Skoðanakönnun um sameiningu

skrifað 17. mar 2014
Fjölmenni sækir ávallt sýninguna Blóm í bæ . Fjölmenni sækir ávallt sýninguna Blóm í bæ .

Eftirfarandi breytingatillaga frá fulltrúum meirihlutans var samþykkt samhljóða á fundi bæjarstjórnar þann 13. mars 2014.

Bæjarstjórn samþykkir að samhliða sveitarstjórnarkosningum fari fram skoðanakönnun meðal bæjarbúa þar sem spurt verði um afstöðu þeirra til sameiningar við önnur sveitarfélög.

Spurt verði um það hvort að viðkomandi vilji sameinast öðru sveitarfélagi og ef svarið er já verði gefnir 3-4 kostir um sameiningu sem viðkomandi getur þá valið um.
Skoðanakönnunin verði ráðgefandi fyrir næstu sveitarstjórn sem vinna mun úr niðurstöðunni í samvinnu við önnur sveitarfélög og í samræmi við 119. grein sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011.

Öðrum sveitarfélögum í Árnessýslu verði kynnt þessi áform bæjarstjórnar Hveragerðisbæjar og geta þau þá fylgt í kjölfarið með eigin skoðanakönnun sjái þau ástæðu til þess.

Skipaður verði starfshópur sem leggi tillögu að endanlegri framsetningu spurninganna fyrir næsta fund bæjarstjórnar. Sami starfshópur sjái um framkvæmd skoðanakönnunarinnar og skili niðurstöðum um leið og niðurstöður í sveitarstjórnarkosningum liggja fyrir.

Eftirfarandi greinargerð var lögð fram með breytingatillögunni:
Það vekur athygli að í tillögu Jóhönnu Ýrar er gert ráð fyrir íbúakosningu um sameiningu Sveitarfélagsins Ölfuss og Hveragerðisbæjar þann 31. maí næstkomandi. Síðan kemur fram að viðræður milli sveitarfélaganna eiga að fara fram eftir kosningu íbúanna.

Þessi framgangsmáti er í hæsta máta furðulegur og brýtur raun í gegn bæði lögum og viðteknum venjum um sameiningar sveitarfélaga. Meirihlutinn vekur athygli á að skv. 119. gr. laga um sveitarstjórnir nr. 138/2011 er sameiningarferli tveggja sveitarfélaga sett í ákveðið ferli til að tryggja að ítarlegar og óvilhallar upplýsingar ráði ákvarðanatöku íbúanna í íbúakosningu um málið. Til dæmis þarf tillaga um kosningu tvær umræður í bæjarstjórn. Tillaga um sameiningu ásamt helstu forsendum skal síðan kynnt tveimur mánuðum áður en kosið er.

Engin umræða hefur farið fram í bæjarfélaginu um sameiningu við önnur sveitarfélög en brýnt er að slík umræða sé tekin af yfirvegun, á grundvelli gagna og í fullu samráði við íbúa þeirra sveitarfélaga sem hér um ræðir.

Meirihlutinn er aftur á móti tilbúinn til að fá fram leiðbeinandi línur frá bæjarbúum um það hvort að við viljum áfram vera sjálfstætt sveitarfélag eða hluti af öðru stærra. Því er hér lagt til að farið verði í leiðbeinandi skoðanakönnun og afstaða íbúa þannig fengin fram áður en lengra er haldið.

Tillaga Jóhönnu Ýrar Jóhannsdóttur sem lögð var fram í upphafi fundar var svohljóðandi:

Í 102. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 segir um rétt íbúa til að hafa áhrif á stjórn sveitarfélags: „Sveitarstjórn skal leitast við að tryggja íbúum sveitarfélagsins og þeim sem njóta þjónustu þess möguleika til að taka þátt í og hafa áhrif á stjórn sveitarfélagsins og undirbúning stefnumótunar.“ Í sömu grein segir að áhrif íbúa megi m.a. tryggja með íbúakosningum. Skv. 107. gr. sömu laga segir að „sveitarstjórn ákveður hvort fram skuli fara almenn atkvæðagreiðsla meðal íbúa sveitarfélagsins um einstök málefni þess“.

Til íbúakosninga þarf að boða með minnst fjögurra vikna fyrirvara, sbr. 107. gr. sveitarstjórnarlaga. Tíminn er því nægur. Kostnaður við kosninguna yrði óverulegur enda færi hún fram samhliða bæjarstjórnarkosningum. Eðlilegt er að íbúar sveitarfélaganna fái að taka ákvörðun um hvort ganga eigi til viðræðna um sameiningu.

Nánari greinargerð má sjá undir liðnum "fundargerðir" á forsíðu heimasíðunnar.