Snjómokstur og hálkueyðing

skrifað 09. jan 2012
Bylur í janúarBylur í janúar

Frá því í byrjun desember sl. hefur ríkt hér á landi óvenjumikil kuldatíð, með snjókomu og flughálku. Leita þarf allt aftur til níunda áratugs síðustu aldar til að finna sambærilegt veðurfar á þessum árstíma og því hefur mikið mætt á starfsmönnum áhaldahúss eins og gefur að skilja. Frá því í byrjun aðventu, hafa þeir verið önnum kafnir við snjómokstur og hálkueyðingu. Jafnframt hafa þeir séð um uppsetningu á jólaljósaskreytingum á götum, torgum, og stofnunum bæjarins, sem er mikið verk. Verktakar hafa verið kallaðir til við að létta undir með þeim við snjómoksturinn og hafa þeir lagt sig alla fram við það. Því miður hefur ekki alltaf þannig til tekist að öllum líki og viðunandi megi teljast en óhætt er að segja að starfsmenn áhaldahúss hafa gert sitt besta. Íbúar hafa sýnt ástandinu mikla þolinmæði og eiga þeir þakkir skildar fyrir það. Við þessar aðstæður þurfa allir að fara varlega, sýna tillitssemi í umferðinni og vera sérstaklega vel útbúnir til gönguferða í hálkunni.

Hér má sjá hvernig skipulagi er háttað við snjómokstur gatna.

Íbúar geta fengið sand og salt í fötur á gámasvæðinu. Opið er virka daga frá kl. 16:00 til kl. 18:00 og laugardaga frá kl. 14:00 til kl. 18:00. Sunnudagar Lokað. Eingöngu er sett í fötur sem íbúar koma með með sér.

Guðmundur F. Baldursson Skipulags- og byggingafulltrúi