Sögur frá Hveragerði --- RÚV í 50 ár

skrifað 03. maí 2016
RúvRúv

Á þessu ári eru fimmtíu ár síðan Ríkisútvarpið hóf sjónvarpsútsendingar og á þessum fimmtíu árum hefur það sýnt ógrynni af efni allstaðar að af landinu. Af því tilefnið ætlar RÚV að ráðast í gerð sjónvarpsþáttanna Í 50 ár en það eru níu sjónvarpsþættir sem sendir verða út í sumar frá níu vel völdum stöðum af landinu þar sem rifjaðar verða upp sögur og svipmyndir af sjónvarpssögu viðkomandi landshluta.

Eftirfarandi erindi barst frá RÚV til bæjarskrifstofu nú nýverið.

Nú er um að gera að láta hugann reika og rifja upp gamlar minningar og myndbrot frá Hveragerði sem gætu hafa ratað í sjónvarp allra landsmanna. Ef við viljum sjá þetta aftur þá er tækifærið núna...

Góðan og blessaðan daginn

Hér og þar Í 50 ár – ný þáttaröð á dagskrá RÚV í sumar Sögurnar úr sjónvarpinu - Í 50 ár er ný sjónvarpsþáttaröð sem sýnd verður á RÚV í sumar - Svipmyndir og sjónvarpssögur frá 9 landshlutum í 9 þáttum - Fyrsti þáttur á dagskrá 26. júní - Sýndir á sunnudögum kl. 19.35 - Umsjónarmenn Gísli Einarsson og Guðrún Gunnarsdóttir

Á þessu ári eru fimmtíu ár síðan Ríkisútvarpið hóf sjónvarpsútsendingar og á þessum fimmtíu árum hefur það sýnt ógrynni af efni allstaðar að af landinu. Af því tilefnið ætlar RÚV að ráðast í gerð sjónvarpsþáttanna Í 50 ár en það eru níu sjónvarpsþættir sem sendir verða út í sumar frá níu vel völdum stöðum af landinu þar sem rifjaðar verða upp sögur og svipmyndir af sjónvarpssögu viðkomandi landshluta. Umsjónarmenn verða Gísli Einarsson og Guðrún Gunnarsdóttir en dagskrárgerð verður í höndum Karls Sigtryggssonar.

Á síðustu fimmtíu árum hefur sjónvarpið átt sinn þátt í að móta ímynd heilu byggðarlaganna og jafnvel um leið haft áhrif á sjálfsmynd íbúanna á hverjum stað. Sjónvarpið hefur meðal annars farið með áhorfendur á staði sem margir hefðu ekki annars fengið að kynnast og sýnt þeim eitt og annað sem þeir hefðu að öðrum kosti farið á mis við. „Við ætlum að gera út frá níu þéttbýlisstöðum en leggjum net um landið allt, og miðin,“ segir Gísli. Og Gísli kallar eftir þátttöku þjóðarinnar við að gera þættina sem skemmtilegasta: „Við viljum gjarnan fá sjónvarpsáhorfendur í lið með okkur við að rifja upp og velja sögur til að segja og eftirminnilegar svipmyndir til að sýna. Flestir muna eftir einhverju skemmtilegu, úr sjónvarpinu, frá sínum heimabæ, heimahéraði eða landshluta. Margir muna eftir því þegar einhver þeim nákominn kom fram í sjónvarpi fyrir árum eða áratugum og fór gjörsamlega á kostum! Eða kannski ekki alveg. Fólk man eftir einhverju sem það vill endilega sjá eða efni sem það vill alls ekki sjá oftar!“ RÚV óskar sérstaklega eftir ábendingum tengdum einstökum stöðum og landshlutum. Söfnun hugmynda fer fram á Facebook-síðu RÚV þar sem hægt verður að setja inn ábendingarnar um gamalt og gott sjónvarpsefni frá hverjum stað fyrir sig.

Fyrstu staðirnir, sem kallað verður eftir ábendingum um, verða Höfn í Hornafirði (Suð-Austurland) og Vestmannaeyjar.

„Við hvetjum sjónvarpsáhorfendur allra tíma til að leggja höfuðið í bleyti og kíkja svo inn á Facebook síðu RÚV og leggja orð í belg,“ segir Gísli að lokum.

Facebook síða RÚV