegakaflinn um Kamba er innan bæjarmarka Hveragerðis. Því nær umrætt framkvæmdaleyfi aðeins til þess hluta vegarins. Hveragerðisbær veitir sem sagt Vegagerðinni framkvæmdaleyfi fyrir þessari framkvæmd. Vegagerðin ber allan kostnað af henni,“ sagði Guðmundur F. Baldursson, skipulags- og byggingarfulltrúi Hveragerðisbæjar þegar hann var spurður út í málið. Eftir því sem best verður komist þá verður Hringvegur frá Hamragilsvegi að neðstu beygju í Kömbum boðinn út á næstu dögum. Skv. upplýsingum, sem finna má á heimasíðu Vegagerðarinnar eiga framkvæmdirnar að hefjast á þessu ári og verklok verða árið 2015. Verkið verður boðið út núna í apríl en reiknað er með að heildarkostnaður þess verði í kringum tveir milljarðar króna.

Fréttin er af www.dfs.is